fbpx
Miðvikudagur 20.október 2021
Fréttir

Biður sjúklinga og aðstandendur afsökunar – „Við erum að sligast undan á­standinu“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Fimmtudaginn 14. október 2021 09:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorsteinn Jónsson, hjúkrunarfræðingur á Landspítala, segir heilbrigðisstarfsfólk hafa verið sett í vonlausa stöðu í áhrifaríkri grein sem birtist hjá Fréttablaðinu í dag. Þar biður hann sjúklinga og aðstandendur afsökunar á að ekki hafi verið hægt að veita þeim þá þjónustu sem þeir hefðu í eðlilegu árferði átt að fá. Skrift Þorsteins vekja umhugsun um stöðuna sem landsmönnum er í dag boðið upp á sjúkrahúsi allra Landsmanna og þá stöðu sem heilbrigðisstarfsfólk hefur um ekkert annað að velja en að reyna sitt besta til að láta ganga upp.

Biður afsökunar

„Vakt eftir vakt er það mín til­finning að ég nái ekki að sinna starfi mínu vel. Og nú er svo komið að mér líður þannig að mér finnst ég þurfa að biðja þá sjúk­linga sem ég annast af­sökunar á því að geta ekki veitt þeim nauð­syn­lega og mann­sæmandi hjúkrun,“ skrifar Þorsteinn. Og hann stendur við þessi orð.

„Mig langar að biðja aldraðan ein­stak­ling með slæma kvið­verki af­sökunar á að hafa ekki getað verkja­stillt hann al­menni­lega, vegna þess að sam­tímis kom inn sjúk­lingur með brjóst­verk sem þurfti tafar­lausa að­stoð. Mig langar að biðja alla þá sjúk­linga af­sökunar sem ég hef þurft að að­stoða við að af­klæðast á gangi deildarinnar, vegna þess að ekkert rúm­stæði var laust fyrir við­komandi.

Mig langar að biðja aldraðan, illa áttaðan sjúk­ling af­sökunar á því að hann þurfti að dvelja rúm­lega 40 klukku­stundir í glugga­lausu sjúkra­rými með 10 öðrum ein­stak­lingum á bráða­mót­tökunni, sökum þess að ekkert annað pláss var laust á legu­deildum spítalans.

Mig langar að biðja sjúk­linginn með háa hitann af­sökunar á því að hafa ekki haft tök á því að meta á­stand hans eins í­trekað og þurfti, vegna þess að aðrir fár­veikir og slasaðir sjúk­lingar í minni um­sjón þurftu á at­hygli og tíma mínum að halda.

Mig langar að biðja að­stand­endur sjúk­linga sem ég hef verið að annast af­sökunar á að hafa ekki haft tíma í að sinna þeim eins vel og þeir þurftu, oft á verstu og við­kvæmustu stundum lífs þeirra. Ég get því miður haldið lengi á­fram.“

Hafa flotið sofandi að feigðarósi

Þorsteinn segir að það sé búið að setja heilbrigðisstarfsfólk í vonlausa stöðu og þau séu látin bera of þungar byrðar. Í raun ætti Þorsteinn ekki að vera biðja afsökunar heldur stjórnvöld.

„Við erum að sligast undan á­standinu og kerfið okkar sömu­leiðis. Stjórn­völd verða að axla sína á­byrgð og það ætti að vera þeirra að biðjast af­sökunar á stöðunni og fyrir að hafa flotið sofandi að feigðar­ósi.“

Andlega úrvinda og líkamlega uppgefinn

Þorsteinn segir að við aðstæðurnar sem nú ríkja á Landspítala sé öryggi sjúklinga ógnað og það stefni í stórslys.

„Eftir hverja vakt geng ég út, and­lega úr­vinda og líkam­lega upp­gefinn – með það efst í huga hvort eitt­hvað hafi farið fram hjá mér eða ég misst ein­hverja bolta, og ég þakka fyrir að ekki hafi orðið stór­slys, því geta bráða­deildar til að takast á við slíkt undir þessum að­stæðum er afar tak­mörkuð, svo ekki sé fastar að orði kveðið.“

Nemendur með kulnunareinkenni

Þorsteinn kemur einnig að kennslu heilbrigðisvísindanema í klínísku starfi og kennir við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

„Margar vaktir horfi ég í brostin augu nem­enda, sumir grátandi og and­lega úr­vinda, vegna þess að verk­efnin sem þeim er ætlað að sinna, eru þeim of­viða. Það getur ekki talist eðli­legt að nem­endur sem eru að stíga sín fyrstu skref í klínísku starfi sýni kulnunar­ein­kenni áður en þau út­skrifast, það er þau sem á annað borð halda á­fram námi.“

Bregðast þarf við án tafar

Þorsteinn segir að nú hafi stjórnvöld niðurlægt hjúkrunarfræðinga tvisvar í kjarabaráttu til dæmis með lagasetningu á verkföll. Landspítalinn sé ekki fýsilegur vinnustaður fyrir nýútskrifaða hjúkrunarfræðinga og það spili stórt hlutverk í stöðunni.

„Með þessum skrifum vonast ég til að leggja lóð á vogar­skálarnar í um­ræðunni og taka undir með sam­starfs­fólki mínu sem þegar hefur tjáð sig, í þeirri ein­lægu von að stjórn­völd átti sig á þeim al­var­legu að­stæðum sem þau hafa leyft að raun­gerast.

Það þarf að bregðast við án tafar, en ekki með fleiri skýrslum eða nefndum, og ekki fresta að­gerðum með því að skýla sér á bak við hugsan­leg ráð­herra­skipti eða benda enn og aftur á stjórn­endur Land­spítala. Ríkis­stjórnin þarf að gera upp við sig hvernig Land­spítala við sem þjóð viljum eiga.

Viljum við fjár­sveltan spítala sem getur ekki sinnt hlut­verki sínu, þar sem á­standið minnir meira á sjúkra­stofnun í stríðs­hrjáðu landi? Eða viljum við vera stolt af þjóðar­sjúkra­húsinu okkar, þar sem mann­leg reisn og öryggi sjúk­linga er tryggt? Þá þarf að grípa til að­gerða strax.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Lilja Pálma gerir upp kirkjuna sína – Orðin 150 ára gömul

Lilja Pálma gerir upp kirkjuna sína – Orðin 150 ára gömul
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Svona eru afléttingarnar á sóttvarnatakmörkunum

Svona eru afléttingarnar á sóttvarnatakmörkunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Átök bak við tjöldin um eignarhald á podcast þáttum Sölva Tryggva – Bað sjálfur um að efnið yrði fjarlægt

Orðið á götunni: Átök bak við tjöldin um eignarhald á podcast þáttum Sölva Tryggva – Bað sjálfur um að efnið yrði fjarlægt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Eyþór tók af allan vafa í Silfrinu – Mun gefa kost á sér áfram

Eyþór tók af allan vafa í Silfrinu – Mun gefa kost á sér áfram