fbpx
Laugardagur 18.maí 2024
Fréttir

Völva DV 2022 – Málið gegn Gylfa Sig fellt niður, hinir útskúfuðu snúa aftur og konur verða allt í öllu í Eurovision

Ritstjórn DV
Laugardaginn 1. janúar 2022 11:57

DV völva Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ár hvert er það hefð DV að birta ítarlega Völvuspá í lok árs þar sem spámiðill er fenginn til þess að skyggnast bak við huliðstjöld framtíðarinnar og reyna að greina hvað sé að fara að gerast í íslensku þjóðfélagi á næsta ári. Eftir nokkra leit samþykkir miðill, kona á besta aldri sem býr í nágrannasveitarfélagi Reykjavíkur að taka verkefnið að sér og setjast niður með blaðamanni DV.

Eins og alltaf við slíka iðju er fyrirvörum komið á framfæri. „Það er hægara sagt en gert að líta yfir svo breytt svið og reyna að skynja hvað er í vændum á næsta árið. Það er mun erfiðara en að sitja með einhverjum í sama herbergi og reyna að spá fyrir um framtíð hans,“ segir Völva DV þetta árið.

Þess ber að geta að völvuspá DV verður birt í nokkrum hlutum yfir hátíðarnar en hér að neðan má lesa um hvaða Völva DV telur að eigi eftir að berast hæst í fréttum næsta árs.

Um fátt hefur verið meira rætt á nýliðnu ári en málefni KSÍ og ýmissa afreksmanna sem að tengjast knattspyrnunni. Að mati Völvu DV verður að einhverju leyti það sama upp á teningnum á næsta ári. Ber þar hæst mál Gylfa Sigurðssonar en á þeim vígstöðvum ætti að draga til tíðinda á næsta ári.

„Ég finn það á mér að málið gegn Gylfa verði látið niður falla en að sjálfsögðu mun verða mikið fjaðrafok í fjölmiðlum þegar í ljós kemur hvaða ásakanir voru settar fram gegn honum. Það blasir við að málið hefur stórskaðað feril hans og orðspor. Ég  sé ekki að Gylfi spili knattspyrnu í nánustu framtíð. Líklega er ferillinn á enda.“

Málið gegn Gylfa Þór verður látið niður falla á nýju ári Mynd/Getty

Sömu sögu er að segja af Aroni Einari og Eggerti Gunnþór. „Það mál verður líka fellt niður á næsta ári vegna ónógra sannanna og mun það vekja upp reiðiöldu meðal ákveðins hóps í samfélaginu. En þrátt fyrir þessa niðurstöðu er líka augljóst að mannorð Aron Einars hefur orðið fyrir miklum skaða. Hann mun ekki eiga afturkvæmt í landsliðið þó að skórnir séu ekki komnir upp í hillu.“

Þá munu málefni KSÍ verða mjög hávær á næsta ári, sérstaklega þegar kemur að formannskosningu. „Ég skynja ekki að Vanda verði langlíf í stóli formanns, til þess nýtur hún ekki nægilegs stuðnings. Andstæðingar hennar leita að heppilegum kandídat en sá þarf að vera óumdeildur og njóta virðingar.  Ég sé ekki betur en að sá einstaklingur muni finnast og hann nái kjöri. Það mun einnig valda usla til skamms tíma en þegar sá stormur er yfirstaðinn mun loks skapast ró og vinnufriður um starf KSÍ.“

Þá telur Völvan að fljótlega muni nýr formaður skipta um landsliðsþjálfara. „Úrslitin verða slæm og Arnar Þór Viðarsson hefur ekki náð að afla sér vinsælda og stuðnings sem landsliðsþjálfari. Hann verður því látinn víkja og KSÍ mun velja erlendan landsliðsþjálfara eða að minnsta kosti þjálfara sem nú starfar erlendis til þess að taka við liðinu.“

