fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Nærmynd: Hver er þessi Hanna Björg Vilhjálmsdóttir?

Erla Hlynsdóttir
Mánudaginn 30. ágúst 2021 13:35

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir hefur vakið mikla athygli að undanförnu vegna beittrar gagnrýni sinnar á forystu KSÍ í tengslum við kynferðisbrotamál sem þögguð voru niður. 

Þetta eru hins vegar langt í frá fyrstu skref hennar í þágu jafnréttisbaráttunnar og verður hér stiklað á stóru í sögu hennar og baráttu.

Hanna Björg útskrifaðist með MA gráðu í kennslufræðum frá Háskóla Íslands árið 2006 og réði sig þá til starfa hjá Borgarholtsskóla, þar sem hún starfar enn. Hún komst að því að enginn framhaldsskóli bauð upp á áfanga í jafnréttisfræðslu, þrátt fyrir að samkvæmt jafnréttislögum skyldi slík fræðsla fara fram á öllum skólastigum.

Frumkvöðull í kynjafræðikennslu

Hanna Björg hafði því frumkvæði að því að þróa áfanga í kynjafræði og var Borgarholtsskóli fyrsti framhaldsskólinn til að bjóða upp á slíkan valáfanga. Kynjafræði er nú víða kennd í framhaldsskólum en frá og með síðustu áramótum er áfanginn skylduáfangi fyrir alla nemendur Borgarholtsskóla.

Í lýsingu á áfanganum segir:

„Kynja- jafnréttis- og hinseginfræðsla. Birtingarmyndir kynjaskekkjunnar, hugtök kynja- og hinseginfræða skoðuð, greind og ígrunduð. Nemendur eru hvattir til að rýna í umhverfi sitt og menningu með kynjagleraugum, verða meðvituð um kynjakerfið, orsakir þess og afleiðingar. Lýðræðisleg nálgun er mikilvæg í áfanganum og umræður nemenda eru rauður þráður í náminu. Námsmat er fjölbreytt og áhersla er á alla grunnþætti menntunar, en þó sér í lagi grunnþáttinn jafnrétti.“

Klámvæðing og óraunhæfar útlitskröfur

Hanna Björg situr í stjórn Félags framhaldsskólakennara, hún situr í jafnréttisnefnd Kennarasambands Íslands  og er forkona nefndarinnar.

Hún átti sæti í stjórn UN Women á Íslandi, þar af varaformaður síðasta árið.

2012 hlaut Hanna Björg viðurkenningu frá Stígamótum fyrir starf í þágu jafnréttismála og baráttu gegn kynbundnu ofbeldi.

Hún hefur komið fram á fjölda ráðstefna og viðburða í gegn um árin og rætt jafnréttismál. Til að mynda hélt hún ræðu á Nordisk Forum í Svíþjóð 2014, stærstu jafnréttisráðstefnu Norðurlanda. Þar ræddi hún meðal annars þá afturför sem hafi orðið í baráttunni sem birtist ekki síst í gegndarlausri klámvæðingu sem smitist út í allt samfélagið, sem og óraunhæfar útlitskröfur til stúlkna.

Hafnaði fegrunaraðgerð eftir brjóstakrabbamein

Vorið 2019 fékk Hanna Björt eitt af sínum stærstu verkefnum – þegar hún greindist með krabbamein í brjósti sem hafði dreift sér út í þrjá eitla. Hún sagði frá þessari reynslu í samtali við Sindra Sindrason í þættinum Ísland í dag þá um haustið.

Hún þurfti að fara í fleygskurð, sem þýðir að hluti af brjóstinu var tekið. Í viðtalinu sagði hún að skurðlæknirinn hafi spurt hvort hún vildi í leiðinni láta minnka brjóstin og lyfta þeim til að þau myndu samsvara sér betur. Þrátt fyrir að hafa verið ánægð með lækninn varð hún þarna hugsi því þetta gekk í raun gegn hennar lífsspeki.

„Mér hefur fundist það neikvæð þróun að konur leggist undir hnífinn til að stækka á sér brjóstin eða lyfta þeim til þess að fegra þau. Ég ákvað að krukka ekkert meira í þessu en nauðsyn væri á en ég verð að ítreka að ég skil konur mjög vel sem fara þessa leið. Það sem ég gagnrýni er sú pressa sem konur eru í að vera með einhver fullkomin brjóst. Það er búið að ákveða einhvern veginn hvað fullkomin brjóst eru sem er pínu klámvætt. Ef það verður eitthvað krumpað, þá ætla ég að bera það með reisn,“ sagði hún í viðtalinu.

Áskorun vegna áskana á hendur formanni KÍ

Á þingi Kennarasambands Íslands árið 2018 var lögð fram áskorun nokkurra kvenna til Ragnars Þórs Péturssonar um að taka ekki við formennsku í félaginu, og fá leita þess í stað eftir að fá endurnýjað umboð kennara til að leiða sambandið, vegna ítrekaðra ásaka á hendur honum sem fram komu eftir að hann var kjörinn formaður KÍ.

Hanna Björg fór fyrir þessum hópi kvenna og sagði hún í samtali við mbl.is vegna áskorunarinnar: „Hún er í anda #MeT­oo, hún er í anda #kon­urtala, hún er í anda #höf­um­hátt og hún er kurt­eis­leg mót­mæli við þögg­un,“ seg­ir Hanna Björg og bæt­ir því við að í áskor­un­inni fel­ist stöðutaka með brotaþolum, meintum eða ekki.“

Áskoruninni var vísað frá án þess að afstaða væri tekin til hennar.

Á lista Kvennahreyfingarinnnar

Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2018 skipaði hún fjórða sæti á lista Kvennahreyfingarinnar. Í stefnuyfirlýsingu frá framboðinu sagði að samfélagsbyltingar á borð við #metoo, #höfumhátt og #karlmennskan hafi sýnt að knýjandi þörf sé á að umturna íslenskri samfélagsgerð.

„Það þarf að taka utan um þolendur og veita þeim skjól, bæði tilfinningalegt og veraldlegt. Það þarf að tryggja það að konur geti lifað af laununum sínum og séu þannig engum háðar um grundvallarlífsgæði. Það þarf að tryggja það að konur og störf þeirra njóti virðingar á vinnustað. Það þarf að vinna gegn skaðlegum hugmyndum um kynin og samskipti þeirra innan skólakerfisins,
á vinnustöðum og í frítíma,“ sagði í stefnuyfirlýsingunni.

Mótar hugmyndir um eflingu kynfræðslu

Hanna Björg situr í starfshópi mennta- og menningarmálaráðherra um eflingu kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Starfshópnum er ætlað að skila af sér skýrslu þar sem meðal annars er búið að  greina með hvaða hætti unnt er að koma á markvissari kennslu um kynheilbrigði og kynhegðun í grunn- og framhaldsskólum í samræmi við aðalnámskrár, gera tillögu að framkvæmd kennslu í kynfræðslu og ofbeldisforvörnum á grunn- og framhaldsskólastigi og gera tillögur um með hvaða hætti best sé að miðla fræðslu um kynlíf og kynheilbrigði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Snorri furðar sig á Byggðastofnun – Sagður gera lítið úr þeim sem ekki tala íslensku

Snorri furðar sig á Byggðastofnun – Sagður gera lítið úr þeim sem ekki tala íslensku
Fréttir
Í gær

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Í gær

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat
Fréttir
Í gær

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan sleppir tveimur í morðmálinu á Suðurlandi

Lögreglan sleppir tveimur í morðmálinu á Suðurlandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu