fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Sakar Bláa herinn um að eigna sér heiður af verkum annarra – „Fólk er hreinlega hneykslað á fjaðrastuldi Tómasar Knútssonar“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 18. september 2021 10:00

Kristján Hreinsson (t.v.) og Tómas J Knútsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tómas J. Knútsson, stofnandi og eigandi umhverfisverndarsamtakanna Blái herinn, er sakaður um að eigna sér heiðurinn af hreinsunarstarfi sem samtökin Ocean Missions og Veraldarvinir önnuðust á strandlengjunni í Langanesbyggð, á norðausturhorni landsins, í sumar.

Tilefni óánægjunnar er umfjöllun sem birtist í Bændablaðinu, í tölublaði sem kom út 26. ágúst. Á forsíðu blaðsins hafa stillt sé upp fyrir ljósmynd sjálfboðaliðar Ocean Missions og Veraldarvina sem önnuðust hreinsunina en í myndatexta er Blái herinn skrifaður fyrir verkinu:

„Blái herinn hefur á undanförnum árum farið eins og hvítur stormsveipur um fjörur landsins undir dyggri stjórn Tómasar Knútssonar. Nýverið fór hann ásamt vöskum hópi 22 sjálfboðaliða sem tóku sig til við að hreinsa strandlengjuna í Langanesbyggð. Afrakstur þessa mikilvæga hreinsunarstarfs skilaði um fjórum tonnum af rusli af ýmsum toga. Töluvert bar á veiðarfærum og plasti eins og brúsum, flöskum og forhlöðum, en inn á milli mátti finna fatnað ásamt glundri í glerflöskum. Hér eru liðsmenn Bláa hersins með hluta af trolli sem farið hefur í hafið af einhverju aflaskipinu. Þó svo að 4 tonn liggi í valnum eftir hreinsunina er enn ógrynni eftir af drasli í fjörum við Langanes að sögn Tómasar.“

Inni í blaðinu (bls. 10) er viðtal við Tómas þar sem hann segir frá verkefninu og sumir skilja greinina þannig að hann hafi haft veg og vanda af því.

Blái hermaðurinn

Mánudaginn 13. september birtist í Fréttablaðinu afar harðorð grein eftir Kristján Hreinsson skáld þar sem hann sakar Tómas um að skreyta sig með stolnum fjöðrum. Greinin ber yfirskriftina „Blái hermaðurinn“ og hefst á þessum orðum:

„Víst gerist það alltaf annað slagið að menn skreyta sig stolnum fjöðrum. En nýverið mátti sjá í Bændablaðinu eitt svæsnasta dæmi um fjaðrastuld sem sögur fara af. Þarna stekkur fram blár hermaður og hreykir sér af verkum sem hann kom hvergi nálægt. Hér vil ég benda á þá bláköldu staðreynd að það hljóta að teljast einstaklega lúaleg vinnubrögð þegar einstaklingur fullyrðir að hann hafi unnið verk sem hann sannarlega vann ekki. Að stela heiðri er ein leið og að rjúka með eigið ágæti í blöðin er önnur leið. Þriðja leiðin er síðan að rjúka í blöðin með lygavef um eigið ágæti.“

Kristján segir þó ekki við Bændablaðið að sakast en Tómas hafi þarna eignað sér heiður sem öðrum ber. Hann fer síðan yfir meintar rangfærslur í greininni í Bændablaðinu og sakar Tómas um lygi:

„Hér segir að Blái herinn hafi komið til starfa ásamt 22 sjálfboðaliðum. Og hér er gefið í skyn að Blái herinn hafi verið þarna í fullum skrúða. Þetta er langt frá sannleikanum. Sannleikurinn er sá að þarna var aldrei neinn blár her. Þarna kíkti Tómas Knútsson við, tók nokkrar myndir og gekk um svæðið. Bein þátttaka Bláa hersins var engin. Svo er sagt að um „samstarfsverkefni Langanesbyggðar og umhverfissamtakanna Ocean Missions auk Veraldarvina og Bláa hersins“ hafi verið að ræða. Þetta er hrein og klár lygi. Hið sanna er að Blái herinn tók engan þátt í að skipuleggja verkefnið. Enda opinberast lygin í orðunum: „Tómas var óvænt staddur í nærliggjandi sveitarfélagi þegar hreinsun fór fram. Hann dreif sig milli fjarða til að taka þátt.“ Var hann óvænt staddur í námunda við verkefni sem hann skipulagði sjálfur? Öðrum en inngrónum loddurum er ekki fært að spinna slíkan lygavef um eigið ágæti. Grátlegast af öllu er að hér stekkur fram maður í fullum herklæðum og tekur að sér að vera talsmaður fyrir verkefni sem hann á enga aðild að. Hann lýsir fjálglega aðkomu Bláa hersins að hreinsun strandlengju á Langanesi. Hið merkilega er að vitni hafa staðfest að hann tók ekki þátt í hreinsuninni, mætti bara á staðinn, tók sjálfsmyndir og fór. Hann bað síðan um viðtal hjá Bændablaðinu, þar sem hann lýsir aðkomu Bláa hersins að hreinsunarstarfinu. Þarna var aldrei neinn blár her, einungis blár hermaður sem skreytir sig með stolnum fjöðrum.“