Völvan segir að næsta ár verði afar erfitt fyrir íslenska karlalandsliðið, stemmningsleysið verður algjört og framtíðarmennirnir eru enn of ungir – þeirra tími kemur ekki alveg strax. „Sem betur fer mun kvennalandsliðið eiga frábært ár og heilla þjóðina upp úr skónum á EM í sumar. Ég sé mikla orku, jákvæðni og gleði í kringum liðið og árangurinn verður samkvæmt því.“

Hinir útskúfuðu snúa aftur

Auk KSÍ var gríðarleg umræða á síðasta ári sem snerist um meint kynferðisofbeldi þekktra einstaklinga á borð við Sölva Tryggvasonar, Ingólfs Þórarinssonar og tónlistarmanninn Auður. „Sölvi hefur þegar snúið aftur þó að sú endurkoma virðist byrja erfiðlega. Hann fær þó byr í seglin þegar að kærurnar gegn honum verða felldar niður. Þá finnst mér eins og hann muni leita réttar síns vegna þess sem á honum hefur dunið en þó ekki endilega gegn þeim sem kærðu. Frekar gegn þeim sem voru á bak við málið,“  segir Völvan.

Sölvi Tryggvason fær byr í seglin þegar kærur gegn honum verða felldar niður á nýju ári

Hún segir enn fremur að Ingólfur muni valda usla á árinu með opinskáu viðtali um það sem gekk á á síðasta ári. „Þar mun hann axla ábyrgð að hluta en ekki nægilega að mati þeirra sem hafa ásakað hann. Hluti þjóðarinnar verður á öðru máli og þessir hópar munu hnakkrífast. Deilum í kringum Ingólf lýkur því ekki í bráð.“

Annar tónlistarmaður, Auður, var útskúfaður á síðasta ári. Völvan segir að hann muni fara huldu höfði áfram á næsta ári. „Hann mun nota tímann að gera það sem hann gerir best, semja og taka upp tónlist. Ferillinn gæti þó breyst á þá leið að hann fari meira að láta aðra tónlistarmenn flytja lagasmíðar sínar.“

Opinbera þjóðþekkta menn

Allar þessar áðurnefndu niðurfellingar mála og tilraunir útskúfaðra til þess að ná ferlum sínum aftur á flug verður til þess að Metoo-umræðan verður hávær á næsta ári.

„Baráttuhópurinn Öfgar verður mjög áberandi á næsta ári og þær munu leiða þá reiðibylgju sem ríður yfir þegar að hver kæran á fætur öðrum er felld niður. Þær og stuðningsmenn þeirra munu telja að réttlætinu hafi ekki verið fullnægt og að ofangreind dæmi séu enn eitt merki þess að réttarkerfið sé ónýtt þegar kemur að kynferðisofbeldismálum. Að auki munu Öfgar munu vekja mikla athygli á árinu fyrir að opinbera þjóðþekkta menn, sem tengjast mögulega íþróttahreyfingunni, sem hafa ekki áður verið í umræðunni áður varðandi slíkar ásakanir. Ég skynja því enn meiri pólaríseringu í þessum málaflokki á næsta ári og umræðan verður enn háværari á næsta ári,“ segir Völvan.

Edda Falak mun draga sig aðeins inn í skelina á næsta ári Mynd/Instagram

Hlaðvarpsþáttastjórnandinn Edda Falak hefur verið afar áberandi á nýliðnu ári en Völvan segir frægðarsól hennar gengur að einhverju leyti til viðar á næsta ári. „Það tekur á halda úti nánast ein úti hlaðvarpsþætti og tekjurnar eru í raun ekki merkilegar miðað við vinnuna. Þá er ekki síður erfitt að vera í miðpunkti deilna og baráttu eins og Edda hefur verið enda eru gagnrýnendur hennar óvægnir. Ég finn það á mér að Edda eigi því eftir að draga sig ögn í hlé á næsta ári og horfa inn á við.“

Eurovision veitir frí frá deilum

Eins og fyrr ár verða Íslendingar helteknir af Eurovision þó að margir reyni enn að halda því fram að það sé ekki kúl. „Undankeppnin hér heima mun vekja mikla athygli og verður óvenju mikið lagt í umgjörð keppninnar. Það munu mörg spennandi atriði koma fram en ég sé ekki annað í spilunum en að keppnin munu fyrst og síðast snúast um konur, sterkar konur.“

