Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra kynntu aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna atvinnumála námsmanna í sumar á fundi í Háskólanum í Reykjavík í dag. Erfitt er að fá vinnu í sumar og óvissa mikil hjá námsmönnum.
Ríkisstjórnin ver 800 milljónum til þess að tryggja markviss sumarstörf. Auk þess verður í boði sumarnám. Fimmtán framhaldsskólar taka þátt í verkefnum og áfangar fyrir yfir 1600 nemendur verða í boði. Fara 300 milljónir í þetta verkefni. Kennsla mun ná yfir alla sumarmánuðina og námsframboðið nær til flestra landshluta.
Jafnframt verða í sumar í boði yfir 200 námsleiðir í öllum háskólum landsins.
Ennfremur mun ríkisstórnin veita 400 milljóna króna framlag í Nýsköpunarsjóð námsmann. Er það fimmföldun á framlagi á milli ára.
Þá verður 1,4 milljarðs aukið framlag ríkisstjórnar í nýsköpun og þróun fyrir námsmenn. Skiptist féð þannig: 575 milljónir í rannsóknarsjóð, 125 milljónir í innviðasjóð og 700 í tækniþróunarsjóð.
Settir verða 2,2 milljarðar í sumarstörf fyrir námsmenn. Er markmiðið að skapa 3.400 störf fyrir námsmenn 18 ára og eldri. Á fundinum ítrekaði Ásmundur Einar þá stefnu að verja fremur fé í atvinnuskapandi verkefni en atvinnuleysisbætur fyrir starfsmenn.