Svo virðist sem mennirnir hafi verið blekktir til að ganga til liðs við rússneska herinn en þeir héldu að verið væri að bjóða þeim vinnu við allt annað. Þetta sagði Randhir Jaiswal, talsmaður indverska utanríkisráðuneytisins, að sögn Reuters.
Hann sagði að yfirvöld hafi komið upp um samtök glæpamanna sem lokka indverska ríkisborgara til Rússland með gylliboðum um vinnu, til dæmis í þjónustustörfum hjá hernum. Síðan eru Indverjarnir neyddir til að skrifa undir samninga um að þeir gangi til liðs við herinn og muni berjast í Úkraínu.
Segja indversk yfirvöld að um 20 indverskir menn sitji nú fastir í Rússlandi og tveir hafi nú þegar fallið á vígvellinum í Úkraínu.
The Indian Express segir að sjö menn, sem sendu frá sér myndband með hjálparbeiðni til indverskra yfirvalda, hafi komið til Rússlands 27. desember 2023 og hafi þá hitt mann sem bauðst til að fara með þá til Belarús. Þegar þangað var komið áttu Indverjarnir ekki næga peninga til að borga honum og skildi hann þá þá eftir á þjóðvegi einum. Þar tók lögreglan þá og afhenti rússneska hernum þá.
Í myndbandinu segja mennirnir að þeir hafi því næst verið fluttir á óþekktan stað þar sem þeir voru læstir inni dögum saman. Því næst, undir hótunum um margra ára fangelsisvist, voru þeir neyddir til að skrifa undir samning um þeir myndu starfa sem bílstjórar og kokkar hjá rússneska hernum. Eða það töldu þeir en samningurinn var á rússnesku og hljóðaði í raun upp á að þeir væru að ganga til liðs við herinn sem hermenn og myndu berjast í Úkraínu.
Þeir voru síðan sendir í herbúðir þar sem þeir fengu þjálfun í meðferð skotvopna og síðan voru þeir fluttir til Úkraínu.