fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Unnusta byssumannsins á Egilsstöðum stígur fram – „Hann er svo blíður og nærgætinn“

Erla Hlynsdóttir
Þriðjudaginn 31. ágúst 2021 19:30

Samsett mynd

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er auðvitað bara harmleikur og ekkert annað,“ segir unnusta manns sem var skotinn af lögreglu á Egilsstöðum á fimmtudagskvöld eftir að hann gekk berserksgang með skotvopn. Maðurinn hefur verið úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald. Hann er  útskrifaður af gjörgæsludeild og liggur nú á almennri deild þar sem hann sætir gæslu.

„Ég vil varpa ljósi á að þetta var ekki hann. Þetta er ekki hans persónuleiki. Ég vil varpa ljósi á hvernig hans persónuleiki hann er dags daglega. Hann er ekki svona,“ segir konan.

Hún segir að líklega hafi unnusti hennar verið í geðrofi þegar atburðirnir áttu sér stað, en hún vill ekki ræða þá sérstaklega. „Ég vil ekki ræða atvikið sem slíkt. Það er í höndum fagaðila. Ég vil bara tala fallega um hann og fjölskyldu hans. Ekkert annað.“

Hálft annað ár er síðan þau kynntust. Konan á tvo syni, tólf og fjórtán ára, með fyrrverandi eiginmanni sem einnig er búsettur á Egilsstöðum.

„Afskaplega ljúfur maður“

Hún segir unnusta sinn vera góðan mann þrátt fyrir það sem átti sér stað á fimmtudag. „Þetta atvik skilgreinir hann ekki sem einstakling. Hann kom mér strax fyrir sjónir sem afskaplega ljúfur maður. Ég varð strax ofsalega hrifin af honum. Hann er svo blíður og nærgætinn, týpa sem talar um tilfinningar sínar og átti auðvelt með það – allavega við mig. Við vorum dugleg að hlúa að hvort öðru. Ég hef gengið í gegn um erfiðleika og hann hefur alltaf staðið eins og klettur við hliðina á mér. Honum var svo annt um mig. Það hefur aldrei verið neitt nema ást og kærleikur okkar á milli. Hann hefur látið mér líða eins og prinsessu.“

Konan segist bæði döpur og dofin að vita af honum í gæsluvarðhaldi í Reykjavík.

Mikil samkennd fyrir austan

„Ég er búin að missa manninn minn sem ég elska út af lífinu, ég er búið að missa öryggið mitt, ég er búin að missa framtíð mína með honum. Húsnæðið mitt. Það er allt farið. Ég er ofboðslega brotin. Það er búið að kippa undan mér fótunum í orðsins fyllstu merkingu. Líf mitt er algjörlega hrunið. En ég á fjölskyldu, ég hef vinnuna mína, ég hef drengina mína og við fyrrverandi maðurinn minn erum mjög góðir vinir. Ég hef fengið gríðarlegan stuðning í samfélaginu hér fyrir austan. Ég er líklega með tvö hundruð skilaboð frá fólki hér á Egilsstöðum. Samkenndin hér er ótrúlega. Ég hef ekki farið mikið út, hef frekar sent fjölskylduna mína en ég þurfti að fara í apótek um daginn og mætti bara mikilli hlýju.“

Mætti góðvild frá fjölskyldu hans

Þá segist hún aldrei hafa mætt öðru en góðvild og umhyggju af hálfu fjölskyldu hans. „Þau eru afskaplega gott fólk og þau tóku mér vel. Mér hefur alltaf fundist þægilegt að vera í þeirra návist. Þau eru að ganga í gegn um mikinn harmleik.“

Rannsókn lögreglu vegna atviksins á fimmtudag er afar umfangsmikil og snýr meðal annars að tilraun til manndráps, broti á valdstjórninni, vopnalagabrotum, hótunum og brotum á barnaverndarlögum. Þá er beiting skotvopns af hálfu lögreglu gegn sakborningi einnig til rannsóknar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni