fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Ástin kviknaði á Tenerife en núna þarf Brynja að berjast við kerfið – „Ég get ekki einu sinni ferðast með barnið mitt“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 11. nóvember 2021 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrirsætan Brynja Norðfjörð hefur neyðst til þess að stefna barnsföður sínum fyrir dóm með kröfu um að hún fari ein með forsjá sonar þeirra sem fæddist á Tenerife árið 2019. Ekki hefur reynst unnt að skrá Brynju sem forsjáraðila drengsins vegna þess að í pappírum sem hún fékk frá sjúkrahúsinu á Tenerife þar sem hún fæddi drenginn koma aðeins fram nöfn foreldra hans en ekkert er tilgreint um forsjá. Af þeim sökum neitar Þjóðskrá Íslands að skrá Brynju sem forsjáraðila drengsins þó að hann hafi verið hjá henni frá fæðingu og hún hafi aldrei búið með föður hans, en ekki er vitað um heimilisfang föðurins á spænskri grundu.

„Þetta er rosalega erfitt mál, ég lendi í því að ég er á götunni þegar ég er ólétt af barninu mínu, pabbinn er frá Tenerife og hann biður mig um að koma þangað aftur og eiga barnið þar. En af því drengurinn fæddist þar þá er er ég ekki með forsjá yfir barninu,“ segir Brynja í samtali við DV.

Stefnan er birt í Lögbirtingablaðinu í dag. Þar kemur fram að Brynja krefst þess að henni verði einni falin forsjá drengsins auk þess sem krafist er meðlags og málskostnaðar frá hendi föðurins.

Brynja kynntist barnsföður sínum er hún var í fríi á Tenerife árið 2018. Þau voru í sambandi um tíma en aldrei í sambúð, hvað þá hjónabandi. Eins og Brynja greinir frá hér að framan féllst hún á að koma aftur út til Tenerife og fæða drenginn þar en sambandið gekk ekki upp og Brynja flutti aftur til Íslands.

Samkvæmt íslenskum lögum er móðir með forsjá hafi hún aldrei verið í sambúð né hjónabandi með barnsföðurnum en þrátt fyrir það neitar Þjóðskrá að skrá Brynju eina með forsjána. Lögmaður Brynju segir í stefnunni sem birtist í Lögbirtingablaðinu:

„Leitaði umsækjandi því til undirritaðs lögmanns, sem hafði fyrst samband við Þjóðskrá til að reyna að fá skráða forsjá móður því samkvæmt íslenskum lögum er móðir með forsjá hafi hún aldrei verið í sambúð né hjónabandi með föður en þrátt fyrir það neitar Þjóðskrá að skrá móður eina með forsjána eins og að framan greinir, sbr. dskj. 6, persónuvottorð og tölvupóstsamskipti við starfsmenn Þjóðskrár.

Stefnandi leitaði því til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu með kröfu um að hún færi ein með forsjá drengsins, sbr. dskj. 7. Eftir meðferð málsins hjá embættinu gaf Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu út vottorð um árangurslausa sáttatilraun og vísaði málinu frá, sbr. dskj. 8.
Stefnanda er því nauðsynlegt að höfða forsjármál þetta á hendur stefnda til að henni verði með dómi einni falin forsjá drengsins en eins og áður greinir er enginn skráður með forsjá drengsins hér á landi og er ekki hægt að una við slíka skráningu lengur.

Drengurinn hefur lögheimili hjá móður og er móður nauðsynlegt að hún sé skráð forsjárforeldri drengsins svo hún geti komið fram sem forsjáraðili barns síns.“

Getur ekki ferðast með barnið

„Ég get ekki einu sinni ferðast með barnið mitt af því hann er ekki með íslenskan passa,“ segir Brynja við DV og er afar ósátt við íslenska kerfið. Hún á tvo aðra syni og er sá elsti 12 ára.

Málið verður þingfest um miðjan desember í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ekki virðist líklegt að barnsfaðirinn mæti þar fyrir dóm en honum er birt fyrirkall um það í Lögbirtingablaðinu. Mæti hann ekki má búast við því að dómurinn uppfylli kröfu Brynju.

Brynja hefur átt nokkuð erfitt uppdráttar síðustu árin enda ekki auðvelt að vera ein með þrjá syni:

„Ég hef haft um 200 þúsund krónur á mánuði milli handanna í næstum tvö ár, þannig að þetta hefur verið rosalega erfiður tími.“ Lögmaður hennar er að sækja um gjafsókn fyrir hana svo hún geti haldið málarekstrinum gegn barnföðurnum til streitu.

„Ég trúi stundum ekki hvað er að gerast með landið okkar, maður er hálfdofinn yfir þessu,“ segir Brynja og er ósátt við kerfið.

„Eftir að ég lenti á götunni sótti ég um félagslegt húsnæði en ég var sett í svo litla íbúð í Breiðholtinu þar sem er ekki einu sinni pláss fyrir eldri strákana mína tvo að ég hef orðið að láta þá vera hjá fyrrverandi tengdaforeldrum mínum í Grafarholti,“ segir Brynja, en sem betur fer er hún í góðu sambandi við föður eldri drengjanna og fjölskyldu hans.

„Við vorum saman í 11 ár og drengjunum líður vel hjá tengdó en fjölskyldan er sundruð, það er vont að þeir geti ekki alist upp með litla bróður sínum. Þessi íbúð er svo lítil að hún er eins og íbúð sem par eða einstaklingur myndi búa í, en ekki fjögurra manna fjölskylda. En í Grafarholtinu eru strákarnir með herbergi og geta labbað í skólann, ég vil ekki róta þeim frá vinum sínum. Ég er búin að bíða í eitt og hálft ár eftir að fá milliflutning, það er verið að sundra fjölskyldunni,“ segir Brynja ósátt.

Hún segir ennfremur að meðlagsgreiðslur til hennar vegna drengsins hafi tafist um níu mánuði og þegar þær loksins hófust hafi hún aðeins fengið greitt eitt ár aftur í tímann þó að þau hafi í rauninni átt að vera tvö.

„Ég veit að það eru margar fleiri konur í svipuðum sporum og ég,“ segir Brynja sem nú bíður og vonar að hún fái brátt forsjá yfir drengnum sínum sem hún fæddi og hefur alið upp frá fæðingu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi