Suður-Afríka er á barmi hruns vegna viðvarandi orkuskorts og líkum á að orkuinnviðir landsins hreinlega gefi sig endanlega á næstu dögum. Slíkt gæti leitt til fjöldaóeirða sem gætu þróast út í hálfgerða borgarstyrjöld. Þetta kemur fram að í umfjöllun News.com um ástandið í landinu.
Í henni kemur fram að sendiráð vestrænna landa, eins og Bandaríkin og Ástralía, hafa ráðlagt ríkisborgurum sínum í landinu að hamstra vatn og mat og halda sig innandyra ef til þess kemur að rafmagn slái út og verði ekki aðgengilegt í einhvern tíma.
Ástandið hefur verið slæmt í nokkurn tíma en farið hríðversnandi undanfarna daga. Forseti Suður-Afríku, Cyril Ramaphosa, lýsti yfir neyðarástandi í landinu þann 9. febrúar vegna orkuskortsins. Orkufyrirtækið Eskom, sem er í ríkiseigu, hefur undanfarið skammtað rafmagn sem hefur þýtt að sumstaðar hefur rafmagnsleysi varað upp undir 12 klukkustundir og haft afar neikvæð áhrif á mörgum sviðum þjóðlífsins.
Auk augljósra óþæginda fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir þá er mikil hætta á því að alda innbrota og ofbeldis gangi yfir landið í rafmagnsleysinu. Nú þegar hefur tíðni glæpa aukist mikið og það gæti versnað gríðarlega ef raforkukerfi landsins fer algjörlega á hliðina.
Ástæðan fyrir þessum hörmungum er margþætt en fráfarandi forstjóri Eskom, André de Ruyter, kennir landlægri spillingu í Suður-Afrísku stjórnkerfi um. De Ruyter tók við embætti árið 2020 og hét því að berjast gegn spillingu í hinum opinbera geira. Hann hefur ekki haft erindi sem erfiði og degi eftir afsögn hans í desember á þessu ári var reynt var að eitra fyrir forstjóranum þegar blásýru var laumað út í kaffibolla hans. De Ruyter lifði þó tilræðið af en hann hefur eignast fjölda óvina eftir að hafa meðal annars greint frá ítökum glæpahópa í orkugeiranum.
Þó ólíklegt sé að orkukerfi landsins leggist alveg á hliðina þá eru slíkar hamfarir sannarlega orðnar möguleiki sem ráðamenn í Suður-Afríku þurfa að undirbúa sig fyrir. Í áðurnefndri umfjöllun kemur fram að það gæti tekið 6-14 daga að endurræsa raforkukerfið sem gæti haft skelfilegar afleiðingar í för með sér. Þá kemur fram að stærri fyrirtæki í landinu séu þegar farnar að undirbúa sig fyrir slíkt með því að koma sér upp vararafstöðvum.
Orkuskorturinn er ekki eina vandamálið sem herjar á Suður-Afríku. Verðbólgan í landinu er 7 prósent og atvinnuuleysi rúmlega 32 prósent. Þá hefur gjaldmiðilinn, suður-afríska randið, hríðfallið undanfarið.