fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Brim lagði sjómann í dómsmáli – Píndi sig áfram í vinnunni eftir slys – Fékk rúmar fimm milljónir í uppsagnarfresti

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 22. júní 2021 17:00

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Útgerðarfélagið Brim hf. var í gær sýknað af kröfum sjómanns sem taldi sig ekki hafa fengið nægilega háar greiðslur í veikindaforföllum eftir að hann slasaðist við störf árið 2015. Krafðist sjómaðurinn rúmlega 3,6 milljóna króna frá útgerðarfélaginu. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Maðurinn slasaðist um borð í frystitogara í desember árið 2015. Kemmdist hann milli grandaravírs og þils í rennu skipsins þegar verið var að taka trollið inn. Fékk hann við þetta mikið mar á vinstri ökkla og miðlægt yfir vinstra hné. Vegna slyssins leitaði sjómaðurinn til bæklunarskurðlæknis í febrúar árið 2016. Um skeið virtust meiðslin ekki alvarleg en svo fór að sjómanninum versnaði mikið og þurfti hann að pína sig áfram í vinnu. Endurteknar heimsóknir til bæklunarlæknis staðfestu versnandi ástand hans og var hann haltrandi í vinnunni um borð lengi vel.

Maðurinn var raunar óvinnufær og forfallaðist frá ágústmánuði og fram í október 2016 en var þessa utan við störf fram í apríl 2017.

Að áliti bæklunarlæknisins hafði slys mannsins leyst úr læðingi atburðarás þar sem snögg versnun hefði orðið á slitgigt í vinstra hné. Það sem áður hafi valdið vægum
einkennum hefði vaxið svo að hann væri orðinn óvinnufær. Í texta dómsins segir: „Myndrannsóknir hefðu sýnt mun meiri slitbreytingar í vinstra hnénu sem áður hefðu verið vægar. Af þessum sökum mætti þess vænta að stefnandi þyrfti gervilið í nálægri framtíð. Þá hafi óþægindi í hægra hné sem hann fékk við áverkann í júní 2016 verið að plaga hann síðan en þar hefði verið um liðþófaáverka að ræða og vægar slitbreytingar en þess væri ekki að vænta að um varanlegt mein væri að ræða á því hné.“

Manninum var sagt upp störfum í apríl árið 2017 enda var hann orðinn óvinnufær. Hann fékk greiðslur upp á samtals rúmlega fimm milljónir á uppsagnarfresti en taldi Brim hafa vangreitt sér þann tíma sem hann var óvinnufær og forfallaðist, frá síðsumri 2016 og fram á haustið. Fyrirkomulagið var þannig að hásetar tóku annanhvorn túr en fengu greiddan hálfan aflahlut netamanns fyrir alla túra, líka frítúrana. Brim gerði upp við sjómanninn samkvæmt þessu á forfallatímanum en hann taldi að hann ætti að fá greiddan fullan hlut því skiptimannafyrirkomulagið ætti ekki að firra útgerðarfélagið ábyrgð á því að greiða fullan hlut í forfallalaun vegna slysa eða veikinda.

Héraðsdómur tók undir þessa kröfu sjómannsins. Á hinn bóginn taldi dómurinn að Brim hefði greitt sjómanninum umfram skyldu á uppsagnarfresti þar sem hann hafði vorið 2017 tæmt rétt sinn samkvæmt sjómannalögum til launa samkvæmt aflahlut á uppsagnarfreststímanum en átti aðeins rétt til kauptryggingar. Því hefði Brim í raun ekki þurft að greiða honum nema rúmlega 800 þúsund krónur á uppsagnarfrestinum í stað rúmlega fimm milljóna og þetta telur dómurinn að vegi upp skertar greiðslur á forfallatímanum.

Brim hf. er því sýknað af kröfum sjómannsins en málskostnaður fellur niður.

Dóminn má lesa hér

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu