fbpx
Sunnudagur 25.maí 2025
Fréttir

Sakar Borgarleikhúsið um ömurlega framkomu við starfsfólk

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 14. maí 2020 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

VR hefur sent frá sér harðorða yfirlýsingu vegna þess að starfsfólk Borgarleikhússins sem er í minna en 45% starfi fékk ekki greidd út laun fyrir aprílmánuð um síðustu mánaðamót. Ályktunin, sem birtist á vef samtakanna, er svohljóðandi:

„Stjórn VR krefst þess að Borgarleikhúsið greiði starfsmönnum sínum í undir 45% starfshlutfalli tafarlaust umsamin laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamninga. Borgarleikhúsið hefur ekki greitt laun fyrir aprílmánuð til starfsmanna sinna sem eru í minna en 45% starfshlutfalli.

Borgarleikhúsið hefur enga sérstöðu umfram önnur fyrirtæki sem nýta sér úrræði stjórnvalda nú þegar gefur á bátinn. Þótt draga þurfi saman seglin víða þá standa fyrirtæki við ákvæði kjarasamninga um uppsagnarfrest. Fyrirtæki verða enda að gera ráð fyrir ákveðnu svigrúmi til að takast á við óvæntar aðstæður. Slíkt getur ekki talist of íþyngjandi fyrir Borgarleikhúsið þegar kemur að greiðslu launa til starfsmanna sem eru í minna en 45% starfshlutfalli.

Stjórn VR krefst að tafarlaust verði starfsmönnum Borgarleikhússins sem eru í minna 45% starfshlutfalli greidd umsamin laun.“

Sætavísur, afgreiðslufólk og miðasölufólk

Fréttablaðið ræddi málið við Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, og er hann mjög harðorður í garð Borgarleikhússins. Segir hann leikhúsið vísa í lög um fiskvinnslu og aflabrest í þessu máli. „Þau ætla sér að henda þessu starfsfólki út eins og gólftuskum til þess að komast hjá því að greiða þeim þau laun sem þau eiga rétt á að fá. Þá þarf einfaldlega að segja upp og borga uppsagnarfrest en ekki henda fólki út sem er að reiða sig á þessar greiðslur,“ segir Ragnar Þór við Fréttablaðið.

Ragnar segir ennfremur:

„Mér finnst þetta bara ógeðfellt. Manni flökrar við svona framkomu og hroka í stjórnendum að ætla sér að koma svona fram við fólk. Það fær ekki útborgað um mánaðarmótin og stjórnendur bera fyrir sér einhverja gamla lagaklausu gegn því sem bæði Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins hafa verið sammála um að gildi ekki um almenna vinnumarkaðinn. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð og ömurleg framkoma við starfsfólkið sem heldur þessu saman svo fólk geti komið í leikhús og notið sín.“’

Ekki náðist í Brynhildi Guðjónsdóttur, leikhússtjóra Borgarleikhússins, við vinnslu fréttarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt