fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fréttir

Rafmögnuð spenna í dómsal er Jón Baldvin mætir dóttur sinni – „Ég var varnarlaus, orðlaus, ég trúði varla mínum eigin eyrum“

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 10. febrúar 2021 10:38

Jón Baldvin Hannibalsson og lögmaður hans Vilhjálmur H. Vilhjálmsson í dómsal Héraðsdóms Reykjavíkur. mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að segja að andrúmsloftið hafi verið rafmagnað í Héraðsdómi Reykjavíkur nú í morgun, en þar fer nú fram aðalmeðferð í meiðyrðamáli Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrum utanríkisráðherra og sendiherra, gegn Aldísi Schram, Sigmari Guðmundssyni og RUV. Er Aldísi stefnt vegna málsins en Sigmari til vara og RUV til að það geti haft uppi varnir vegna ábyrgðar RUV á hugsanlegri skaðabótagreiðslu.

Málið snýr að orðum Aldísar sem meðal annars voru látin falla í útvarpsþætti Sigmars á Rás 2 þann 17. janúar 2019. Sagði Aldís þar að Jón Baldvin, faðir hennar, hefði nýtt sér aðstöðu sína sem sendiherra og látið nauðungavista sig á geðdeild, að hann hefði misnotað sig og vinkonu sína og haft frumkvæði að því að lögregla hafði óeðlileg afskipti af sér á heimili sínu.

Kolfinna Baldvinsdóttir, dóttir þeirra Jóns Baldvins og Bryndísar Schram eiginkonu Jóns, og systir stefndu, Aldísar Schram mætti með föður sínum í dómsal í morgun. „Ég veit ekki hvern andskotann þú ert að gera hérna,“ sagði Kolfinna við einstakling sem hún mætti í anddyri dómstólsins. Hún hafði þá fundið sér stað í áhorfendasæti en var vísað út við upphafi málsins þar sem hún mun bera vitni síðar í dag.

Myndband af því þegar Jón Baldvin og Kolfinna mættu í hús Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun má sjá neðst í fréttinni.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður Jóns Baldvins hóf leika með því að spyrja Jón um hagi hans og stöðu. Þá vék hann máli sínu að viðtalinu við Aldísi. Jón Baldvin fullyrti þá að blaðamenn RUV hefðu aldrei haft við hann samband fyrir viðtalið, þrátt fyrir orð þáttastjórnenda, Sigmars, um að reynt hefði verið að fá hlið Jóns á málið.

„Ég á að hafa stundað sifjaspell með dóttur minni á hennar fullorðinsárum, þegar hún er vistuð á geðdeild. Þetta hafði ég aldrei nokkurn tímann heyrt áður, fyrr en í beinni útsendingu á Ríkisútvarpinu,“ sagði Jón um upplifun sína af viðtalinu.

Jón sagði orð Aldísar og viðtalið við hana á RUV ekki fyrstu „atrennu“ gegn sér. Vísaði Jón þar meðal annars til kæru Guðrúnar Harðardóttur, systurdóttur Jóns, en Jón er sagður hafa sent Guðrúnu óviðeigandi bréf þar sem hann lýsir meðal annars kynlífi síns og Bryndísar. Bréfaskriftirnar munu hafa hafist þegar Guðrún var 10 ára gömul. Guðrún lýsti meintri áreitni í viðtali við Nýtt Líf í febrúar 2012.

Jón Baldvin sagðist vanur árásum, en ekki af þessu tagi. Hann hafi sætt árásum í gegnum árin sem umdeildur stjórnmálamaður, meðal annars verið kallaður landráðamaður, að hans sögn, en ásakanirnar á Rás 2, „útvarpi allra landsmanna,“ hafi verið öðruvísi. „Ég var varnarlaus, orðlaus, ég trúði varla mínum eigin eyrum.“ Sagðist Jón hafa verið dæmdur kynferðisafbrotamaður í útvarpinu án þess að hafa fengið tækifæri til að kom vörnum við.

Jón sagði þá fráleitt að einn „maður út í bæ,“ hefði þau völd að geta með einu bréfi látið nauðungarvistað einstaklinga. Þess heldur sagði Jón að slíkar ákvarðanir væru teknar af læknum og öðrum bærum aðilum. „Þetta mál er fjölskylduharmleikur sem átti að leysa án aðkomu fjölmiðla,“ sagði Jón. „Við erum sem betur fer ekki í Sádi Arabíu eða í Rússlandi Pútíns. Ég hafði hvorki vald til að beita þessum úrræðum.“

Aðspurður hvort Jón hafi í einhverjum tilvikum komið að ólögmætum frelsissviptingu Aldísar, svaraði Jón: „Nei.“

Jón Baldvin lýsti því þá að dóttir hans hefði treyst honum vel. Hún hefði raunar treyst honum svo vel, að hann hefði verið gerður að nokkurs konar umboðsmanni hennar í veikindum sínum. Vísaði Jón til þess að það að hann hafi skrifað upp á það, eða veitt samþykki sitt, fyrir því að hún yrði lögð inn gegn hennar vilja, að læknisráði þó, gæti verið uppspretta reiði hennar gegn sér. „Hún beinir reiði sinni, jafnvel réttlátri reiði, yfir þessari meðferð að mér. Og ég er auðvitað ábyrgur að lögum,“ sagði Jón.