Ekkert verður til sparað varðandi undankeppni Eurovision hérlendis

Þá segir Völvan að óhefðbundinn tónlistarstíll, að minnsta kosti í íslenska Eurovision, gæti unnið sigur en þá mun kona af erlendum uppruna einnig gera vel. „Hver sem sigurvegarinn verður þá mun atriðið sem Ísland sendir frá sér í ár vera talið sigurstranglegt í úrslitakeppninni og því mun myndast gríðarlegur áhugi fyrir keppninni hérlendis. Hvort við vinnum keppnina er óvíst en árangurinn verður góður.“

Þjóðþekktur fjölmiðlamaður söðlar um

Mikil umræða verður um fjölmiðla landsins á nýju ári og þá sérstaklega erfiða rekstrarstöðu þeirra. Framlag ríkisins dugar ekki til og stóru einkareknu miðlarnir standa frammi fyrir ári breytinga, sérstaklega þeir sem gefa út efni sitt á pappír. „Það verður mikið rót á fjölmiðlum á þessu ári. Hjá Morgunblaðinu helst það í hendur við að Davíð Oddsson stígur til hliðar og nýr öflugur ritstjóri með stórar hugmyndir tekur við stjórninni. Þá mun hefjast vinna við að umbreyta miðlinum, keyra á styrkleika hans en draga úr því sem stendur ekki undir sér. Sú vinna mun þó taka mikinn tíma og óvíst hvort að breytingarnar gangi í gegn á þessu ári.“

Davíð Oddsson, hættir sem ritstjóri Morgunblaðsins á árinu

Sömu sögu er að segja af hinum risanum á markaðinum, Fréttablaðinu. „Þar innandyra þarf einnig að endurhugsa viðskiptamódelið og taka erfiðar ákvarðanir sem verð þó farsælar.“

Þá verður mikil umræða um starfsskilyrði stéttarinnar. „Það mun vekja mikla athygli þegar þjóðþekktur fjölmiðlamaður söðlar um á nýju ári. Það mun ýta undir umræðu um hvað útskýrir þennan mikill flótti úr stéttinni og ástæður þess að starfsmannavelta er mikil á flestum miðlum. Allir geta verið sammála um að það sé uggvænleg þróun ef öflugt fjölmiðlafólk gefst upp á streitu og áreitinu sem starfinu fylgir.“

Einnig mun það vekja mikla athygli á árinu þegar þekktur karlkyns fjölmiðlamaður mun opna sig um glímu við átröskun í skugga streitu og vandamála í einkalífinu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Þorgerður Katrín las Bjarna pistilinn: „Ég vil hvetja fólk til þess að skoða heimabankann hjá sér“

Þorgerður Katrín las Bjarna pistilinn: „Ég vil hvetja fólk til þess að skoða heimabankann hjá sér“
Fréttir
Í gær

Öryggisverðir fylgja Bjarna hvert fótmál

Öryggisverðir fylgja Bjarna hvert fótmál
Fréttir
Í gær

Par braut rúðu í fjölbýlishúsi

Par braut rúðu í fjölbýlishúsi
Fréttir
Í gær

Langveik ung kona fékk liðsauka í barningi sínum við Sjúkratryggingar – Sögð hafa þurft samþykki stofnunarinnar fyrir aðgerð sem læknir sagði nauðsynlega

Langveik ung kona fékk liðsauka í barningi sínum við Sjúkratryggingar – Sögð hafa þurft samþykki stofnunarinnar fyrir aðgerð sem læknir sagði nauðsynlega
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tommi ómyrkur í máli: Þetta er fólkið sem sagði nei – Banvænt aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar

Tommi ómyrkur í máli: Þetta er fólkið sem sagði nei – Banvænt aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmundur segir skemmdarverk framið á íslenskri tungu og nefnir fjölmörg dæmi

Sigmundur segir skemmdarverk framið á íslenskri tungu og nefnir fjölmörg dæmi