fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

Körfuboltakona og körfuboltakarl sem hlotið hafa dóma fyrir líkamsárás komu til Íslands-Annað þeirra sent burt hitt ekki

Jakob Snævar Ólafsson
Sunnudaginn 15. október 2023 15:00

Tylan Birts og Tynice Martin. Myndin er samsett. Skjáskot Instagram og Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á þessari leiktíð og þeirri síðustu fengu tvö íslensk íþróttafélög bandaríska leikmenn til að leika með meistaraflokkum félaganna í körfubolta, sem hafa hlotið dóma í heimalandi sínu fyrir líkamsárás. Samningi við annan leikmanninn, sem er karlkyns, var sagt upp en hitt félagið hefur gefið það út að leikmaður þess, sem er kvenkyns, muni leika áfram með félaginu þrátt fyrir þann dóm sem viðkomandi hefur hlotið.

Hélt hún væri að eiga samræði við annan mann

Á síðasta ári kom bandaríski körfuboltamaðurinn Tylan Birts til Íslands til að leika með liði ÍR í Subway-deild karla. Birts byrjaði vel og var stigahæstur leikmanna liðsins í sigri á Njarðvík í 1. umferð deildarinnar. Upp úr krafsinu kom hins vegar að Birts hafði hlotið dóm fyrir líkamsárás en hafði verið kærður fyrir nauðgun upphaflega.

Í frétt Vísis frá því í október á síðasta ári kemur fram að árið 2016, þegar hann var 19 ára gamall, hafi Tylan Birts verið leikmaður körfuboltaliðs Lindenwood-háskóla í Missouri ríki.

Birts var ásamt tveimur liðsfélögum sínum staddur í íbúð. Þar stundaði annar liðsfélaganna kynlíf með konu og var það með hennar samþykki. Að því loknu mun liðsfélaginn, Ermias Tesfia Nega, hafa yfirgefið herbergið þar sem hann og konan stunduðu kynlíf og sagt við Birts og þriðja liðsfélagann, Bradley Newman Jr, að konan væri tilbúinn til að stunda kynlíf með þeim. Svo reyndist hins vegar ekki vera. Birts fór inn í herbergið og hóf samfarir við konuna. Dimmt var í herberginu og konan taldi að Nega hefði snúið aftur til að halda kynlífi þeirra áfram. Þegar hún kveikti ljósið áttaði hún sig á því við hvern hún var að eiga samræði og þá mun hafa komið skýrt fram að þetta hefði hún ekki viljað.

Birts var í kjölfarið kærður fyrir nauðgun. Hann samdi árið eftir um að játa á sig minni háttar líkamsárás (e. Misdemeanour Assault), eins og hún var skilgreind í lögum Missouri ríkis í Bandaríkjunum, en var ekki dæmdur fyrir nauðgun. Birts hlaut tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm og þurfti að afplána 50 tíma í samfélagsþjónustu auk þess að greiða 120 Bandaríkjadali vegna lífsýnatöku til sönnunar í málinu.

Birts kláraði háskólaferilinn með liði Barry-háskóla í Flórída og hélt svo í atvinnumennsku í Evrópu.

Körfuknattleiksdeild ÍR hlaut mikla gagnrýni fyrir það á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum fyrir að hafa fengið Birts til liðsins og margir gagnrýnendanna kröfðust þess að Birts yrði látinn fara. Með frétt Vísis er meðal annars birt færsla sem kona nokkur birti á Twitter-síðu sinni þar sem hún spurði Körfuknattleiksdeild ÍR:

„Er ekki allt í góðu hjá ykkur eða finnst ykkur bara í góðu lagi að flytja inn leikmann sem er dæmdur kynferðisafbrotamaður?“

Konan virðist hafa talið að Birts hefði verið dæmdur fyrir kynferðisbrot en eins og áður kom fram var hann dæmdur fyrir líkamsárás en kærður upphaflega fyrir kynferðisbrot.

Eftir að hann hafði spilað einn leik fyrir ÍR í Subway-deildinni tilkynnti félagið að það hefði komist að samkomulagi við Birts um að slíta samningi hans og lék hann því ekki fleiri leiki fyrir ÍR.

Togaði í hár fyrrverandi kærustunnar

Fyrir yfirstandandi leiktíð fékk Njarðvík til liðs við sig Tynice Martin sem lék í liðinni viku fyrsta leik sinn fyrir lið félagsins í Subway deild kvenna. Martin hlaut dóm í Bandaríkjunum fyrir líkamsárás á fyrrverandi kærustu sína.

Í frétt vefsins wvmetronews.com frá því í nóvember 2019 kemur fram að Tynice Martin, sem þá lék með kvennaliði Háskóla Vestur-Virginíu, hafi um sumarið þetta sama ár haldið á heimili fyrrverandi kærustu sinnar ásamt annarri konu. Voru Martin og konan sakaðar um að hafa togað í hár fyrrverandi kærustunnar, ýtt henni utan í hurð, tekið hana hálstaki, lamið hana og hrint henni.

