Heiftarleg átök milli tveggja manna við Esjuvelli á Akranesi árið 2022 leiddu til þess að þeir eru báðir ákærðir fyrir líkamsárás, hvor gegn öðrum.
Atvikið átti sér við strætóbiðstöð við Esjuvelli á Akranesi þann 30. mars 2022. Annar maðurinn réðst á hinn og sló hann ítrekað í höfuðið og bringu með þeim afleiðingum að hann hlaut 1 cm skurð á hnakka og 3 cm skurð á vinstra eyra. Auk þess hlaut hann bakverk af árásinni.
Sá sem varð fyrir árásinni hér að ofan svaraði með því að ráðast að árásarmanninum með rúmlega 300 gramma steypuklumpi og sló hann ítrekað í höfuðið með honum. Fékk hinn maðurinn af þessu tannbrot og skurði og skrámur á höfuðið.
Héraðssaksóknari krefst þess að báðir mennirnir verði dæmdir til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar.
Sá sem varð fyrir fyrrnefndu árásinni krefst einnar milljónar króna í miskabætur frá óvini sínum. Sá sem hann barði með steypuklumpinum krefur hann aftur á móti um 1,2 milljónir í miskabætur.
Aðalmeðferð verður í málinu við Héraðsdóm Vesturlands í Borgarnesi þann 8. desember næstkomandi.