fbpx
Sunnudagur 19.maí 2024
Fréttir

Íbúð á 50% afslætti ekki ennþá seld eftir rúm 2 ár á markaðnum – „Skemmtileg eign í hjarta bæjarins“

Máni Snær Þorláksson
Mánudaginn 21. febrúar 2022 14:00

Íbúðin sem um ræðir að utan - Mynd: Skjáskot/Heimaey

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það getur verið erfitt að finna ódýrar eignir á fasteignamarkaðnum í dag og nánast útilokað er að finna íbúð á einhverri útsölu. Þó er ein eign á fasteignavefum landsins sem er til sölu með 50% afslætti ef miðað er við markaðsverð. Þrátt fyrir þennan mikla afslátt hefur eignin ekki náð að seljast síðan hún var sett á sölu í október 2019.

Ástæðan fyrir því að íbúðin er ekki ennþá seld er þó nokkuð einföld en veggjatítlur er að finna í sperrum hússins. „Eigendur lentu í því að eftir að þeir keyptu húsið kom upp veggjatítla sem var í sperrum og er enn. Eigendur hafa ekki búið í risinu, þar sem búið að að rífa klæðningar af sperrum. Veggjatítlan  er aðeins komin í neðri hæð að hluta,“ segir í lýsingu eignarinnar. Hræðslan við meindýrið hefur ollið því að eignin er ekki ennþá seld þrátt fyrir að hún sé á helmingsverði.

Ef veggjatítlan væri ekki til staðar í eigninni væri sagan eflaust önnur þar sem um er að ræða fallegt og gamalt hús í miðbæ Vestmannaeyjabæjar. Eignin er 154 fermetrar að stærð, hún inniheldur fjögur herbergi og er með sérinngangi. Þá er geymsla í kjallaranum og ágætis garðhús er í garðinum auk útiarins. „Skemmtileg eign í hjarta bæjarins. Garðurinn er einstakur og í honum er stærsta öspin í Eyjum,“ segir svo í lýsingu fasteignasölunnar Heimaey.

„Hún er ódýr, það eru bölvaðar pöddur í sperrunum. Það er ekki búið að gera úttekt á því hvað þetta er mikið,“ segir fasteignasali hjá Heimaey um eignina.

Fasteignasalinn segir að fólkið sem er að selja íbúðina hafi verið búið að búa í henni í nokkurn tíma þegar veggjatítlan fannst þar. Þá segir hann að það sé sérstaklega erfitt að selja íbúðina þar sem bankarnir vilja ekki lána fyrir henni. „Þetta er bara mjög erfitt og það er málið í öllum svona eignum að bankar eru bara hættir að lána um leið og þetta fréttist, áhættan er algjörlega á kaupanda sem þarf að koma bara með sitt eigið fé.“

Myndi aldrei kaupa hús með veggjatítlu

Meindýraeyðirinn Steinar Smári Guðbergsson segir í samtali við blaðamann að hann myndi seint kaupa hús með veggjatítlu. „Ég persónulega myndi aldrei kaupa hús sem er með veggjatítlu, þú veist aldrei hvar hún endar eða byrjar,“ segir hann og útskýrir svo hvers vegna veggjatítlan er sérstaklega leiðinleg.

„Ég hef komið að mörgum verkefnum þar sem veggjatítla er í húsum. Á Íslandi er það þannig að líftími lirfunnar er lengri en annars staðar, hún getur lifað í allt að þrjú ár á lirfustigi í viðnum. Málið er að það kemur egg og það klekst út oftast á einhverjum 15 dögum, það breytist lítið hvort sem maður er á Íslandi eða í útlöndum. Svo kemur lirfa og venjulega ætti sú lirfa að vera bara á lirfustiginu í 8 mánuði en á Íslandi – út af sérstöku veðráttunni, öðru rakastigi og hitastigi – þá er þessi tími orðinn oftast nær upp í þrjú ár. Næst púpar hún sig og breytist svo í bjöllu sem lifir nú reyndar ekki í nema 2-8 vikur en flugtími bjöllunnar, sá tími sem hún breytist í bjöllu, er oftast í miðjum júlí. Hún er fleyg og getur flogið á milli húsa, dreift sér í nærliggjandi hús.“

Steinar Smári segir að erfitt sé að losna við veggjatítluna. „Ef hún er komið í hús á annað borð þá er voðalega lítið hægt að gera til að stemma stigu við henni,“ segir hann.

„Það er hægt að taka allt innan úr húsinu, hreinsa allt. Það þarf að opna bara húsið að innanverðu, taka alla innréttingu í burtu, bókstaflega alla innréttingu í burtu og þurrka húsið. Af því hún þarf svo hátt rakastig til þess að lifa, það hættir allt að gerast hjá henni ef rakastigið fer mikið niður fyrir 43% í viðnum – sem er þó frekar hátt rakastig í við, oftast er þetta tengt einhverjum leka eða rakaskemmdum. Þú veist aldrei hvar það endar í raun og veru.“

Þá útskýrir hann nánar hvernig veggjatítlunum er útrýmt. „Ef þú ætlar að reyna að bjarga húsinu, sem er oftast nær ekki þess virði þegar á annað borð kemur – það kostar mikið að rífa allt innan úr húsinu, en þá þarf að kynda allt húsið upp til þess að drepa kvikindin og stoppa þetta,“ segir hann.

„Það er bara gert þannig að húsið er bara kynt upp með ofnum, því heitara sem það er úti því betra því þá er hitinn þar að koma á móti hitanum sem er inni. Það þarf að þurrka húsið bara upp og helst að ná hitastiginu yfir 50 gráður ef það er mögulegt.

„Í stuttu máli sagt ætti bara að rífa húsið og brenna efnið, það er bara þannig.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Vilja reisa vonarvita fyrir Grindavík – Upplýsta Grindavíkur geit

Vilja reisa vonarvita fyrir Grindavík – Upplýsta Grindavíkur geit
Fréttir
Í gær

Sagði yfirmanninn hafa komið illa fram við sig og mismunað sér en var ekki nógu skýr

Sagði yfirmanninn hafa komið illa fram við sig og mismunað sér en var ekki nógu skýr
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Öryggisverðir fylgja Bjarna hvert fótmál

Öryggisverðir fylgja Bjarna hvert fótmál
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rúnar Hroði gefst ekki upp: „Ég ætla að fara með þetta alla leið“

Rúnar Hroði gefst ekki upp: „Ég ætla að fara með þetta alla leið“