Lögregla var kölluð til og Martin var síðar ákærð. Hún gerði á endanum samkomulag við saksóknara og játaði á sig líkamsárás (e. battery).

Samkvæmt vef bandarískrar lögmannstofu er hinn lagalegi munur þar í landi á þeim fyrirbrigðum sem eru kölluð annars vegar „assault“, sem Tylan Birts var dæmdur fyrir, og hins vegar „battery“, sem Tynice Martin var dæmd fyrir, sá að einstaklingur getur verið ákærður fyrir hið fyrrnefnda hvort sem hann hefur valdið öðrum líkamstjóni eða eingöngu ógnað öðrum með því að láta í það skína að raunveruleg hætta væri á því að hann myndi valda viðkomandi líkamstjóni. Einstaklingur geti hins vegar eingöngu verið ákærður fyrir „battery“ ef hann hefur raunverulega valdið brotaþola líkamstjóni.

Á vef lagadeildar Cornell-háskóla kemur þó fram að lagalegar skilgreiningar á „assault“ og „battery“ geti verið æði misjafnar frá einu ríki Bandaríkjanna til annars.

Samkvæmt samkomulaginu við saksóknara var Martin dæmd í eins árs skilorðsbundið fangelsi og til að sinna samfélagsþjónustu í 50 klukkustundir. Martin lék áfram með liði Háskólans í Vestur-Virginíu eftir að dómurinn féll og hélt síðan í atvinnumennsku í Evrópu.

Segir um hræsni að ræða

Ekki hefur borið á víðtækri gagnrýni á samfélagsmiðlum á það að Njarðvík hafi fengið til sín leikmann sem dæmdur hefur verið fyrir líkamsárás. Hörð gagnrýni kom hins fram vegar í þættinum körfuboltakvöld á Stöð2-Sport í síðustu viku.

Vísir greindi frá því að einn séfræðinga þáttarins Ólöf Helga Pálsdóttir, sem bæði hefur verið leikmaður og þjálfari í úrvalsdeild kvenna í körfubolta, hefði látið eftirfarandi orð falla í þættinum um Tynice Martin:

„Mér finnst skrýtið að það sé ekki búið að senda hana heim af því að við fengum þær fréttir að hún er með ofbeldi í fortíðinni. Þetta er bleikur fíll sem enginn vill tala um í kvennadeild. Hún er dæmd sem ofbeldiskona gegn konum og mér stæði ekki á sama ef dætur mínar í tíunda bekk væru í liðinu.“

Samkvæmt vef Körfuknattleikssambands Íslands eru nokkrar 15 ára gamlar stúlkur í leikmannahópi Njarðvíkurliðsins.

Samkvæmt frétt Vísis bar Ólöf, í þættinum, saman mál Tynice Martin og Tylan Birts og sagði mismundandi viðbrögð vegna mála þeirra bera vott um hræsni:

„Mér finnst þetta ótrúlega skrýtið en hún er örugglega geðveikt góð en þetta er svolítið hræsni miðað við það hvernig var talað um ÍR karlamegin í fyrra. Svo er einhvern veginn af því að þetta er kvennadeildin þá þarf að vera eitthvað hush, hush.“

Nokkur töf varð á að Tynice Martin fengi leikheimild með Njarðvík og varð liðið að hefja keppni í Subway-deildinni án hennar. Leikheimildin gekk hins vegar loks í gegn og lék Martin fyrsta leik sinn í deildinni í sigri Njarðvíkur á liði Grindavíkur í síðustu viku.

Eftir leikinn var Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, spurður í viðtali við Vísi út í dóm Martin og umræðu um hvort Njarðvíkingar ættu að hafa hana í liði sínu í ljósi þess að hún hefði verið dæmd fyrir líkamsárás. Svar hans var nokkuð afdráttarlaust. Martin hefði tekið út sinn dóm og ekki stæði annað til en að hún yrði áfram leikmaður liðsins:

„Umræða er bara umræða og ég hef enga stjórn á því hvað annað fólk er að ræða, hvorki í sjónvarpinu eða á samfélagsmiðlum. Ég hef aldrei farið í jafn mikinn undirbúning við að ná í leikmann. Tala við lögfræðinga og afla mér upplýsinga um málið, tala við háskólaþjálfarann, tala við liðsfélaga í Finnlandi. Hún er bara frábær stelpa sem er komin hérna til að leggja sig fram og vinna sína vinnu. Búin að taka út sinn dóm og ég hef ekkert meira um það að segja.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg
Fréttir
Í gær

Rússnesk skip og kafbátar horfnir úr sýrlenskri flotastöð

Rússnesk skip og kafbátar horfnir úr sýrlenskri flotastöð
Fréttir
Í gær

Nettó og Bónus í jólabókaverðstríði — mikill verðmunur á spilum, bókum og Legó

Nettó og Bónus í jólabókaverðstríði — mikill verðmunur á spilum, bókum og Legó