fbpx
Föstudagur 08.nóvember 2024
Fréttir

Misstig vélstjóra varð að bitbeini

Ritstjórn DV
Laugardaginn 18. júní 2022 18:44

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur hefur staðfest að Sjóvá sé bótaskylt gagnvart vélstjóra sem slasaðist við störf sín, en tryggingafélagið hafði haldið því fram að þar sem vélstjórinn hefði misstigið sig bæri ekki að greiða honum úr slysatryggingu sjómanna.

Í málinu kom einkum tvennt til álit, annars vegar hvort vélstjórinn hafi slasast við vinnu sína um borð og togara og hins vegar hvort að atvikið væri óvæntur utanaðkomandi atburður í skilmála áhafnatryggingar fiskimanna, eða með öðrum orðum hvort að vélstjórinn hafi lent í slysi eins og það er skilgreint að vátryggingarétti.

Klöngraðist yfir trollið

Vélstjórinn greindi svo frá að hann hafi slasast í nóvember 2017 um borð í togara sem hann vann á. Trollið hefði slitnað aftan úr skipinu við veiðar, en því hafi svo verið slætt upp aftur og hafi vélstjórinn verið að ganga frá veiðarfærinu til að hægt væri að veiða á ný.

Við þetta hafi vélstjórinn klöngrast yfir trollið og snúið á sér fótinn. Í kjölfarið kenndi hann sér meins í hnénu en harkaði af sér og hélt sér gangandi á verkjatöflum þar til veiðiferðinni lauk um miðjan desember. Verkurinn fór þó ekki og eftir túrinn treysti hann sér ekki aftur á sjó. Hann leitaði á heilsugæslu í janúar og var þá metinn óvinnufær.

Í kjölfarið kom á daginn að hann var með rifinn liðþófa og töluverðar brjóskskemmdir í hnélið.

Sjóvá hafnar bótaskyldu

Slysið var tilkynnt Sjúkratryggingum í maí 2018 og staðfestu Sjúkratryggingar Íslands bótaskyldu í júní. Áhöfnin var tryggð hjá Sjóvá, en Sjóvá hafnaði bótaskyldu með vísan til þess að slysið hafi ekki verið tilkynnt þegar það átti sér stað og því ósannað að það hefði átt sér stað og eins bæri vitnum ekki saman um hvernig slysið hefði atvikast.

Úrskurðarnefnd vátryggingarmála komst að þeirri niðurstöðu að vélstjórinn ætti ekki rétt á bótum úr slysatryggingu sjómanna. Í tilkynningu til Sjúkratrygginga komi bara fram að hann hafi misstigið sig og ekki verðið ráðið af læknisvottorði hvernig hann hafi slasast. Vélstjórinn sætti sig ekki við þessa niðurstöðu og fór málið fyrir dóm.

Héraðsdómur sagði ósamræmi í frásögnum eiga sér eðlilegar skýringar

Héraðsdómur taldi sannað að Sjóvá væri bótaskylt gagnvart vélstjóranum. Varðandi misræmi í lýsingum vitna vísaði dómari til þess að það væri þekkt að frásagnir vitna af sama atvikinu væru afar sjaldan alveg samhljóða og geti munur á slíkum lýsingum ráðist af orðaforða vitnanna, hæfni þeirra til endursagnar, mati þeirra á því hversu nákvæmlega þyrfti að lýsa hverju atviki og mörgu fleiru. Sá munur sem væri milli lýsinga lækna í málinu og svo skipstjórans væri því fullkomlega eðlilegur, en nánar verður greint frá þeim mismun hér neðar.

Frásagnir vitna

Sjóvá ákvað að áfrýja þeirri niðurstöðu. Landsréttur komst að þeirir niðurstöðu að framburður vélstjórans fengi stoð í ýmsum fyrirliggjandi gögnum og þó hann hafi ekki tilkynnt yfirmönnum sínum strax um atvikið hefði hann þó gert það.

Vélstjórinn hafi lýst atvikum svo að hann hafi þurft að „príla yfir trollið sem þá var staðsett á dekkinu. Hann hafi stigið á trollið, runnið og fest fótinn á milli gúmmíhólka, slinkur komið á hann og fóturinn snúist.“

Læknir hafi lýst því svo að vélstjórinn hefði greint frá því að hann hafi verið „að hífa inn troll, rann til og dettur á [vinstra] hné.“

Bæklunarlæknir hafi sagt vélstjórann lýsa slysinu svo: „Var við störf sín á leið upp í krana, stígur yfir trollið, festist í því og fær snúningsáverka á [vinstra] hné.“

Skipstjórinn hafi lýst slysinu svo. „Við frágang á trollinu þurfti [vélstjórinn] að klofa yfir trollið, við það missteig hann sig.“

Í tilkynningu útgerðar og skipstjóra segi einfaldlega : „Missteig sig“

Afleysingaskipstjórinn hafi sagt vélstjórann lýsa slysinu sem svo að hann hafi verið að klöngrast yfir trollið og dottið við það. Hann hafi stigið í eitthvað, allt hafi verið í hrúgu á dekkinu, stefndi verið að klöngrast yfir hrúguna og „snúið […] eitthvað löppina“.

Deilt um hvort það sé slys að misstíga sig

Landsréttur tók fram að það eitt að misstíga sig geti ekki talist til skyndilegs utanaðkomandi atburða í skilningi slysahugtaks vátryggingaréttar, því hafi verið slegið á föstu í Hæstarétti. Hins vegar geti misstig fallið undir slysahugtakið ef það má rekja til ytri aðstæðna. Þarna hafi ekki verið um dæmigert misstig að ræða þar sem vélstjórinn hafi vinnu sinnar vegna þurft að príla yfir troll og þannig orðið fyrir slysi.

Misræmi í lýsingum á því hvernig slysið gerðist nákvæmlega væri ekki það mikið að það væri ekki í samræmi við frásögn vélstjórans. Því færi ekki á milli mála að um slys í skilningi vátryggingaréttar væri að ræða.

Sjóvá hélt því einnig fram að ekki væri sannað að tengsl væru milli meiðsla vélstjórans og slyssins. Landsréttur leit til þess að mat á afleiðingum slyssins hafi enn ekki farið fram en fyrir liggi læknisfræðileg gögn og því hægt að fallast á að Sjóvá bæri bótaskyldu. Um sé að ræða viðurkenningarmál, en ekki skaðabótamál, svo engin afstaða er tekin til þess hversu mikið tjón vélstjórans er og þar með hvað Sjóvá beri að greiða háar bætur.

Dómurinn í heild sinni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Hræddar hryssur: Samtök um dýravelferð birta nýjar myndir af blóðmerahaldi

Hræddar hryssur: Samtök um dýravelferð birta nýjar myndir af blóðmerahaldi
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Foreldrar leikskólabarna í Fossvogi búnir að fá sig fullsadda af líkbrennslunni – „Anda skaðlegum svörtum reyk ofan í litlu lungun sín“

Foreldrar leikskólabarna í Fossvogi búnir að fá sig fullsadda af líkbrennslunni – „Anda skaðlegum svörtum reyk ofan í litlu lungun sín“
Fréttir
Í gær

Sagði að Norðmenn væru ekki lengur heppnir í Víkingalottóinu – Annað kom á daginn í gærkvöldi

Sagði að Norðmenn væru ekki lengur heppnir í Víkingalottóinu – Annað kom á daginn í gærkvöldi
Fréttir
Í gær

 „Þetta var allt svikið“ – Katrín sögð hafa selt landið án heimildar í lögum

 „Þetta var allt svikið“ – Katrín sögð hafa selt landið án heimildar í lögum