fbpx
Miðvikudagur 26.janúar 2022
Fréttir

„Það sást í augum hennar að hún var logandi hrædd“ – Sonur konu sem lést á HSS skrifar opið bréf til stjórnenda Landspítalans

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 29. nóvember 2021 12:12

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Sjúkrahúsið í Keflavík. Mynd: Pjetur Sigurðsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hún starði stjörf út í loftið og það sást í augum hennar að hún var logandi hrædd. Hún var það dofin af lyfjunum sem Skúli lét hana innbyrða að hún gat ekki beðið um hjálp. Oft vissi hún ekki einu sinni hvar hún var stödd,“ segir Guðbjörn Dan Gunnarsson – Beggi Dan – í opnu bréfi til stjórnenda Landspítalans sem birtist á Vísir.is í dag.

Beggi er sonur konu sem Skúli Tómas Gunnlaugsson, fyrrverandi yfirlæknir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) er sagður hafa sett á lífslokameðferð að nauðsynjalausu. Börn konunnar kærðu málið til Landlæknis sem skilaði áliti sem er áfellisdómur yfir Skúla og HSS. Þar segir meðal annars:

„Það er álit landlæknis að viðbrögð HSS við upphaflegri kvörtun þar sem fram koma afar alvarlegar ávirðingar og spurningar um meint frávik og brot í veitingu
heilbrigðisþjónustu, séu með öllu ófullnægjandi og ámælisverð. Með þessu hafi viðkomandi stofnun, sem ábyrgð ber á að svara fram kominni kvörtun, sýnt bæði kvartanda og embætti landlæknis, sem er eftirlitsaðili með heilbrigðisþjónustu, óvirðingu.“

Landlæknir telur að mistök hafi átt sér stað á HSS í veitingu heilbrigðisþjónustu til konunnar:

„Landlæknir er sammála mati sérfróðs umsagnaraðila og álítur að um faglega vanrækslu og mistök hafi verið að ræða í veitingu heilbrigðisþjónustu til handa
DJ á HSS þar sem endurteknum, alvarlegum, bráðum sjúkdómseinkennum var ýmist gefinn enginn eða ófullnægjandi gaumur þegar hún kvartaði endurtekið til
HSS á síðustu árum ævinnar. Læknar HSS hafi ennfremur látið hjá líða að grípa til viðeigandi rannsókna og/eða leita samráðs við sérfræðinga utan
stofnunarinnar um greiningu á endurteknum og alvarlegum köstum.“

„Hún var einkennileg tilfinningin sem greip mig þegar ég uppgötvaði að þið hefðuð ráðið Skúla“

Skúli missti starfsleyfi sitt í kjölfar álits Landlæknis en fékk síðan takmarkað starfsleyfi í hálft ár og hefur starfað undir handleiðslu og eftirliti á Landspítala. Nýlega var takmarkað starfsleyfi hans endurnýjað til eins árs. Mál hans eru til rannsóknar hjá lögreglu og hafa aðstandendur sex sjúklinga fengið úthlutað þjónustu réttargæslumanns vegna rannsóknarinnar.

Í yfirlýsingu sem Landspítali birti á föstudag segir að Skúli sé í endurmenntunar- og þjálfunarferli á Landspítala:

„Landspítali hefur kynnt sér þær upplýsingar sem fram koma í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá því 4. nóvember og staðfestur var í Landsrétti nýlega. Spítalinn mun fylgjast með framvindu þessa máls, bæði hjá lögreglu og embætti landlæknis, og grípa til aðgerða um leið og tilefni er til. Embætti landlæknis veitti viðkomandi heilbrigðistarfsmanni endurnýjun á takmörkuðu lækningaleyfi í byrjun nóvember á þessu ári og gildir það til 12 mánaða. Á grundvelli hins takmarkað leyfis frá landlækni hefur umræddur læknir verið í endurmenntunar- og þjálfunarferli á Landspítala, undir handleiðslu og nánu eftirliti sérfræðinga spítalans í lyflækningum.“

Beggi Dan segir í grein sinni á Vísir.is:

„Hún var einkennileg tilfinningin sem greip mig þegar ég uppgötvaði að þið hefðuð ráðið Skúla, lækni sem grunaður er um alvarlega og refsiverða háttsemi gagnvart sjúklingum, í vinnu á sjúkrahúsinu ykkar. Þetta gerðuð þið þrátt fyrir rannsókn landlæknis og þá staðreynd að hann er með stöðu sakbornings í sakamálarannsókn þar sem meint fórnarlömb eru ellefu talsins, af þeim létu sex lífið.“

Beggi segist vilja fá að vita í hverju endurhæfing læknisins sé fólgin:

„Samkvæmt fyrrnefndri yfirlýsingu er Skúli í „endurhæfingu“. Ég vil gjarnan fá að vita í hverju sú endurhæfing er fólgin nákvæmlega og hvernig stendur á því að hann fær sérmeðferð hjá Landspítalanum. Mér þætti vænt um að fá svör við þessum spurningum sem fyrst.“

Beggi segir að móðir hans hafi liðið miklar þjáningar að ósekju á HSS og sjálf hafi hún enga hugmynd haft um þá ákvörðun læknisins að láta hana deyja:

„Síðustu vikurnar í lífi móður minnar voru henni hreinasta kvalræði. Sýkingar voru ekki meðhöndlaðar, ekki var haldið að henni vökva, alvarlegur bætiefnaskortur var virtur að vettugi auk þess sem risastór legusár sem gengu inn að beini fengu að grassera. Hún fékk drep í annað eyrað, hluti af því datt af. Í þau skipti sem hlúa átti að legusárunum þá fékk hún ekki deyfingu því Skúli hefur talið það óþarft að lina kvalir hennar, í það minnsta samþykkti hann ekki notkun deyfilyfja þegar kom að því að hreinsa sárin sem kvöldu hana svo sárt.“

Læknafélagið styður lækninn

Það kom fram í frétt Vísis þann 25. nóvember að Læknafélag Íslands styður Skúla Gunnlaug. Hins vegar sé sú óvissa sem fylgi langri málsmeðferð bagaleg fyrir alla aðila málsins. Félagið segist hafa fylgst með framgangi málsins og það styðji félagsmann sem tengist málinu eins og því beri. Málið sé í höndum þeirra yfirvalda sem eigi að annast það.

Samkvæmt þessari frétt Vísis hefur lögregla rökstuddan grun um að andlát sex sjúklinga Skúla Tómasar Gunnlaugssonar á HSS hafi borið að með ótímabærum og saknæmum hætti, en hann er talinn hafa skráð sjúklingana á lífslokameðferð að tilefnislausu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Lést vegna COVID á gjörgæslu

Lést vegna COVID á gjörgæslu
Fréttir
Í gær

Birta samskipti Einars við skjólstæðing SÁÁ sem var í vændi – „Sæl, býður þú upp á heimsóknir$“

Birta samskipti Einars við skjólstæðing SÁÁ sem var í vændi – „Sæl, býður þú upp á heimsóknir$“
Fréttir
Í gær

Þetta eru verstu fjárfestingar Reykjavíkurborgar að mati Kolbrúnar – „Ekki er að sjá að þessi rekstur gangi vel“

Þetta eru verstu fjárfestingar Reykjavíkurborgar að mati Kolbrúnar – „Ekki er að sjá að þessi rekstur gangi vel“
Fréttir
Í gær

Einar segir af sér sem formaður SÁÁ – „Fyrir nokkrum árum svaraði ég auglýsingu á netinu þar sem í boði var kynlíf gegn greiðslu“

Einar segir af sér sem formaður SÁÁ – „Fyrir nokkrum árum svaraði ég auglýsingu á netinu þar sem í boði var kynlíf gegn greiðslu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fingralangur gestur stal úlpu, bíllyklum og fartölvu

Fingralangur gestur stal úlpu, bíllyklum og fartölvu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ágústa Eva berst gegn Covid-bólusetningum barna – „Fólk er almennt ekki til í að útskúfanir og þvinganir og kúganir séu partur af þeirra tilveru“

Ágústa Eva berst gegn Covid-bólusetningum barna – „Fólk er almennt ekki til í að útskúfanir og þvinganir og kúganir séu partur af þeirra tilveru“