fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Diljá um heiðurstengda ofbeldið – „Ekkert annað en yfirlæti eða mannfyrirlitning“

Máni Snær Þorláksson
Miðvikudaginn 27. janúar 2021 10:03

Mynd í bakgrunni: Getty, Mynd af Diljá: Stjórnarráðið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tvö ár eru síðan lögreglan á Íslandi rannsakaði í fyrsta skipti mál þar sem grunur lék á að um heiðurstengt ofbeldi væri að ræða. Ísland er mikill eftirbátur annarra Norðurlanda þegar kemur að stefnumótun og fræðslu um heiðurstengt ofbeldi.

Heiðurstengt ofbeldi er líkamlegt, andlegt og/eða félagslegt ofbeldi sem framið er í kjölfar þess að gerandi ofbeldis telur að þolandi þess hafi vegið að heiðri og orðspori hans eða fjölskyldu hans á einhvern hátt og þar með fært skömm yfir hann og fjölskyldu hans. DV birti á dögunum ítarlega umfjöllun um málið á Íslandi en þar kom meðal annars fram að sex mál hefðu komið inn á borð lögreglu á undanförnum tveimur árum þar sem grunur hefur leikið á að um heiðurstengt ofbeldi sé að ræða.

Lesa meira: Heiðurstengt ofbeldi á Íslandi – „Allir sem unnu að málinu voru hræddir um líf hennar“

Diljá Mist Einarsdóttir, hæstaréttarlögmaður og aðstoðarmaður utanríkisráðherra, hefur áhyggjur af málinu. Diljá greindi frá áhyggjum sínum í skoðanapistli sem birtist á Vísi í dag en þar vitnaði hún í umfjöllun DV um málið. „Á Íslandi búum við við þau forréttindi að staða mannréttinda er góð í alþjóðlegum samanburði. Það á við um flest ríki í hinum vestræna heimi, þótt sums staðar hafi nýlega orðið bakslag,“ segir Diljá í pistlinum.

„Í þessum ríkjum höfum við fest í sessi grunngildi og mannréttindi eins og frelsi, jafnrétti og virðingu fyrir náunganum. Það eigum við að þakka langri og strangri baráttu þeirra sem ruddu brautina fyrir okkur. Hins vegar er hætt við að við sofnum á verðinum þegar þar er komið; að við verðum of værukær og tökum þessum mikilsverðu réttindum okkar sem sjálfsögðum.“

„Slíkt ofbeldi er nú orðið vel þekkt“

Diljá segir að heiðurstengt ofbeldi tíðkist í samfélögum þar sem feðraveldi ríkir og réttindi kvenna séu takmörkuð. Þá bendir hún á að í kringum 5 þúsund konur eru fórnarlömb heiðursmorða á hverju ári. „Í þessum samfélögum er við lýði sú skaðlega menningarhefð að það sé hlutverk karlmanna að vernda „hreinleika“ og ímynd kvenna í fjölskyldunni. Þær kröfur eru sjaldnast meitlaðar í stein heldur byggja á tilfinningum og skynjun karlmannanna,“ segir hún.

„Þessi hefð er ekki bundin við ákveðinn heimshluta þótt hún sé útbreiddust í Miðausturlöndum og Suður-Asíu. Slíkt ofbeldi er nú orðið vel þekkt til að mynda í Bretlandi og á Norðurlöndunum þangað sem innflytjendur hafa borið hefðirnar með sér. Í fyrrgreindri umfjöllun kemur fram að ofbeldið hér sé síður en svo bundið við fólk sem er nýkomið hingað frá öðrum menningarheimum heldur nægi að sterk tengsl séu við upprunalandið. Héðan þekkjum við allflest eldri landsþekkt dæmi um slíkt.“

Að lokum segir Diljá að umfjöllun DV um málið sé brýn og þörf áminning. „Hér eiga allir að fá sömu skilaboðin um að kynbundið ofbeldi sé ekki liðið. Við höfum haft mikið fyrir að komast á þann stað að mannréttindi séu talin algild og ófrávíkjanleg. Við megum aldrei gefa afslátt af þeim, síst í nafni umburðarlyndis. Enda ekkert umburðarlyndi í því fólgið að umbera kúgun og afbrot gegn öðrum. Þvert á móti. Slíkt „umburðarlyndi“ er þegar betur er að gáð ekkert annað en yfirlæti eða mannfyrirlitning.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu