Þetta segir hann í stóru viðtali við rússnesku ríkisfréttastofuna RIA og ríkissjónvarpsstöðina Rossyia-1. Hann segir einnig að innganga Finna og Svía í NATÓ sé „tilgangslaust skref“.
„Þetta er algjörlega tilgangslaust skref (fyrir Finnland og Svíþjóð, innsk. blaðamanns) út frá sjónarhorninu um að tryggja þjóðarhagsmuni sína. Við vorum ekki með hersveitir þar (við finnsku landamærin, innsk. blaðamanns) en nú verða þeir þar. Það voru ekki vopnakerfi þar, nú verða þau þar,“ sagði Pútín.
Finnar fengu aðild að NATÓ í apríl á síðasta ári en Svíar í síðustu viku.
Finnland á 1.340 km löng landamæri að Rússlandi.
Pútín segir einnig í viðtalinu að Rússar séu reiðubúnir til að beita kjarnorkuvopnum ef fullveldi landsins sé ógnað og að þeir hafi aldrei haft neina þörf fyrir að beita kjarnorkuvopnum í Úkraínu.