fbpx
Laugardagur 02.mars 2024
Fréttir

Helga er við það að brotna niður og veit í hvað stefnir – „Einhvers staðar er kerfið augljóslega að bregðast okkur“

Einar Þór Sigurðsson
Mánudaginn 20. nóvember 2023 13:00

Helga Guðrún þarf nauðsynlega á Elvanse að halda.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Einhvers staðar er kerfið augljóslega að bregðast okkur,“ segir Helga Guðrún Lárusdóttir, ritstjóri Dagskrárinnar, fréttablaðs Suðurlands, í samtali við DV. Helga Guðrún er í hópi fjölmargra Íslendinga sem bíða eftir því að fá ADHD-lyfið Elvanse.

Mikill skortur er á lyfinu og eru dæmi um að fólk hafi í örvæntingu sinni gengið á milli apóteka í leit að lyfinu. Sigurbjörg Sæunn Guðmundsdóttir, formaður Lyfjafræðingafélags Íslands, sagði til dæmis í Morgunblaðinu í dag að hún þekkti dæmi um apótek sem tók símann tímabundið úr sambandi vegna fólks sem hringir viðstöðulaust í leit að lyfinu.

„Svo veit fólk ekkert hvað það getur gert. Við erum að reyna að upplýsa fólk um að við vitum ekki hvenær þetta lyf kemur aftur eða hvort það verði áframhaldandi skortur. Af því að þetta klárast bara strax. Ég fékk einn pakka í mitt apótek og ég hefði getað selt hann svona 50 sinnum,“ sagði Sigurbjörg við Morgunblaðið.

Hálf gagnslaus án lyfjanna

Helga Guðrún skrifaði kraftmikla færslu á Facebook um helgina þar sem hún líkti lyfjaskortinum í sínu tilfelli við það að vera gleraugnalaus með afar slæma sjón.

„Í gær fór ég í gleraugnabúðina að sækja nýju gleraugun mín, þessi gömlu eiga ekki meira en svona viku eftir. Ég talaði við sjóntækjafræðinginn sem tjáði mér það að því miður væru glerin uppseld á landinu, það væru svo mörg komin með ávísun á nákvæmlega svona gler að framboðið ætti ekki roð í eftirspurnina. Ég fékk því að skrá mig á lista hjá henni og þurfti frá að hverfa, hálf sjónlaus og mikið leið.

Ég þarf gleraugun til að geta gert svo margt, án þeirra er ég hálf gagnslaus sem samfélagsþegn því ég kann ekki lengur að vera án þeirra, þó ég hafi getað látið það ganga með herkjum áður en ég fékk þau þá er virkilega erfitt að fara til baka á byrjunarreit þegar maður er orðinn vanur því að sjá bara skýrt.

Ég hef séð illa síðan ég var barn, 6 ára samkvæmt fyrstu heimildum frá umsjónarkennara. Þetta var ekki eitthvað sem háði mér þegar ég var heima, bara í skólanum, en ég var ekki greind alvarlega sjónskert fyrr en ég var 12 ára.

Ég gerði tilraunir með allskyns gleraugu og linsur frá því ég var í 10. bekk en hafði ekki erindi sem erfiði fyrr en árið 2020 þegar ég fékk hin fullkomnu gleraugu og sá loksins laufblöðin og jólaseríurnar eins og það átti að sjá þær. Ekki tré eins og græna klessu á brúnni súlu eða seríur eins og glóandi gular slöngur. Núna þarf ég að fara aftur í grænar klessur og gular slöngur.“

Gleraugun sem Helga Guðrún vísar til í færslunni eru Elvanse-lyfið sem hefur gjörbreytt lífi hennar. Hún fékk ADHD-greiningu fyrst árið 2001; athyglisbrest með hvatvísi og ofvirkni.

