Þriðjudagur 02.mars 2021
Fréttir

Eyþór skrifar um kynni sín af útgerð í Namibíu – „Aðbúnaðurinn var slíkur að manni taldist fólki vart bjóðandi“

Máni Snær Þorláksson
Miðvikudaginn 27. janúar 2021 11:00

Mynd: Auðunn Níelsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Fyrir nokkrum árum vann ég í fyrirtæki sem þróaði lausnir til bættrar orkunýtingu fyrir stórnotendur, bæði til sjós og lands, þar sem helstu viðskiptavinirnir voru útvegsfyrirtæki. Stærstur hluti vinnu minnar sneri að markaðsmálum sem kallaði á mikil ferðalög um heiminn. Í þessu starfi hitti maður gjarnan fólk í framlínu sjávarútvegs, bæði á fundum og eins á sjávarútvegssýningum. Sem Íslendingur getur maður borið höfuðið hátt á slíkum viðburðum enda erum við þekkt fyrir að umgangast ríka auðlind okkar af virðingu.“

Svona hefst pistill sem Eyþór Eðvarðsson, sölu- og markaðsmálamaður, skrifar en pistillinn birtist á Vísi í dag. Eyþór segist ekki hafa verið búinn að fara víða þegar hann áttaði sig á umfangi Samherja á alþjóðvettvangi. Enda eru félög tengd Samherja hluthafar í mörgum stórfyrirtækjum leiðandi þjóða í sjávarútvegi. Þegar maður stígur inn í þetta umhverfi á alþjóðavísu þá verður maður fljótt áskynja hvað orðspor Samherja er gott erlendis,“ segir hann.

„Hvar sem ég kom var ég aldrei var við annað en jákvæðni í garð þessa stærsta útvegsfyrirtækis Íslands. Samherjamenn eru þekktir fyrir gríðarlegan metnað og atorku, gera kröfur um bestu skipa- og tækjakosti og góðan aðbúnað. Gera vel við sitt fólk. Aðkoma slíkra manna að stjórn og hlutdeild í rekstri telst mikill styrkur fyrir þau fyrirtæki sem þeir koma að. Grunnurinn og fordæmin eru hér heima enda hafa fá útgerðarfyrirtæki hér á landi endurnýjað fiskiskipaflotann jafn ört og Samherji. Þá er nýtt hátæknivinnsluhús á Dalvík talið hið fullkomnasta í heiminum.“

Fór í vinnuferð til Namibíu

Fyrir nokkrum árum fór Eyþór í vinnuferð til Namibíu og fékk þá fyrstu kynni sín af namibískum sjávarútvegi þar sem hann kom að rannsóknarvinnu á nokkrum skipum þar. Eyþór segir frá tveimur skipum, annað var í eigu útgerðarfélags sem sett var á laggirnar í samvinnu Namibíu við ríki fyrrum Sovétríkjanna. „Það er ekki ofsagt að maður hafi fengið hálfgert áfall við að koma um borð í skipið, slík var umgengnin og almennu viðhaldi var mjög ábótavant. Aðbúnaðurinn var slíkur að manni taldist fólki vart bjóðandi,“ segir Eyþór um skipið.

„Við komuna í vélarrúmið var aðstaðan eins og eitthvað frá fyrri hluta síðustu aldar, frágangurinn lélegur, öll tæki upprunaleg og virtust ekkert hafa verið endurnýjuð. Við nánari athugun kom í ljós að útgerðarkostnaður skipsins var langt yfir því sem hann þyrfti að vera vegna gamalla tækja og lélegs viðhalds. Þegar kynntar voru lausnir til úrbóta fengust þau svör að ekki væru til fjármunir til að ráðast í þær.“

Eftir að hafa skoðað þetta skip fór hann í hitt skipið en það var einmitt í eigu félags sem tengdist Samherja. „Ég man hvað ég fylltist miklu stolti er ég kom um borð. Allir gangar voru flísa- eða parketlagðir, skipið var tandurhreint hátt og lágt og vistarverur skipverja búnar fallegum húsgögnum. Samanburðurinn var sérstaklega sláandi þegar komið var niður í vélarrúmið sem var allt nýmálað og hreint. Aðstaða vélstjóranna var stórglæsileg og búin allra nýjustu tækni,“ segir Eyþór.

„Eftir þessa heimsókn um borð í skipin lék mér forvitni á að vita meira. Þarlendir sjómenn sögðu mér að það þætti mjög eftirsóknarvert að starfa fyrir útgerðir sem tengdust Samherja. Menn upplifðu sig sem jafningja um borð, þar væri góður starfsandi og aðstaðan á skipunum væri til fyrirmyndar auk þess sem menn væru ráðnir upp á hlut. Hámarksafli auk hámarksgæða tryggja þar betri afkomu manna.“

„Það er eðlilegast að spyrja að leikslokum“

Samherji hvarf þó á brott frá Namibíu eftir umfjöllun fjölmiðla um mútugreiðslur Samherja til valdamikilla einstaklinga í Namibíu. Eyþór segir að brotthvarf Samherja hafi ekki haft jákvæð áhrif á sjávarútveginn þar í landi.

„Enda var nýlegt uppboð á aflaheimildum í hrossamakríl, sem áður var úthlutað til félaga sem tengjast Samherja, algjörlega misheppnað. Í The Namibian, sem er útbreiddasta dagblað Namibíu, var sagt frá þessu með fyrirsögninni: „Uppboðið endar með tárum.“ Í umfjöllun blaðsins kom fram að aðeins hafi tekist að koma 1,3% af kvótanum út. Þá kom þar fram að talið sé að namibísk stjórnvöld hafi orðið af jafnvirði 6 milljarða króna af þessum sökum en tjón namibíska hagkerfisins geti numið um 25 milljörðum króna.“

Eyþór segir þá að félög sem tengd voru Samherja hafi skilið eftir mikil verðmæti í hagkerfi Namibíu auk þess sem þau hafi skapað mikinn fjölda af störfum. „Þar í landi er nú rekið sakamál þar sem nokkrir þarlendir ríkisborgarar eru sakaðir um að hafa með ólögmætum hætti tekið við fjármunum sem voru greiddir fyrir nýtingu aflaheimilda. Það er eðlilegast að spyrja að leikslokum þegar það mál er annars vegar. En í millitíðinni er kannski mikilvægt að fjalla aðeins meira um það hvernig þessari útgerð var háttað í raun og hverjir nutu góðs af þátttöku Íslendinga í namibískum sjávarútvegi,“ segir hann.

„Ég hef ekki verið til sjós hjá þeim“

Að lokum tekur Eyþór fram að honum hafi ekki tekist að selja Samherjamönnum þær lausnir sem hann var að selja á sínum tíma. „Ég hef ekki verið til sjós hjá þeim og þá þekki ég eigendur fyrirtækisins ekkert. Hins vegar rifja ég reglulega upp áðurnefnda heimsókn mína til Walvis Bay þegar ég fylgist með fréttum hér heima um útgerðina í Namibíu og velti fyrir mér hvort menn nái ekki að stokka spil sín upp á nýtt svo úr verði farsælt samstarf til framtíðar,“ segir hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Segir að kanna þurfi möguleika á gosi

Segir að kanna þurfi möguleika á gosi
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Steypusprungan lengist á meðan skjálftarnir ganga yfir

Steypusprungan lengist á meðan skjálftarnir ganga yfir
Fréttir
Í gær

Jón Ívar vill breytingu á bólusetningum til að flýta endalokum heimsfaraldursins

Jón Ívar vill breytingu á bólusetningum til að flýta endalokum heimsfaraldursins
Fréttir
Í gær

Icelandair vill að framlínustarfsfólk í flugi njóti forgangs í bólusetningu

Icelandair vill að framlínustarfsfólk í flugi njóti forgangs í bólusetningu
Fréttir
Í gær

Hefndi sín duglega á Tinder „matchinu“ – Bauð eiginkonu hans með á stefnumótið

Hefndi sín duglega á Tinder „matchinu“ – Bauð eiginkonu hans með á stefnumótið
Fréttir
Í gær

2 ára fangelsi fyrir nauðgun á hóteli varð að sýknu – Sagði manninn „margoft“ hafa haft samfarir við sig sofandi

2 ára fangelsi fyrir nauðgun á hóteli varð að sýknu – Sagði manninn „margoft“ hafa haft samfarir við sig sofandi