fbpx
Mánudagur 07.júlí 2025
Fréttir

Fékk feitan reikning frá VÍS eftir umferðarslys á Reykjanesbraut

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 23. mars 2023 12:30

Frá Reykjanesbraut. Mynd tengist frétt ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður sem olli umferðarslysi á Reykjanesbraut haustið 2020 var neyddur til að greiða Vátryggingafélagi Íslands yfir þrjár milljónir króna. Hann stefndi tryggingafélaginu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem hann krafðist endurgreiðslu, en dómur féll í málinu 21. mars.

Tekist var á um hvort maðurinn hefði valdið slysinu með stórkostlegu gáleysi eða hvort um óhappatilvik hefði verið að ræða. Hann ók aftan á röð kyrrstæðra bíla í umferðarteppu á Reykjanesbraut skammt sunnan gatnamóta Álftanesvegar og Reykjanesbrautar. Maðurinn ók eftir Reykjanesbraut til suðurs og lenti á kyrrstæðu bílunum þegar hann var kominn yfir gatnamótin við Álftanesveg, en hann ók yfir þau fremstur bíla í þeirri akstursstefnu á grænu umferðarljósi. Þetta olli keðjuverkun, þ.e. bíllinn sem maðurinn keyrði á kastaðist á næsta bíl fyrir framan og sá bíll lenti á þarnæsta bíl.  „Stefnandi og ökumaður bifreiðarinnar sem hann ók á voru flutt af slysstað með sjúkrabíl og voru þær bifreiðar sem þau óku fluttar af vettvangi með kranabifreið, en tvær fremstu bifreiðarnar sem ákomur voru á voru ökufærar eftir áreksturinn,“ segir í lýsingu héraðsdóms á atvikinu.

Maðurinn var á fyrirtækisbíl sem var tryggður lögboðinni ábyrgðartryggingu og kaskótryggingu. VÍS greiddi bætur fyrir tjónið en sótti síðan um beiðni um endurkröfu á bílstjórann til endurkröfunefndar. Endurkrafa á manninn var samþykkt og fékk hann rukkun upp á 3.234.363 kr. fyrir samtals bæturnar úr ábyrgðartryggingu og kaskótryggingu.

Maðurinn greiddi kröfuna með fyrirvara um lögmæti hennar og áskildi hann sér rétt til að fá hana endurgreidda.

Viðurkenndi að hafa ekki verið með hugann við aksturinn

Í lögregluskýrslu sem var gerð var eftir atvikið sagði að bílstjórinn hefði viðurkennt í skýrslutöku að hafa ekki verið með hugann við aksturinn og að hann hafi líklega verið á um 50 km/klst. hraða þegar óhappið varð. Vitni sagði manninn hafa verið að nota farsíma þegar slysið varð en allt bendir til að svo hafi ekki verið heldur hafi síminn verið í sogskálarsímastandi ofan á mælaborðinu, en úr fjarlægð getur það litið út eins og ökumaður sé að nota símann. Í niðurstöðu dómsins sagði:

„Framburður stefnanda um farsímanotkun er studdur af framburði samstarfsmanns hans fyrir dómi um þær venjur stefnanda við farsímanotkun við vinnu og akstur að hann hafi ætíð notað handfrjálsan búnað og að farsími hans væri festur í statífi með sogskál, sem hann ætti sjálfur, í framrúðu vinnubifreiðarinnar. Um farsímanotkun var stefnandi einskis spurður á vettvangi slyss og hvorki lögregla né stefndi hafa gert reka að rannsókn á farsímanotkun hans í aðdraganda slyssins. Við málflutning kom fram að stefnandi hefði, eftir að endurkrafan kom fram, sjálfur reynt að afla upplýsinga um þetta frá símafyrirtæki, en þá hafi verið of langt um liðið og öllum gögnum verið eytt. Stefnanda hefur aldrei verið gerð sekt fyrir brot gegn ákvæðum umferðarlaga vegna þessa atviks.“

Við heildstætt mat féllst dómurinn ekki á að maðurinn hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi er slysið varð og þar með hefði skilyrðum um endurkröfu á hann ekki verið fullnægt. Gekk því dómurinn að fullu að kröfu mannsins og er VÍS dæmt til að greiða honum 3.234.363 kr. ásamt dráttarvöxtum. Einnig þarf tryggingafélagið að greiða honum tvær milljónir í málskostnað.

Dóminn má lesa hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ymur Art sakfelldur fyrir morð á móður sinni en honum ekki gerð refsing

Ymur Art sakfelldur fyrir morð á móður sinni en honum ekki gerð refsing
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ísraelar fagna eftir lokaðan fund Eurovision – Íslendingum og Slóvenum tókst ekki að reka þá úr keppninni

Ísraelar fagna eftir lokaðan fund Eurovision – Íslendingum og Slóvenum tókst ekki að reka þá úr keppninni
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Harmleikurinn á Edition-hótelinu – Gæsluvarðhald framlengt um fjórar vikur

Harmleikurinn á Edition-hótelinu – Gæsluvarðhald framlengt um fjórar vikur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hart tekist á um Fannborgarreitinn í Kópavogi – Bílastæði séu einhliða tekin af íbúum

Hart tekist á um Fannborgarreitinn í Kópavogi – Bílastæði séu einhliða tekin af íbúum