fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fréttir

Lögsækir indverska sendiráðið í Reykjavík vegna rasisma og vangoldinna launa – Kallaður fábjáni og gagnslaus hvítingi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 22. maí 2022 10:12

Indverska sendiráðið og bílastæði á Túngötu 7. Mynd: Ernir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður einn hefur stefnt indverska sendiráðinu á Íslandi, sem staðsett er við Túngötu í Reykjavík, vegna vangoldinna launa og rasískrar framkomu í sinn garð. Talið er að við rekstur málsins muni reyna á ákvæði um friðhelgi sendiráða, eða svokallaðan úrlendisrétt. Sendiráðið muni freista þess að fá málinu vísað frá á þeim forsendum að íslensk lög nái ekki yfir starfsemi erlends sendiráðs. Lögmaður mannsins er hins vegar fullviss um að íslensk lög gildi í þessu tilviki.

DV hefur stefnu málsins undir höndum. Maðurinn er ungverskur en hefur búið lengi á Íslandi. Hann starfaði sem bílstjóri hjá sendiráðinu frá 1. maí 2017 og þar til hann hætti störfum í byrjun þessa árs. Á starfstímanum segist hann hafa orðið þola mjög vanvirðandi framkomu af hálfu vinnuveitenda sinna, sérstaklega af hendi þáverandi sendiherra Indlands á Íslandi. Þurfti hann meðal annars að þola ítrekuð rasísk ummæli sendiherrans í sinn garð. Það vekur athygli að rasisminn snerist um húðlit hans sem hvíts manns. Meðal þess sem sendiherrann á að hafa sagt er:

Þú ert jafn gagnlaus og aðrir innfæddir starfsmenn, og ég er kominn með upp í kok af hvítu fólki (e. „You are as useless as the other persons of the local staff, and I am fed up with whities.“) og „klaufskur og heimskur eins og aðrir innfæddir“ („clumsy and idiotic like all of the locals“).

Eftirfarandi lýsingar má finna í stefnunni um framkomu sendiherrans við manninn:

„Þann 7. nóvember 2019, heimsótti sendiherrann Hard Rock Café ásamt eiginkonu sinni en þar varð hann ofurölvi. Hann snéri svo aftur heim án eiginkonu sinnar og skipaði stefnanda að yfirgefa svæðið. Síðar um kvöldið snérist sendiherranum hins vegar hugur og fyrirskipaði hann þá stefnanda að sækja eiginkonuna – sem stefnandi gerði. Þegar stefnandi hafði ekið sendiherrafrúnni heim var honum ekki þakkað fyrir unnin störf heldur var tekið á móti honum með svívirðingum fyrir að hafa „gleymt“ eiginkonu sendiherrans. Í svívirðingunum fólust einnig mörg mjög niðrandi og rasísk ummæli um stefnanda.

Sendiherrann skipaði stefnanda ítrekað að brjóta gegn umferðarlögum á meðan hann sinnti sinni vinnu og setti óeðlilegan þrýsting á stefnanda. Í ljósi samningssambands milli stefnanda og indverska sendiráðsins er ljóst að sendiherrann var í yfirburðarstöðu gagnvart stefnanda og valdaójafnvægið mikið. Þann 28. janúar 2020, var stefnandi beittur miklum þrýstingi af sendiherranum, en sá síðarnefndi krafðist þess að stefnandi tæki ólöglega fram úr öðrum bifreiðum í umferðinni og að hann keyrði yfir gatnamót á rauðu ljósi.

Þar að auki varð stefnandi, sem og aðrir starfsmenn, fyrir  niðrandi framkomu og svívirðingum á meðan undirbúningi fyrir heimsókn forseta Indlands, Ram Nath Kovind, stóð yfir. Þeir starfsmenn gætu sannreynt framangreint enda voru þeir mjög gagnrýnir á framferði sendiherrans.“

Krefst samtals hátt í fimm milljóna

Maðurinn krefst vangoldinna launa sem eru, að viðbættri hálfri milljón í lögmannskostnað, tæplega 3,7 milljónir. Segist maðurinn hafa fengið greitt undir taxta, hann hafi ekki fengið desemberuppbót og orlofsbót. Ennfremur hafi hann verið snuðaður um yfirvinnugreiðslur.

Maðurinn krefst síðan miskabóta upp á 750 þúsund krónur fyrir vanvirðandi framkomu og rasisma. Er krafan meðal annars  grundvölluð á því að sendiherrann hafi gerst brotlegur gegn banni við mismunun skv. 7. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Samkvæmt því ákvæði er hvers kyns mismunun á vinnumarkaði óheimil. Þá segir í 16. gr. sömu laga að sá sem brýtur gegn lögunum sé skaðabótaskyldur vegna fjártjóns og miska samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar.

„Samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er heimilt að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Stefnandi telur að í þeim svívirðingum og áreiti sem hann varð fyrir í starfi sínu fyrir sendiráðið hafi falist ólögmæt meingerð gegn honum og krefst þar af leiðandi miskabóta á þeim grundvelli,“ segir ennfremur í stefnunni.

Mun reyna á friðhelgi sendiráða

Það er Lögmannsstofan Valdimarsson sem rekur málið fyrir manninn og segist Ómar Valdimarsson, lögmaður hjá stofunni, ekki telja hættu á því að málinu verði vísað frá á grundvelli úrlendisréttar. „Sendiráð geta ekki skotið sér undan ábyrgð sinni á starfsfólki sem þau ráða í gistiríki, það eru ákvæði um þetta í alþjóðlegum samningum sem Ísland hefur ýmist staðfest innleitt,“ segir Ómar í samtali við DV.

Í stefnunni er ennfremur bent á það að hvergi í íslenskum lögum séu sendiráð alfarið undanþegin lögsögu íslenskra dómstóla. Ómar telur þó að málið sé lögfræðilega mjög áhugavert þar sem tekist verður á um hve langt friðhelgi sendiráða nær í gistiríkjuum.

„Reglur þjóðaréttar um úrlendisrétt ríkja í öðrum ríkjum byggja á grunnhugmyndinni um að ríki séu jafnsettir aðilar að þjóðarétti og slíkir fullvalda aðilar geti ekki átt lögsögu yfir hvorum öðrum. Úrlendisréttur erlendra ríkja er einkum studdur af þjóðréttarvenjum sem lúta flestar að því að ríki megi ekki beita ríkisvaldi sínu, á yfirráðasvæði sínu, gagnvart ákveðnum athöfnum, sem teljast stafa frá öðru ríki, “ segir í stefnunni.  Er síðar í textanum bent á ákvæði hins svokallaða Basel-samnings, sem Ísland er aðili að, en í honum segir að erlent ríki geti ekki borið fyrir sig úrlendisrétti í málum sem varða ráðningarsamninga við starfsfólk ef vinnan sem innt er af hendi, samkvæmt samningum, fer fram í móttökuríki.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 31. maí næstkomandi. Búast má við því að aðalmeðferð verði í haust.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Rússnesk skip og kafbátar horfnir úr sýrlenskri flotastöð

Rússnesk skip og kafbátar horfnir úr sýrlenskri flotastöð
Fréttir
Í gær

Nettó og Bónus í jólabókaverðstríði — mikill verðmunur á spilum, bókum og Legó

Nettó og Bónus í jólabókaverðstríði — mikill verðmunur á spilum, bókum og Legó
Fréttir
Í gær

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“
Fréttir
Í gær

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“
Fréttir
Í gær

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands
Fréttir
Í gær

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans