fbpx
Mánudagur 25.september 2023
Fréttir

„Karlmenn sem hugsa með kynfærunum hafa valdið ýmiss konar vandræðum í íslensku samfélagi“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 10. júní 2023 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við búum í refsiglöðu samfélagi og þar er yfirleitt ekki tekið létt á mistökum, jafnvel þótt viðkomandi iðrist mjög og sé alls ekki líklegur til að endurtaka athæfið.Karlmenn sem hugsa með kynfærunum hafa valdið ýmiss konar vandræðum í íslensku samfélagi um leið og þeir hafa komið sjálfum sér í klandur. Það er alls ekki þannig að þeir séu allir sekir um refsivert athæfi, í mörgum tilvikum var um að ræða alvarlegan dómgreindarbrest. Það ætti ekki að kalla á útskúfun og langvinna almenna fordæmingu en gerir það þó samt. Svo eru karlmennirnir sem sjá ekki að sér heldur halda áfram iðju sinni eins og ekkert sé,“

byrjar Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður pistil sinn Dónakarlar í vandræðum í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Óumbeðin skilaboð og áreiti 

Tekur Kolbrún dæmi úr íslenskum raunveruleika og nefnir að einhverjum kunni að þykja þetta fremur veiklulegt dæmi, því það er ekkert beinlínis refsivert við það, þótt það sé óþolandi og ólíðandi. 

„Karlmaður, sem er löngu kominn á ellilífeyrisaldur og hefur víða komið við í íslensku samfélagi, fer að senda ungri konu skilaboð af alls kyns tagi eftir að hafa verið kynntur fyrir henni. Kannski leiðist honum að vera ekki lengur í fastri vinnu, kannski vill hann bara verða ungur á ný og finnst að þessi unga kona geti hjálpað honum til þess, enda er hún bæði skemmtileg og fyndin. Í fyrstu svarar konan kurteislega en þegar skilaboðin verða áleitnari og kynferðislegur undirtónn fer að læðast inn í þau frábiður hún sér skilaboðin – og það þarf hún að ítreka þó nokkrum sinnum. Það er nefnilega þannig að þótt þessi karl virðist prúður og ljúfur á yfirborðinu þá er hann að sumu leyti dæmigerður frekjukarl sem er vanur að fá það sem hann vill. Hann byrjar svo að hringja um miðjar nætur en nútímakonan kann ráð við því og stillir símann þannig að ekki þarf að svara. Þá koma sms-in: „Hvar ertu?““

Telur sig þjóðargersemi

Segir Kolbrún að karlmaður með sæmilegt heilabú ætti að skilja að þessi kona vill ekki þekkja hann. Hún fellur ekki í stafi vegna þess að hann er þjóðþekktur. Í hennar huga er hann bara gamall karl og gamlir karlar eiga að láta ungar konur í friði. Hann virðist hins vegar sjá sjálfan sig sem sérlega eftirsóttan mann, frægan og dáðan, eins konar þjóðargersemi. 

Að mati Kolbrúnar er unga konan skynsöm og klár. Hún trúir ekki á opinbera smánun, fyrirlítur dómstól götunnar og refsingar hans og fer ekki á samfélagsmiðla til að segja sögu sína, eins og hún gæti svo hæglega gert. Þegar henni mislíkar sem mest hótar hún gamla karlinum að kæra málið til lögreglu láti hann hana ekki í friði. Ekki einu sinni það nægir til að koma vitinu fyrir gamla manninn. 

„Nú er það auðvitað svo að þessi karlmaður er ekki bara dónakarl, hann virðist líka vera fyllibytta. Flest skilaboðin til konunnar koma um nætur þegar heiðarlegt fólk er steinsofandi. Gamli maðurinn ætti þó að sjá að sér daginn eftir og átta sig á því að skilaboð um nætur til ungrar konu eru argasti dónaskapur. Hann virðist þó alls ekki ætla að sjá að sér. Kannski er hann vanur því að komast þangað sem hann ætlar sér. Þannig eru líklega lögmálin í þeim karlaheimi sem hann hefur lifað og hrærst í áratugum saman. Allavega virðist hann ekki sjá neitt að því að ryðjast inn í líf manneskju og vera þar til eins mikilla leiðinda og hægt er að vera.“

Talið mannréttindi að delera á fylleríi 

Kolbrún bendir á að hérlendis er það talið til sjálfsagðra mannréttinda að fá hvað eftir annað að drekka sig fullan og delera án þess að þurfa að horfast í augu við afleiðingarnar. „Við skulum samt ekki skella á okkur geislabaug, flest okkar gera eitthvað heimskulegt um ævina og það oftar en einu sinni. Flestir þurfa þó ekki að gera mörg mistök á fylliríi til að átta sig og sjá að sér. Aðrir geta ekki hætt og gera sig ítrekað að fífli með reglulegu drykkjurausi og heimskulegu athæfi. 

Í skjóli áfengis leika margir dónakarlar lausum hala. Þeir hafa engan áhuga á að taka á drykkju sinni enda sjá þeir hana ekki sem vandamál. Sumir þeirra eru líka vanir því að umhverfið klappi þeim á öxlina og segi þeim hversu frábærir þeir eru. Þeir skilja því ekkert í því þegar ung kona segir nei.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Karen Millen reynir að byggja sig upp á ný eftir Íslandshrakfarirnar – „Ég bjó þarna í tuttugu ár og fékk eitt ár til að tæma húsið“

Karen Millen reynir að byggja sig upp á ný eftir Íslandshrakfarirnar – „Ég bjó þarna í tuttugu ár og fékk eitt ár til að tæma húsið“
Fréttir
Í gær

Liggur á að rannsaka Kleppjárnsreyki – „Með hverju árinu sem líður fækkar fórnarlömbunum“

Liggur á að rannsaka Kleppjárnsreyki – „Með hverju árinu sem líður fækkar fórnarlömbunum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Að minnsta kosti þrír handteknir í aðgerðum sérsveitar og lögreglu í Flúðaseli – Sama íbúð og síðast

Að minnsta kosti þrír handteknir í aðgerðum sérsveitar og lögreglu í Flúðaseli – Sama íbúð og síðast
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Gaggalagú“ að flytja Hæstarétt yfir í Safnahúsið

„Gaggalagú“ að flytja Hæstarétt yfir í Safnahúsið