Í gær opnaði Pósturinn nýtt pósthús á Stórhöfða 32 í Reykjavík sem kemur í stað þess sem var á Höfðabakka. Starfsfólkið tók á móti fyrstu viðskiptavinum dagsins, glatt í bragði, eins og segir í tilkynningu.
Kjartan Flosason, forstöðumaður pósthúsa, segir að vel hafi tekist til. „Aðkoma fyrir viðskiptavini á Stórhöfða er mun betri og þar eru næg bílastæði.“
Á sama stað er auk þess sérstök vörumóttaka fyrir fyrirtæki sem eflaust mun spara einhverjum sporin. „Eins og fyrirtækin, sem eru í viðskiptum hjá okkur, þekkja vel er hægt að keyra inn í Póstmiðstöðina á hliðinni og skila af sér pökkum,“ segir hann.
Nýmálaðir veggir og nýuppgerð afgreiðsluborð prýða pósthúsið á Stórhöfða. „Við nýttum allt sem var heillegt af gamla pósthúsinu við Höfðabakka, flikkuðum upp á það og settum rauða póstlitinn á veggina,“ segir Kjartan.