fbpx
Föstudagur 11.júní 2021
Fréttir

Óhugnanleg myndbönd sýna Marek dreifa seðlum um miðbæinn – Lagðist á jörðina og kyssti Pútinfána utan við rússneska sendiráðið

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 5. maí 2021 10:24

Marek Moszczynski var ákærður fyrir þrjú manndráp og tíu manndrápstilraunir en var sýknaður vegna ósakhæfis. mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjórði og jafnframt síðasti dagur í aðalmeðferð máls Héraðssaksóknara gegn Marek Moszczynski fer nú fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Marek er gefið að sök að hafa banað þremur og sýnt tíu til viðbótar banatilræði með því að hafa lagt eld að herbergi sínu og stigagangi hússins við Bræðraborgarstíg 1 sem brann í júní í fyrra.

Þessi síðasti dagur átti upphaflega að fara fram á föstudaginn fyrir helgi en sökum veikinda var því frestað til dagsins í dag. Á fjórða tug vitna voru í síðustu viku leidd í vitnastúku til skýrslugjafar. Var þar um að ræða aðra íbúa í húsinu, bróðir ákærða, verkfræðinga, lögreglumenn sem brugðust við útkalli um eld á Bræðraborgarstíg og geðlækna. Marek var í vetur metinn ósakhæfur af geðlæknum, en dómarar eru ekki bundnir af því mati.

Fari svo að Marek verður metinn ósakhæfur í dómi verður honum ekki gerð hefðbundin fangelsisrefsing. Dómari gæti þó beitt öðrum úrræðum, svo sem nauðungarvistun á réttargeðdeild.

Marek í dómsal í síðustu viku. mynd/Anton Brink

Fram kom í máli geðlækna að hann hefði verið greindur með örlyndi, eða maníu, sökum geðhvarfasýki. Aðspurðir af Stefáni Karli, verjanda Mareks, svöruðu geðlæknar því til að Marek væri á sterkum lyfjum sem héldu veikindum hans niðri og hann væri fyrirmyndarsjúklingur og fangi. Það kom því mörgum á óvart þegar Stefán varpaði því fram að hann hefði hætt að taka lyfin sín fyrir hálfu ári síðan.

Stefán spurði þá jafnframt geðlæknana í síðustu viku hvort líklegt væri að veikindi Mareks væru líkleg til þess að endurtaka sig. Voru læknarnir ekki sammála um hvort svo gæti farið. Einn læknirinn varpaði þeirri hugmynd upp að hann yrði undir eftirliti heimilislæknis á heilsugæslu færi svo að hann yrði fundinn ósakhæfur að dómara.

Dagurinn hófst á vitnisburði rannsóknarlögreglumanns sem svaraði spurningum um myndbandsupptökur sem lögregla kallaði eftir af bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu frá þessum degi.

Myndbönd voru því næst spiluð bæði úr öryggismyndavélakerfum í miðbæ Reykjavíkur og við rússneska sendiráðið en hart hefur verið tekist á um hvort yfir höfuð ætti að spila upptökurnar í opnum dómsal. Stefán Karl fór þess á leit við dómara að ef upptökurnar yrðu spilaðar yrði það gert í lokuðu þinghaldi. Hann hafði reyndar reynt það sama þegar kom að því að taka skýrslu af geðlæknum, án árangurs.

Niðurstaðan var að spila brot úr umræddum upptökum.

Marek í fylgd lögreglumanna í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku. mynd/Ernir

Reif af sér fötin og dreifði seðlum um miðbæinn

Í myndbandi mátti sjá Marek hegða sér óeðlilega í miðbæ Reykjavíkur fyrr daginn sem Bræðraborgarstígur 1 brann. Fyrst á Austurstræti þar sem hann dreifði seðlum um götuna. Þá mátti sjá hann ganga niður Austurstræti og inn á Ingólfstorg þar sem hann hélt áfram að sýna vegfarendum ógnandi hegðun og hélt áfram að dreifa seðlum.

Þá mátti sjá hann ganga út af Ingólfstorgi upp Vesturgötuna og í átt að Bræðraborgarstíg, þar sem honum er gefið að sök að hafa kveikt eldinn.

Næst spilaði saksóknari upptökur úr myndavélakerfi sendiráðsins sem sýndu Marek koma gangandi upp götuna með föt á öxlinni sem hann svo fer að fleygja um allar götur. Hann klæðir sig úr skóm og bindi sem hann fleygir yfir götuna. Má þá sjá hann rífa fötin sem hann kom með á öxlinni. Hann rífur svo af sér jakkann og hendir honum yfir grindverk við sendiráðið.

Saksóknari og lögreglumaður frá embætti Héraðssaksóknara ber saman bækur sínar. mynd/Ernir

Hann heldur þá jafnframt áfram að rífa upp seðla úr vösum sínum og dreifa um götuna. Næst mátti sjá Marek taka fána með mynd af Pútin og veifa. Hann leggur þá fánanna á jörðina, leggst á hnén og kyssir myndina.

Í myndskeiði úr búkmyndavélum lögreglumanna mátti sjá að Marek var kominn yfir grindverkið við sendiráðið þegar þeir mættu á staðinn. Þeir opnuðu hliðið og snéru Marek niður, en í handtökunni náði Marek að slengja gúmmímottu í lögreglumennina, en fyrir það er Marek ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni.

Á myndbandinu mátti sjá kveikjara í járnuðum höndum Mareks.

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari mynd/Ernir

„Spetnaz gruppa Afganistan“

Saksóknari spilaði þá upptöku úr lögreglubíl og mátti heyra hann syngja og hlægja. Blasir það við að Marek var í bágu andlegu ástandi þennan dag. Þegar lögregla spyr Marek hvað hann heitir má heyra hann svara því til að hann heitir Dimitri og segir svo: „Spetnaz gruppa, Afganistan.“

Í vitnisburði þeirra sem þekkt höfðu Marek fyrir þessa örlagaríku daga kom fram að Marek hefði verið fyrirmyndarstarfsmaður. Lýsti hjartalæknir honum sem dagfarsprúðum og blíðum manni. Daginn fyrir brunann hafði þá Marek bankað upp á heima hjá honum og verið þá orðin mjög veikur á geði.

Fram kom í vitnisburði annarra vitna að hann hefði veikst mjög fljótlega eftir að hann greindist með magakrabbamein. Eftir brunann kom á daginn að magakrabbameinið væri meinlaust, en slæmt, magasár.

Síðar í dag fer fram munnlegur málflutningur verjanda þar sem þeir færa rök í ræðum sínum fyrir dómara hvers vegna dómararnir þrír ættu að ganga að kröfum þeirra í málinu. Fram kemur í ákærunni sem DV hefur undir höndum að ákæruvaldið krefst þess að Marek verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Samtals nemur sakarkostnaður í málinu rúmum sjö milljónum króna.

Marek sjálfur neitaði að gefa skýrslu fyrir dómi í síðustu viku þegar hann var kallaður upp í vitnastúku, líkt og hann á rétt til, og vísaði þess heldur á skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu. Sú skýrsla er ekki opinbert gagn og er því enn á huldu hver afstaða hans er nákvæmlega til ákærunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Læknir segir fyrirséða hættu á alvarlegum læknamistökum á bráðamóttökunni – „Þöggun og afskiptaleysi“

Læknir segir fyrirséða hættu á alvarlegum læknamistökum á bráðamóttökunni – „Þöggun og afskiptaleysi“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pétur Ben ósáttur – „Er það svona sem við segjum takk?“

Pétur Ben ósáttur – „Er það svona sem við segjum takk?“