fbpx
Miðvikudagur 01.maí 2024
Fréttir

Tómas segir Arnar Þór varasaman varaþingmann sem bulli og fari í mál við fólk sem hefur heilbrigðari skynsemi en hann sjálfur

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 28. desember 2021 08:07

Tómas Guðbjartsson og Arnar Þór. Samsett mynd/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Geggjað að lesa Moggann í morgun og fá staðfestingu á því að omicron sé bara saklaust kvef – enda lítið mál að hrista af sér smá veirupest!“ segir Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir á Landspítalanum, í pistli sem hann skrifaði á Facebook í gærkvöldi. Í pistlinum sem ber fyrirsögnina „Varasamur varaþingmaður & skoðanavinir á villigötum“ segir hann að Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, sé varasamur og að skoðanavinir hans séu á villigötum.

Tómast bendir á að þrátt fyrir að í Mogganum segi að omicron sé bara saklaust kvef þá liggi fárveikt fólk á gjörgæsludeild Landspítalans og enn fleiri á smitsjúkdómadeild „. . . þar sem þeim bara fjölgar, og þar sem undanþágugigg á Þorláksmessu hafa varla hjálpað til,“ segir hann.

Því næst segir hann að nú sé starfsfólk spítalans að veikjast í hrönnum og mörg teymi og deildir séu að sligast undan álagi, sem hafi verið ærið fyrir. „Sjálfur hef ég verið í vinnunni sleitulaust í 10 daga og man ekki annað eins á mínum 30 árum sem læknir,“ segir hann.

Hann segir skiljanlegt að „skynsamur sóttvarnalæknir reyni að bremsa faraldurinn með viðurkenndum aðferðum“ og vísar í hópsmit sem kom upp á hjartadeild Landspítalans í gær en sjúklingar á þeirri deild mega illa við COVID-sýkingu að sögn Tómasar.

Hann segir að sumir þingmenn og ráðherrar virðist ekki skilja þetta og vísi sífellt í frelsi einstaklingsins og að stóri bróðir sé að taka allt yfir. „Síðan hvenær getur frelsi einstaklings gengið út yfir frelsi annarra? Það eru jú mannréttindi að sýkjast ekki af sjúkdómi sem getur verið banvænn – sérstaklega ef maður er veikur fyrir. Eða viljum við búa í samfélagi þar sem aðeins þeir sterkustu lifa af? Af hverju skyldu öll lönd í kringum okkur fara leið sóttvarna og verja heilbrigðiskerfi sín? Eru engin mannréttindi þar á bæ – og þeir bara hreinir vitleysingar? Eða eiga þeir ekki varaþingmenn og fyrrverandi héraðsdómara eins og Arnar Þór Jónsson, sem sífellt beitir fyrir sig bulli og fer síðan í mál við fólk sem hefur heilbrigðari skynsemi en hann sjálfur. Allt til að skora pólitískar keilur að hætti Trump. Varasamur varaþingmaður það – sem greinilega hefur aðra hagsmuni í heiðri en heildarinnar,” segir Tómas.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt