Landsréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms yfir manni sem skal sæta gæsluvarðhaldi til 5. desember næstkomandi. Maðurinn, sem á að baki langan brotaferil, hefur setið í gæsluvarðhaldi allt frá 19. ágúst síðastliðnum á grundvelli síbrotagæslu en mikil hætta er talin á því að hann haldi áfram brotum ef hann gengur laus.
Maðurinn var handtekinn að kvöldið 18. ágúst eftir að tilkynning barst um rán, hótanir og líkamsárás í verslun. Hafði maðurinn þar sveiflað hnífi í versluninni og veist að afgreiðslumanni eftir að honum var vísað á dyr en hann var í banni í versluninni.
Einnig kemur fram í úrskurðinum að auk þessa máls hafi lögregla verið með til meðferðar 21 mál gegn manninum vegna brota framin frá 21. október 2021, þar af 10 mál frá því í febrúar á þessu ári.
Athygli vekur hvað maðurinn hefur setið lengi í gæsluvarðhaldi en samkvæmt lögum um meðferð sakamála má ekki halda sakborningi lengur í gæsluvarðhaldi en 12 vikur án þess að birta honum ákæru. Ákæra gegn manninum mun hins vegar hafa verið gefin út í þessu máli og stendur ákvæði því ekki í veginum fyrir því að halda honum lengur í gæsluvarðhaldi. Mun hann því sitja inni til 5. desember næstkomandi hið minnsta.
Úrskurði Landsréttar og Héraðsdóms má lesa hér.