fbpx
Fimmtudagur 16.maí 2024
Fréttir

Dalvíkurmálið: Lögreglustjóri taldi kennarann hafa brotið hegningarlög og barnaverndarlög

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 22. febrúar 2022 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt öruggum heimildum DV taldi Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra að kennari sem rekinn var frá Dalvíkurskóla fyrir að löðrunga nemanda hefði gerst sekur um hegningarlaga- og barnaverndarlagabrot. Leiddu gögn málsins það í ljós í rannsókninni. Lögreglustjórinn ákvað hins vegar að gefa ekki út ákæru þar sem almannahagsmunir krefðust þess ekki að saksótt yrði, vegna þess að kennaranum hafði verið sagt upp störfum.

Að sögn Flóka Ásgeirssonar, lögmanns foreldra nemandans, verður þessi ákvörðun lögregustjórans kærð til Ríkissaksóknara og vinnur hann að gerð kærunnar. Telur Flóki forsendur ákvörðunarinnar vera afar vafasamar enda sé hér um að ræða meint brot kennara gegn barni sem átti sér stað á skólasvæðinu. „Í ljósi þeirrar verndar sem börn njóta samkvæmt mannréttindareglum og íslenskum lögum þá er þetta mjög sérstök niðurstaða,“ segir Flóki í samtali við DV.

Málið hefur verið mikið í fréttum undanfarið eftir að kennarinn sem í hlut á, kona sem kenndi íþróttir við Dalvíkurskóla, vann skaðabótamál gegn Dalvíkurbyggð fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra þann 17. febrúar. Foreldrar barnsins sem á í hlut stigu fram um helgina þar sem þau birtu pistil um málið og veittu DV viðtal. Kom þar fram að þau teldu lýsingu á atvikum í dómnum, sem og í frétt sem Kennarasamband Íslands birti um dóminn á vefsíðu sinni, vera mjög villandi. Vissu þau ekki um dómsmál kennarans fyrr en fréttin birtist og voru því síður kölluð þar til vitnis en málsvörn Dalvíkurbyggðar í málinu var ekki til þess fallin að leiðrétta þá einhliða mynd sem dregin var upp af atvikinu, að þeirra mati.

Sjá einnig: Foreldrar stúlku sem lenti í átökum við kennara í Dalvíkurskóla stíga fram

 

Gagnrýna einhliða frásögn

Í dómnum er atvikum lýst þannig að stúlkan hafi verið á útisvæði þegar hún átti að vera inni í leikfimisal. Kennarinn hafi margbeðið hana um að yfirgefa svæðið, sest niður á hækjur sér og tekið um úlnlið stúlkunnar til að leggja áherslu á fyrirmæli sín. Stúlkan hafi sagt: „Ekki fokking snerta mig,“ sveiflað hendinni hraustlega og gefið kröftugan löðrung. Kennarinn hafi brugðist ósjálfrátt við með því að slá stúlkuna til baka, „gefa nemandanum léttan kinnhest“.

Frá sjónarhóli stúlkunnar og vitnis á vettvangi var atvikið hins vegar nokkurn veginn svona:

Stúlkan sat úti í grasbala þar sem hún taldi sig eiga að vera úti, en hún átti í raun að vera í íþróttatíma innandyra. Kennarinn hafi komið að henni með töluverðu offorsi og sagt hranalega að hún ætti að taka þátt í íþróttatímanum. Stúlkan hafi sagt að henni væri illt í kálfanum. Kennarinn hafi þá gripið í úlnlið stúlkunnar sem hafi sagt: „Ekki fokking snerta mig“. Bað hún kennarann ítrekað um að sleppa takinu. Kennarinn hafi þá sagt: „Ég snerti þig ef ég vil.“ – Vantar þau ummæli í lýsingu dómsins á atvikinu. Stúlkan hafi þá slegið kennarann sem sló til baka. Í dómnum er því viðbragði lýst sem léttum kinnhesti en foreldrarnir segja að séð hafi á stúlkunni eftir höggið og draga þau mjög í efa að kennarinn hafi slegið hana laust.

Héraðsdómur taldi uppsögnina ólögmæta meðal annars vegna þess að ekki hefði verið rétt staðið að uppsögninni, t.d. með tilliti til andmælaréttar. Einnig segir í dómsorði að atvikið sé ekki gróft brot í starfi og réttlæti því ekki fyrirvaralausan brottrekstur.

Formaður Félags grunnskólakennara fór ekki rétt með

Í pistli sínum benda foreldrarnir á að daginn eftir atvikið hafi íþróttakennarinn farið einhliða yfir málið með tveimur bekkjum í skólanum og rætt þar um dóttur þeirra án þeirrar vitundar. Voru það tveir næstu árgangarnir fyrir ofan stúlkuna í aldri. Segja foreldrarnir að þar hafi kennarinn farið miður fallegum orðum um dóttur þeirra. Að mati foreldranna átti þarna sér stað alvarlegur trúnaðarbrestur þar sem kennarinn ræddi við aðra nemendur um persónuleg mál barnsins þeirra án vitneskju nokkurs annars kennara eða skólastjóra.

Foreldrarnir telja einnig að Kennarasamband Íslands hafi brotið gegn persónuvernd dóttur þeirra. Sambandið birti frétt um dóminn á vefsíðu sinni áður en hann hafði verið birtur á vefsíðu dómstólanna. Í frétt Kennarasambands Íslands kemur fram hvar atvikið átti sér stað, þ.e. á Dalvík. Þegar dómurinn birtist á vefsíðu dómstólanna höfðu hins vegar allar persónugreinanlegar upplýsingar verið hreinsaðar úr honum, þar á meðal staðsetning atviksins.

RÚV bar í gær þennan fréttaflutning Kennarasambands Íslands undir Þorgerði Laufey Diðriksdóttur, formann Félags grunnskólakennara. Í fréttinni segir:

„En foreldrarnir saka Kennarasambandið um að fara óvarlega með og það hafi verið óþarfi að tilgreina að þetta hafi gerst í Dalvíkurbyggð. Tekur þú undir það?

„Þau mega alveg hafa sína skoðun á því og ég get ímyndað mér að fólk sem á í hlut finnist ýmislegt um þetta og þá sérstaklega ef það er tilgreint svona nálægt. En það voru ekki tilgreind nöfn eða annað í þessum fréttaflutningi eða annað en það sem kemur fram í dómnum sem slíkum,“ segir Þorgerður Laufey.“

Þetta er hins vegar ekki rétt með farið hjá formanninum varðandi eitt mikilvægt grundvallaratriði, þ.e. að staðsetning kom ekki fram í dómnum en var tilgreind í frétt kennarasambandsins.

Ákvörðun lögreglustjóra kærð til Ríkissaksóknara

Sem fyrr segir mun lögmaður foreldra stúlkunnar, Flóki Ásgeirsson, kæra til Ríkissaksóknara þá ákvörðun Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra að falla frá ákæru í málinu þrátt að embættið telji kennarann hafa gerst brotlegan við hegningarlög og barnaverndarlög. Munu þær röksemdir að ákæra þjóni ekki almannahagsmunum þar verða véfengdar enda stríði framferði kennarans gegn ákvæðum stjórnarskrár og alþjóðlegum mannréttindareglum sem veiti börnum sérstaka vernd.

„Niðurstaða rannsóknar lögreglunnar í málinu er sú að rannsóknargögnin nægi til að fara í mál og þar með var rökstuddur grunur um þessi brot, en ákærusvið lögreglustjórans tók þá ákvörðun að falla frá saksókn. Það var komið eitthvað fram að mati lögreglu sem var nægilegt til sakfellingar en lögreglustjórinn ákveður að falla frá ákæru vegna aðstæðna sem hann metur sérstakar. Hann telur að almannahagsmunir krefjist ekki saksóknar og nýtir þar fremur þrönga undantekningarheimild í lögum um að hægt sé að falla frá saksókn þó að tilefni sé til hennar. Það gerir þetta mál nokkuð sérstakt því hér er um að ræða mál af því tagi þar sem alla jafna mjög ríkir almannahagsmunir standa til þess að sótt sé til saka, þ.e. brot gegn börnum,“ segir Flóki.

Flóki segir að undantekningarheimildinni sé stundum beitt í tilvikum þar sem gerandi „hafi lent mjög illa í því,“  eins og hann orðar það. „En það má ekki líta framhjá hagsmunum brotaþola. Í því ljósi er ég mjög hissa á þessari ákvörðun,“ segir Flóki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Einar Ágúst sneri við blaðinu eftir símtal frá þekktum handrukkara – „Þitt hjartalag á ekki heima hérna“

Einar Ágúst sneri við blaðinu eftir símtal frá þekktum handrukkara – „Þitt hjartalag á ekki heima hérna“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Kynntu nýtt borgarhverfi við Kringluna

Kynntu nýtt borgarhverfi við Kringluna
Fréttir
Í gær

Vara við nýrri tegund netsvika – Töpuðu töluverðum fjárhæðum í ógáti

Vara við nýrri tegund netsvika – Töpuðu töluverðum fjárhæðum í ógáti
Fréttir
Í gær

Stuðningsmenn Njarðvíkur sagðir hafa brotið fjölda sæta á heimavelli Vals – „Íþróttir kalla fram tilfinningar í fólki“

Stuðningsmenn Njarðvíkur sagðir hafa brotið fjölda sæta á heimavelli Vals – „Íþróttir kalla fram tilfinningar í fólki“
Fréttir
Í gær

169 einstaklingar sem finnast ekki

169 einstaklingar sem finnast ekki
Fréttir
Í gær

Þetta er fanginn sem var frelsaður – Móðir hans í sjokki

Þetta er fanginn sem var frelsaður – Móðir hans í sjokki