Allir vita hvernig það endaði og eins og margir spáðu þá strax varð Prigozhin ekki langlífur. Hann lést í flugslysi nokkrum vikum síðar og telja flestir að Vladímír Pútín hafi látið granda flugvélinni sem Prigozhin flaug með.
En nú eru Wagnerliðar að sögn farnir að sjást aftur á vígvellinum. Þetta sagði Serhiy Haidai, héraðsstjóri í Luhansk, í samtali sem var birt á Telegram. TV2 skýrir frá þessu.
Fram kemur að héraðsstjórinn hafi sagt að rússneskar hersveitir séu nú að skipta hermönnum út og að í tengslum við það hafi meintir Wagnerliðar sést.
„Ég get ekki sagt til um hversu margir þeir eru en þeir eru á ýmsum stöðum og þeir taka þátt í átökunum,“ sagði héraðsstjórinn.
Á Telegram var skýrt frá því á Wagnerrásinni Grey Zone að um 500 Wagnerliðar hafi gengið til liðs við nýja, ótilgreinda herdeild sem á að fara til Bakhmut. Þar börðust Wagnerliðar einmitt mánuðum saman við úkraínska hermenn. Var mannfallið gríðarlegt hjá báðum stríðsaðilum en þó öllu meira hjá Rússum.