fbpx
Föstudagur 22.október 2021
Fréttir

Hæstiréttur þyngir nauðgunardóm yfir tveimur karlmönnum – „Gat þeim ekki dulist að um barn væri að ræða“ – Stúlkan fraus við nauðganirnar

Erla Hlynsdóttir
Miðvikudaginn 16. júní 2021 14:47

Hús Hæstaréttar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tveir pólskir karlmenn, Lukasz Soliwoda og Tomasz Walkowski, voru í dag hvor um sig dæmdir í þriggja og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti fyrir nauðgun. Þeir höfðu áður verið dæmdir í þriggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur, og síðan mildaði Landsréttur þann dóm niður í tveggja ára fangelsi. 

Í reifun Hæstaréttar segir:

„Brot ákærðu voru alvarleg og beindust gegn ungri stúlku sem stödd var ein og ölvuð um nótt á heimili ókunnugra manna. Gat þeim ekki dulist að um barn væri að ræða en ákærði Tomasz er nítján árum eldri en brotaþoli og ákærði Lukasz fimmtán árum eldri. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi beittu ákærðu brotaþola ólögmætri nauðung með því að nýta sér yfirburðastöðu sína sökum aldurs- og þroskamunar og þeirra aðstæðna sem stúlkan var í og höfðu gegn vilja hennar samræði við hana sem stóð yfir í nokkuð langan tíma.“

Þá segir í dómi Hæstaréttar:

„Fjögur ár og fjórir mánuðir eru liðnir síðan rannsókn lögreglu hófst og er málið nú til meðferðar á þriðja dómstigi. Samkvæmt framangreindu liðu 27 mánuðir frá því að rannsókn málsins hófst og þar til ákæra var gefin út. Fyrir liggur að hlé varð að mestu á rannsókninni um tíu mánaða skeið, auk þess sem ákæra var gefin út sjö mánuðum eftir að málið barst ákæruvaldi. Rannsókn málsins var ekki mjög yfirgripsmikil þótt hún beindist að þremur sakborningum en brýnt var að henni væri hraðað eins og kostur var þar sem við brotum ákærðu liggja þungar refsingar. Á hinn bóginn sættu ákærðu hvorki gæsluvarðhaldi né farbanni á tímabilinu eða öðrum þungbærum takmörkunum á réttindum sínum. Þá verður ekki talið að sá tími sem leið frá því að málið barst héraðssaksóknara þar til ákæra var gefin út hafi verið úr hófi. Þá hefur eðlilegur framgangur verið í meðferð málsins á þremur dómstigum. Að öllu þessu gættu verður með hliðsjón af dómaframkvæmd að nokkru litið til framangreindra tafa á rannsókn lögreglu við ákvörðun refsingar ákærðu. Þegar þetta er virt og með tilliti til alvarleika brota ákærðu gagnvart barni og þeirrar refsingar sem liggur við háttsemi þeirra samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga verður refsing þeirra, hvors um sig, ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.“

Alvarleg og ófyrirleitin brot

Lukasz og Tomasz voru hvor um sig dæmdir í þriggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember 2019. Þeir voru dæmdir fyrir nauðgun, með því að hafa haft samfarir og önnur kynferðismök við stúlkuna án hennar samþykkis en þeir beittu hana ólögmætri nauðung með því að notfæra sér ölvunarástand hennar og yfirburðastöðu síða þar sem hún var ein með þremur ókunnugum karlmönnum. Nýttu þeir sér yfirburðastöðu sína gagnvart henni sökum aldurs- og þroskamunar. Þeir eru báðir á fertugsaldri. Þriðji maðurinn, sem var tæplega tvítugur á þessum tíma, var sýknaður af því að hafa þvingað hana til að hafa við sig munnmök þar sem það þótti ekki sannað.

Í dómi héraðsdóms kom fram að brot þeirra hafi verið alvarleg og ófyrirleitin en þar sagði að Tomasz hafi nauðgað stúlkunni og síðan stýrt henni inn í herbergi til Lukasz þar sem henni var aftur nauðgað.

Brotin voru framin í febrúar 2017. Stúlkan hafði þá verið að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur og hitt ungan mann, þann sem var sýknaður í málinu, sem bauð henni far og hringdi í þá Lukazs og Tomasz sem sóttu þau á bíl og fóru þau heim til þeirra þriggja. Ekkert hafði þá komið fram um að hún hefði neinn kynferðislegan áhuga á eldri mönnunum en bæði stúlkan og ungi maðurinn sögðu að þau hefðu kysst hvort annað fyrr um kvöldið.

Stúlkan fraus og fannst hún vera í hættu

Við skýrslutöku sagði stúlkan að annar eldri maðurinn hafi farið með hana inn í herbergi og hún fyllst óöryggi. Í héraðsdómi sagði: „Hún hafi séð að hann læsti dyrunum og þetta hafi allt gerst hratt. Hún hafi ekkert gert, einungis frosið. Hún hafi ekki viljað vera með manninum en fundist hún ekki geta sagt það og fundist eins og hún væri einhvern veginn í hættu. Hana hafi langað að fara en heilinn hefði ekki leyft henni það, hún hefði bara frosið.“

Í héraðsdómi kemur fram að eftir að Tomasz nauðgaði stúlkunni beindi hann henni inn í herbergi Lukaszar og hafði þá í huga að hún hefði kynmök við hann, en sagði stúlkunni það ekki heldur sagði henni að fara að skoða herbergið hans.  Í dómnum segir að þetta lýsi ákveðinni stjórn á hennar gjörðum og blekkingu gagnvart henni.

„Brotaþoli sagði að sér hefði liðið illa á meðan á þessu stóð. Henni hafi liðið eins og hún væri skítug eða ógeðsleg og eins og það væri verið að nota hana og aðstæðurnar. Þeir hafi verið að notfæra sér að hún var miklu yngri en þeir og að hún var mjög drukkin,“ segir í héraðsdómi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan útilokar ekki kosningasvindl – Salurinn ekki læstur líkt og Ingi hélt fram

Lögreglan útilokar ekki kosningasvindl – Salurinn ekki læstur líkt og Ingi hélt fram
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Trúboðinn Eiríkur í Omega fékk skilorðsbundna 10 mánuði og 109 milljóna sekt

Trúboðinn Eiríkur í Omega fékk skilorðsbundna 10 mánuði og 109 milljóna sekt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þrír árgangar í Háteigsskóla í heimakennslu vegna kórónuveirusmita

Þrír árgangar í Háteigsskóla í heimakennslu vegna kórónuveirusmita
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ölvaður ók á stólpa

Ölvaður ók á stólpa