Brotnaði niður fyrir framan yfirmanninn

„Ég virka ekki án lyfjanna, hvorki sem móðir, eiginkona, vinkona, systir, dóttir, tengdadóttir, frænka, barnabarn né ritstjóri. Þetta er í annað sinn sem ég lendi í þessum lyfjaskorti, og síðast þegar þetta gerðist þá missti ég öll tök á hversdagslegum hlutum, svo sem að sinna vinnunni minni, fylgja eftir tölvupóstum, sinna tómstundum barnanna minna og mínum eigin, þvottinum, búðarferðum, heimalærdómi, læknistímum, heimilinu, geðheilsunni,“ sagði hún meðal annars og bætti við:

„Ég brotnaði niður fyrir framan yfirmanninn minn eftir þrjár vikur án lyfja því ég GAT EKKI sinnt vinnunni minni, ég GAT EKKI tekist á við öll þau verkefni sem fylgja starfinu mínu og fannst allt svo yfirþyrmandi erfitt og kvíðvænlegt sem annars eru bara hversdagsleg verkefni. Núna er ég að brotna saman fyrir framan tölvuskjáinn minn því ég veit í hvað stefnir. Ég get ekki sagt að ég hlakki til hins annars dásamlega desembermánaðar því án gleraugna get ég ekki með nokkru móti notið jólaljósanna.“

Gríðarleg aukning í sölu á lyfinu

Helga segir í samtali við DV að lyfjafræðingurinn sem hún ræddi við hafi viljað meina að þessi skortur væri vegna þess hversu gríðarleg aukning hefði orðið á sölu lyfsins hér á landi á síðustu árum og mánuðum. Hvert land fengi bara ákveðið magn af lyfinu og aukinn fjöldi notenda hafi farið langt fram úr þessu hlutfalli sem Ísland fær. Því séum við í ákveðinni pattstöðu þar til annað verður ákveðið.

Mikil eftirspurn er eftir lyfinu sem hefur valdið skorti.

„Ég veit ekki hvort það sé Lyfjastofnun sem stjórnar þessari prósentutölu eða einhver evrópsk löggjöf en einhvers staðar er kerfið augljóslega að bregðast okkur sem erum orðin vön því að „sjá vel“,“ segir Helga.

„Annar lyfjafræðingur sem ég ræddi við sagði mér að öllum liði vel á þessu lyfi, óháð því hvort fólk sé með ADHD eða ekki, sem gæti útskýrt aukna notkun,“ segir Helga sem útilokar ekki að þetta sé að koma niður á henni og þeim sem virkilega þurfa á þessu lyfi að halda.

Fólk sett beint á lyfið

Í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag sagði Karl Reynir Einarsson, formaður Geðlæknafélags Íslands, að það komi honum á óvart ef Elvanse sé fyrsta lyfið sem skrifað er upp á fyrir sjúklinga. Sigurbjörg Sæunn, formaður Lyfjafræðingafélagsins, sagði í Morgunblaðinu að dæmi væru um að fólk væri sett beint á Elvanse sem stríðir gegn verklagsreglum Sjúkratrygginga Íslands.

„Þetta lyf er amfetamínafleiða, eins nálægt amfetamíni og ADHD-lyf verða. Þetta er eins og að bjóða fólki með höfuðverk morfín í æð án þess að prófa íbúfen fyrst. Það virkar vel en er klárlega ofmeðhöndlun,“ sagði Sigurbjörg.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ástþór sakaður um ágengni þegar hann mætti óboðinn í matsal HA – „Þeir voru bara í grunnskólabörnum“

Ástþór sakaður um ágengni þegar hann mætti óboðinn í matsal HA – „Þeir voru bara í grunnskólabörnum“
Fréttir
Í gær

Rosalegt myndband sýnir árekstur Teslu við hjólreiðamann á Breiðholtsbraut

Rosalegt myndband sýnir árekstur Teslu við hjólreiðamann á Breiðholtsbraut
Fréttir
Í gær

Þekkir þú þennan mann? Lögreglan vill ná af honum tali

Þekkir þú þennan mann? Lögreglan vill ná af honum tali
Fréttir
Í gær

Ívar Örn fékk hjartastopp við handtöku og lamaðist varanlega – „Uppgjöf er ekki til í minni orðabók“

Ívar Örn fékk hjartastopp við handtöku og lamaðist varanlega – „Uppgjöf er ekki til í minni orðabók“
Fréttir
Í gær

Íslensk móðir í stórskuld við barnsföður sinn eftir fjársöfnun til veikra barna þeirra – „Við vorum ekki þessir samhentu foreldrar“

Íslensk móðir í stórskuld við barnsföður sinn eftir fjársöfnun til veikra barna þeirra – „Við vorum ekki þessir samhentu foreldrar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vill að Bashar keppi fyrir Íslands hönd í Eurovision – „Sýnum heiminum að við berjumst gegn þjóðarmorði!“

Vill að Bashar keppi fyrir Íslands hönd í Eurovision – „Sýnum heiminum að við berjumst gegn þjóðarmorði!“