„Hér er sagt að „liðsmenn Bláa hersins“ hafi verið við hreinsunarstarf á Langanesi. Hér er látið að því liggja að á myndinni sé að finna „liðsmenn Bláa hersins“ við störf á Langanesi. En hið sanna er að enginn liðsmaður þessa Bláa hers tók þátt í hreinsuninni. Enginn liðsmaður Bláa hersins sást tína rusl úr fjörunni við Langanes. Einn fótgönguliði vappaði um svæðið part úr degi, sagði sögur af afrekum sínum, tók nokkrar myndir og fór með stolnar fjaðrir á forsíðu Bændablaðsins.“

Kristján segist hafa rætt við fólk sem tók þátt í að skipuleggja fjöruhreinsunina og fólk sem tók þátt í vinnunni og segir það vera hneykslað á framgöngu Tómasar í Bændablaðinu. Kristján segist stundum sjálfur taka þátt í sjálfboðaliðastarfi af þessu tagi og hann þekki vel til margra samtaka sem vinni að hreinsun strandlengjunnar. Meðal þess fólks sé „fáheyrt að menn séu að lofa eigin verk að óþörfu. Þó eru til undantekningar frá þeirri meginreglu.“

Kristján segir ennfremur í niðurlagi sinnar harðorðu greinar:

„Ef takandi er mark á aðferðafræðinni sem leynist í skrautsýningu hinna stolnu fjaðra í Bændablaðinu, þá má með sanni segja að Blái herinn sé eins manns her sem lifir og hrærist í sýndarveruleika og blekkingu. Þessi her hefur fengið hauga af styrkjum og víst má finna slóð af sjálfshóli þar sem ólík verk eru lofuð af hinum bláa hermanni. Ef aðkomulýsing Bláa hersins að hreinsuninni á Langanesi er skýrt dæmi um vinnuaðferðir Tómasar Knútssonar, þá má ætla að ekki sé mikið að marka þau orð sem hann hefur skreytt sig með í áranna rás.“

Ólík lýsing fyrir og eftir verkefnið

DV hafði samband við Belen Garcia Ovide, spænska konu, sem býr á Húsavík og er framkvæmdastjóri samtakanna Ocean Missions. Belen staðfestir í samtali við DV að Ocean Missions hafi séð um hreinsunina á Langanesi í samvinnu við sjálfboðaliða frá Veraldarvinum. Hún vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Athygli vekur að ólíkar lýsingar á verkefninu er að finna í fréttatilkynningum á vef Langanesbyggðar. Í frétt sem birt var áður en verkefnið var unnið segir:

„Dagana 13.-14. ágúst munu umhverfissamtökin Oceanmission auk nokkurra sjálfboðaliða frá World wide friends ganga og hreinsa valdar strandlengjur í Langanesbyggð í samvinnu við sveitafélagið. Markmið samtakanna er að fræða almenning um ástand hafsins og þær áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir auk þess að hvetja fólk til aðgerða gegn hnignun hafsins.“

Í tilkynningu sem birtist á sama vef skömmu eftir verkefnið er Blái herinn hins vegar dreginn inn í málið þó að ekki sé hægt að segja honum sé eignaður heiðurinn einum, en í fréttinni segir:

„Dagana 13.-15. ágúst vann hópur 22 vaskra sjálfboðaliða að hreinsun strandlengjunnar í Langanesbyggð.

„Hafist var handa við fuglaskoðunarskýlið hjá Ytra-Lóni og unnust um 2 km norður nesið.Ruslið, eða hráefnið eftir hvernig á er litið, var að ýmsum toga en töluvert bar á veiðarfærum og plastrusli líkt og brúsum, flöskum og forhlöðum en inn á milli mátti finna fatnað og glundur í glerflöskum. Alls fylltust 12 áburðarsekkir af plasti auk nokkurra hrúga af því sem þótti ekki við hæfi að sóa sekkjum undir. Áætlað magn er um 4 tonn.

Að sögn Tómasar sem oftast er kenndur við Bláa herinn er af nógu að taka á Langanesinu en hann fór í óformlega vettvangsferð um svæðið með dróna og mat sem svo að rík þörf væri á hreinsun strandlengjunnar hér á svæðinu því hér ræki augljóslega mikið á land.

Verkefni var samstarfsverkefni Langanesbyggðar og umhverfisverndar samtakanna Ocean Missions auk Veraldarvina og Bláa hersins sem bættist óvænt við en hershöfðinginn var fyrir tilviljun staddur í nærliggjandi sveitarfélagi og dreif sig á milli fjarða þegar hann heyrði hvað stæði til. Blái herinn hefur unnið að hreinsun strandlengjunnar við Ísland í 25 ár.“

Tjáir sig ekki

DV hafði samband við Tómas J Knútsson og vakti athygli hans á skrifum Kristjáns. Hvorki hann né stjórn Bláa hersins vilja tjá sig um málið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Í gær

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fjallar um fordóma gegn Baldri – „Hafa litlu mennirnir fengið háværari rödd?“

Fjallar um fordóma gegn Baldri – „Hafa litlu mennirnir fengið háværari rödd?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk