Birtir hafa verið tveir dómar sem hafa fallið undanfarna mánuði hjá Héraðsdómi Norðurlands vestra þar sem ofbeldi karlmanns gegn kærustu taldist ekki vera brot í nánu sambandi eins og það er skilgreint í almennum hegningarlögum.
Annars vegar var karlmaður sakfelldur fyrir líkamsárás. Samkvæmt ákæru var honum gert að sök að hafa í febrúar á síðasta ári veist að unnustu sinni, rifið í hendur hennar, axlir og bringu, ýtt henni og hrint henni, kýlt til hennar og sparkað í hana ásamt því að taka hana kyrkingartaki. Afleiðingar af árásinni var að konan meðal annars húðblæðingar og þreifieymsl á hálsi, klóför, skurð á vör og marbletti og mar víða um líkamann.
Maðurinn játaði sök en taldi brotið varða við ákvæði um líkamsárás en ekki ákvæði sem fjallar um brot í nánu sambandi. Dómari rakti að samkvæmt ákvæðinu geti það varðað allt að sex ára fangelsi ef maður endurtekið eða á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka eða sambúðaraðila með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt.
Hér væri aðeins um að ræða eitt atvik. Þá kæmi til skoðunar hvort það væri nægilega alvarlegt svo ákvæðið ætti við. Áverkar einir og sár væru ekki nægilega alvarlegir. Kverkatak gæti talist alvarlegt brot en hér væri ekki ljóst hvort maðurinn hafi þrengt af afli að hálsi konunnar. Þar með væri brotið ekki svo alvarlegt að ákvæði um brot í nánu sambandi ætti við.
Maðurinn var á skilorði þegar brotið átti sér stað, en hann hafði áður verið sakfelldur fyrir líkamsárás og brot gegn barnaverndarlögum. Þar með hafi hann rofið skilorð. Þar sem hann og konan væru enn saman og hún lýsti því yfir að hún vildi heldur að ákærði leitaði sér hjálpar en að honum yrði refsað taldi dómari því rétt að ákveða fangelsi í þrjá mánuði, en skilorðsbinda refsinguna til tveggja ára.
Hitt málið varðaði brot sem áttu sér stað árið 2021. Annars vegar var manninum gert umferðarlagabrot fyrir að hafa ekið bifreið undir áhrifum vímuefna.
Hins vegar var hann ákærður fyrir líkamsárás og ofbeldi í nánu sambandi fyrir að hafa í ágúst 2021 veist ítrekað að þáverandi unnustu sinni. Meðal annars hafi maðurinn reynt að kæfa hana, tók hana hálstaki, setti hluti fyrir andlit hennar, lagðist ofan á hana og setti þrýsting að hálsi hennar, hent henni inn í herbergi með hótunum og ofbeldi og meinað henni að yfirgefa herbergið til að fara á salerni. Við þetta hafi konan hlotið eymsli í hnakka, kinnbeinum og kjálkabeini, skrámur, eymsli á hálsi, og roða á bringu og úlnliðum.
Maðurinn neitaði því að hafa gerst sekur um brot í nánu sambandi. Málið var endurupptekið að ósk ákærða í nóvember og ákvað ákæruvaldið þá að falla frá heimfærslu um brot í nánu sambandi. Þess í stað væri maðurinn ákærður fyrir líkamsárás. Segir í dómi að sú ákvörðun hafi verið tekin í ljósi dóms sem hafi nýlega fallið í Landsrétti, en ekki er tekið fram hvaða dóm um ræðir. Eftir breytinguna játaði maðurinn sök og var dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi.