fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Fréttir

Morðið á Önnu Friðriksdóttur hefur aldrei verið leyst – „Yngsti bróðir minn var heima þegar þetta gerðist“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 24. desember 2023 09:00

Anna var 33 ára þegar hún var myrt í smábænum San Pablo nálægt San Francisco.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 1. október árið 1981 var ung íslensk kona myrt í smábæ nálægt San Francisco í Bandaríkjunum. Hún hét Anna Friðriksdóttir Daniels og var fjögurra barna móðir sem flutt hafði til Kaliforníu með bandarískum eiginmanni sínum. Anna var stungin til bana á heimili sínu af ókunnugum manni sem braust inn um hurðina þegar hún var ein heima með yngsta syni sínum.

Málið var forsíðumál íslenskra dagblaða en var aldrei upplýst.

DV ræddi við Yvonne, elstu dóttur Önnu, sem var tólf ára þegar móðir hennar var myrt. Atburðurinn hafði gríðarleg áhrif á líf hennar og óvissan hefur nagað hana allar götur síðan. Hún hefur sínar eigin kenningar um málið enda leit það ekki út fyrir að hafa verið venjulegt rán.

 

Giftist dáta

Anna Friðriksdóttir var fædd 21. ágúst árið 1948, þriðja barn hjónanna Unu Indriðadóttur húsmóður og Friðriks Ó. Sigurðssonar verkamanns hjá Eimskipum í sjö systkina hópi. Anna var elsta barnið sem komst á legg. Fjölskyldan bjó framan af á Sogamýrarblettinum í Reykjavík en árið 1966 fluttu þau á Kleppsveginn þar sem þau bjuggu þar til Anna flutti að heiman.

Eins og margar ungar íslenskar konur kynntist Anna bandarískum dáta, John Neptune að nafni og tókust með þeim ástir.

„Hún hitti pabba minn sem var í sjóhernum, staðsettur á Íslandi. Þau giftu sig frekar snemma í sínu sambandi,“ segir Yvonne Neptune, elsta barn Önnu.

John Neptune var í sjóhernum staðsettur á Íslandi.

Anna og John giftu sig á Íslandi þegar hún var innan við tvítugt. Þau fluttu út til Bandaríkjanna árið 1968 og ári seinna fæddist Yvonne.

John var frá bænum Mount Shasta, norðarlega í Kaliforníu, og fluttu þau inn til foreldra hans þar. John var hins vegar áfram í hernum og því var Anna fyrst um sinn ein hjá tengdaforeldrum sínum. Anna vann ekki úti heldur gerðist húsmóðir og sá um fjölskylduna.

Árið 1972 eignuðust Anna og John annað barn, soninn John Ómar.

 

Sagan verður skrýtin

„Það er á þessum tíma sem sagan verður skrýtin,“ segir Yvonne.

Á meðan Anna og John voru gift kynntist hún öðrum manni, Charles Daniels að nafni. Charles var hins vegar ekki frjáls maður heldur fangi í fangelsinu í bænum Vacaville, norðan við San Francisco. Þau felldu hugi saman og að lokum skildi hún við John.

„Stjúpfaðir minn var í fangelsi þegar mamma kynntist honum. Ég held að þau hafi verið pennavinir í fyrstu. Síðan skildi hún við föður minn til að taka saman við hann,“ segir Yvonne.

Charles Daniels var dæmdur kynferðisbrotamaður sem einhvern veginn náði taki á Önnu. „Við fluttum til Vacaville og biðum eftir að hann kæmi úr fangelsi,“ segir Yvonne.

 

Giftist raðnauðgara

Yvonne var á leikskóla þegar þetta var að gerast og man ekki vel eftir þessum tíma. En eftir að Charles kom úr fangelsi giftust þau Anna og fjölskyldan flutti til San Francisco.

Charles hætti ekki að brjóta af sér. Árið 1976 þegar hann var 27 ára og starfaði sem öskubílstjóri var hann dæmdur fyrir að hafa nauðgað eða reynt að nauðga fimm konum. Ári seinna var hann dæmdur fyrir mannrán, rán og líkamsárás með vopni.

Charles Daniels var í fangelsi stærstan hluta ævinnar.

Charles var þá sendur í hið alræmda fangelsi San Quentin, nálægt San Francisco, og afplánaði þar lífstíðardóm.

Þrátt fyrir allt þetta skildi Anna ekki við hann heldur eignaðist með honum tvö börn, Maju og Ryan.

„Ég skil ekki af hverju hún ákvað að skilja ekki við hann,“ segir Yvonne.

 

Falleg kona sem átti mörg leyndarmál

Anna bjó nú ein með fjögur ung börn á stað sem heitir San Pablo, nálægt San Francisco. Yvonne segir að þau hafi búið í tveggja herbergja íbúð í fjölbýlishúsi í frekar skuggalegu hverfi, á frekar afskekktum og einangruðum stað. Lífið var hark.

„Hún talaði oft við foreldra sína í síma. Ég talaði líka við þau,“ segir Yvonne um tengslin við Ísland á þessum tíma. Sjálf fór hún einu sinni til Íslands, þegar hún var fjögurra eða fimm ára gömul, og dvaldi þá hjá ömmu sinni og afa á Kleppsveginum.

„Mamma var mjög falleg. Hún var mjög hlédræg kona og hélt mörg leyndarmál. Ég veit ekki mikið um hana af því að ég var svo ung. Ég veit að hún átti aðra kærasta en ég sá þá aldrei,“ segir Yvonne aðspurð um hvernig kona móðir hennar var.

 

Morðið

Árið 1980 lést Friðrik, faðir Önnu. Skömmu eftir það virðist sem Anna hafi fengið nóg af veru sinni í Bandaríkjunum.

„Það stóð til að við myndum flytja til Íslands. Við vorum að undirbúa flutninginn þegar hún var myrt,“ segir Yvonne.

Morgunblaðið 7. október 1981.

Það var miðvikudaginn 1. október árið 1981 sem bankað var hjá Önnu, sem var þá 33 ára gömul. Hún var ein heima með Ryan litla, sem var þá aðeins eins árs gamall.

„Yngsti bróðir minn var heima þegar þetta gerðist. Það var ekkert gert við hann. Við hin vorum öll í skólanum,“ segir Yvonne. „Hurðin var með lítilli lásakeðju. Þegar hún opnaði litla rifu á hurðina til að athuga hver væri að banka var hurðinni ýtt inn. Síðan skeði þetta.“

Árásarmaðurinn braut upp keðjuna, tók upp eggvopn og stakk Önnu til bana. Yvonne segist ekki vita til þess að neinu hafi verið stolið. Árásarmaðurinn hvarf á braut áður en lögregla kom á staðinn.

 

Forsíðufrétt á Íslandi

Dagblaðið birti fyrst fregnir af morðinu heim til Íslands mánudaginn 5. október. Staðsetningin var hins vegar röng því blaðamenn töldu að morðið hefði átt sér stað í Los Angeles. Það var leiðrétt degi seinna.

Í fréttinni kemur fram að Dagblaðið hafi haft samband við Höllu Linker, ræðismann Íslands í Los Angeles, sem hafði ekki heyrt af málinu. Heldur ekki Þorsteinn Ingólfsson hjá utanríkisráðuneytinu.

Dagblaðið 5. október 1981.

Degi seinna og nokkuð reglulega eftir þetta birtust fréttir þar sem kom fram að banamaður Önnu væri enn þá ófundinn. Í Dagblaðinu þann 6. október kom fram hjá Þorsteini að lögreglurannsókn færi fram og Donald Stoneson, ræðismaður Íslands í San Francisco fylgdist með henni. Morgunblaðið, Tíminn og fleiri dagblöð sögðu einnig frá málinu.

Dagblaðið 6. október 1981.

Þann 14. október sagði í frétt Dagblaðsins að málið væri enn þá óupplýst. Morð væru tíð í San Pablo og sum þeirra upplýstust aldrei. Rannsókn væri hins vegar enn þá yfirstandandi og utanríkisráðuneytinu yrði skýrt frá því ef þetta myndi skýrast.

 

Lögreglan vaktaði börnin

Yvonne lýsir þessu sem svolítið óraunverulegum tíma.

„Ég man eftir að hafa verið í áfalli,“ segir Yvonne. „Við vorum send á fósturheimili í nokkra daga. Síðan kom pabbi minn og sótti okkur. Hann fór með okkur öll fjögur til Mount Shasta og bjuggum þar hjá ömmu minni.“

Lík Önnu var brennt og flutt heim til Íslands. Kveðjuathöfn fór fram 10. nóvember í Fossvogskirkju en börnin fengu ekki að fara til Íslands til að vera viðstödd.

„Rannsóknin stóð yfir í nokkurn tíma. Lögreglan fylgdist með okkur um stund því þeir óttuðust að einhver kynni að vilja skaða okkur,“ segir Yvonne.

Hins vegar var enginn handtekinn og enginn grunaður og að lokum dagaði rannsóknin uppi.

„Þetta var mikið áfall fyrir mig. Þetta var mikið áfall fyrir okkur öll. En ég var elst og vissi mest hvað var að gerast,“ segir Yvonne.

 

Glímdi við fíkn eftir morðið

Eftir morðið á Önnu tvístruðust börnin hennar fjögur. Yvonne bjó áfram hjá ömmu sinni í Mount Shasta. John Ómar flutti til föður þeirra en yngri börnin tvö fluttu til föðursystur sinnar og ömmu í Oakland.

Yvonne átti mjög erfitt eftir að móðir hennar var myrt og leiddist út í fíknivandamál í langan tíma. Hún sigraðist hins vegar á fíkninni að lokum og starfar nú sem áfengis og fíkniefnaráðgjafi á meðferðarstofnun. Hún hefur búið í bænum St. Helens í Oregon fylki í um 20 ár og á tvö börn.

Yvonne starfar í dag sem ráðgjafi í St. Helens í Oregon.

„Líf mitt er gott núna. En þetta var basl á sínum tíma, eftir að hún dó. Það var mjög erfitt,“ segir hún.

Yvonne er enn þá í sambandi við systkini sín fjögur, sem öll búa á vesturströnd Bandaríkjanna. Hún hefur einnig haft upp á íslensku frændfólki sínu í gegnum samfélagsmiðla. Meðal annars tvo móðurbræður sína.

 

Grunar stjúpföðurinn

Þrátt fyrir að vera á mun betri stað í dag en á yngri árum þá leitar hið óupplýsta morð enn þá á Yvonne og hún telur að stjúpfaðir sinn Charles hafi haft eitthvað að gera með það þó hann hafi verið á bak við lás og slá. Að hann hafi ráðið einhvern til þess að fremja ódæðið.

„Ég held að stjúpfaðir minn hafi staðið á bak við þetta. Hann var að missa stjórn á móður minni og hún var að fara frá honum,“ segir Yvonne. „Ég held að þetta hafi verið hans leið til að stöðva þetta.“

Charles var vistaður í San Quentin næstum því til æviloka. Hann fékk krabbamein og var sleppt út árið 2019 af mannúðarástæðum. Það sumar lést hann.

„Yngri bróðir minn Ryan, sem var í íbúðinni, spurði hann beinlínis hvort hann hafi haft eitthvað að gera með morðið. Hann neitaði því,“ segir Yvonne.

Sjálf hefur Yvonne nokkrum sinnum reynt að komast að einhverju um málið. Meðal annars til að fá að vita hversu vel það var rannsakað. Hún hefur leitað að lögregluskýrslum og skýrslum dánardómsstjóra en gengið illa. Að lokum gafst hún upp á leitinni.

„Ég veit ekki til þess að nokkur maður hafi legið undir grun í þessu máli,“ segir hún.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Inga Sæland ekki sátt: „Efri árin eiga að vera gæðaár en ekki tími kvíða og óörygg­is“

Inga Sæland ekki sátt: „Efri árin eiga að vera gæðaár en ekki tími kvíða og óörygg­is“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Sigríður Dögg segir að RÚV þurfi að gera betur: „Lítilsvirðing gagnvart konum á ekki að líðast“

Sigríður Dögg segir að RÚV þurfi að gera betur: „Lítilsvirðing gagnvart konum á ekki að líðast“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Er þetta versta stefnumót sögunnar? Frábært kvöld þar til hún þurfti að fara á klósettið

Er þetta versta stefnumót sögunnar? Frábært kvöld þar til hún þurfti að fara á klósettið
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Mörg þúsund flugvélar hafa orðið fyrir alvarlegri truflun – Böndin beinast að Rússlandi

Mörg þúsund flugvélar hafa orðið fyrir alvarlegri truflun – Böndin beinast að Rússlandi
Fréttir
Í gær

Jón Steinar studdi Arnar Þór en er búinn að skipta um skoðun

Jón Steinar studdi Arnar Þór en er búinn að skipta um skoðun
Fréttir
Í gær

Að öllu óbreyttu verður þetta endanlegur fjöldi forsetaframbjóðenda

Að öllu óbreyttu verður þetta endanlegur fjöldi forsetaframbjóðenda