Jón lýsti því svo þegar ásakanirnar sem um ræðir birtust fyrst innan fjölskyldunnar. Lýsti Jón því að „Varla til sú kvenpersóna í stórfjölskyldu okkar sem ég á ekki að hafa haft kynferðisleg mök við.“

Spurður út í hvers vegna bréf Jóns um að vista mætti Aldísi á geðdeild gegn hennar vilja hafi verið skrifuð á bréfsefni sendiráðsins, svaraði Jón: „Ég var ekkert að velta fyrir mér bréfhausnum á pappírnum, ég var bara að hugsa hvernig ég gæti brugðist við strax þegar kallið kemur,“ sagði Jón. „Er þetta misnotkun á valdi? Trúir því einhver að sendiherra sé valdspersóna? Hann er enginn valdspersóna.“

Lögmaður Aldísar spurði Jón síðar hvort hann hefði einhver gögn sem sanna það að læknar hafi leitað til hans vegna nauðungarvistunar Aldísar, en ekki öfugt. Jón sagðist myndi ætla það að viðeigandi stofnun hefði þau gögn. Lögmaðurinn lýsti því þá að Aldís hefði óskað eftir öllum gögnum sem tengdust nauðungarvistun hennar á geðdeild og fengið þau afhend, en gögn um að læknar hefðu átt frumkvæði að vistun hennar væru ekki þar að finna.

„Ég hef aldrei sigað lögreglu á dóttur mína til að svipta hana frelsi,“ hvæsti Jón síðar er hann var enn og aftur spurður hvers vegna bréf hans um vistun Aldísar væru stíluð á lögreglu, en ekki heilbrigðisstofnanir. “Enda hef ég ekkert vald til þess.“ Lögmaður Aldísar þráspurði Jón út í það hvernig það geti staðist að aðkoma hans hafi bara verið að staðfesta sem ættingi Aldísar, nauðungarvistun hennar, að frumkvæði lækna, í ljósi þess að bréfin sem frá honum væru komin væru þess eðlis að þar eigi hann sjálfur frumkvæðið, og að bréfin væru, sem fyrr sagði send til lögreglu. Hjá lögreglu er, líkt og greint hefur verið frá áður, eitt tilfellið skráð sem „aðstoð við erlent sendiráð.“

Sem fyrr segir fer aðalmeðferðin í málinu fram í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ljóst er að Kolfinna Baldvinsdóttir mun síðar í dag bera vitni. Þá má gera ráð fyrir því að Aldís Schram og Sigmar Guðmundsson gefi skýrslu síðar í dag. DV mun fjalla nánar um málið í dag.

Uppfært kl 11:15: Jón Baldvin hefur nú svarað spurningum bæði lögmanns síns og Aldísar í réttar tvær klukkustundir. Dagskrá réttarhaldanna hefur þegar riðlast talsvert og hefur dómarinn haft orð á því að lögmenn og vitni skulu reyna að stytta mál sitt. Lögmaður RUV hefur nú orðið og fær tækifæri til þess að spyrja Jón Baldvin út í þau mál er snúa að Sigmari og RUV.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Áfengisneysla á uppleið á Íslandi en niðurleið í Evrópu – Íslendingar fara oft á fyllerí

Áfengisneysla á uppleið á Íslandi en niðurleið í Evrópu – Íslendingar fara oft á fyllerí
Fréttir
Í gær

Saklaus háskólanemi trendaði á Twitter sem hnífstungumorðinginn í Ástralíu

Saklaus háskólanemi trendaði á Twitter sem hnífstungumorðinginn í Ástralíu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Afbrotafræðingur tjáir sig um mál Jóns Sverris – „Við verðum að fylgjast með börnunum okkar og hverja þau umgangast“

Afbrotafræðingur tjáir sig um mál Jóns Sverris – „Við verðum að fylgjast með börnunum okkar og hverja þau umgangast“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann á flótta undan réttvísinni – Ákærður fyrir vörslu og dreifingu barnaníðsefnis en mætir ekki fyrir dóm

Jóhann á flótta undan réttvísinni – Ákærður fyrir vörslu og dreifingu barnaníðsefnis en mætir ekki fyrir dóm
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Starfsfólk hetjur sem eigi hrós skilið – „Ég á varla til orð til að lýsa aðdáun minni“

Starfsfólk hetjur sem eigi hrós skilið – „Ég á varla til orð til að lýsa aðdáun minni“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Átján milljón króna hringur til sölu í Costco

Átján milljón króna hringur til sölu í Costco