fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Umdeilt frumvarp Áslaugar gæti reynst himnasending fyrir brugghús og smærri framleiðendur

Auður Ösp
Fimmtudaginn 2. apríl 2020 19:15

Mynd Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við ætlum að reyna hvað við getum til að halda sjó og einn liður í því væri að fá frumvarp Áslaugar samþykkt,“ segir Kjartan Vídó Ólafsson markaðsstjóri hjá HSÍ og einn af eigendum ölstofunnar  The Brot­h­ers Brewery í Vest­manna­eyj­um. Mörg minni brugghús sjá fram á mikla rekstrarerfiðleika vegna ástandsins í þjóðfélaginu í dag. Kjartan telur að innlend netverslun með áfengi geti haft jákvæð áfram fyrir smærri áfengisframleiðendur hér á landi.

Í samráðsgátt stjórnvalda hafa verið kynnt áform Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra um að leggja fram frumvarp til breytinga á áfengislögum, sem feli meðal annars í sér að innlend vefverslun með áfengi verði heimil til neytenda í smásölu. Umsagnarferli málsins er lokið en umsagnirnar hafa verið mjög misjafnar og greinir aðila á um gagnsemi frumvarpsins.

Í samráðsgáttinni segir svo um áformin:

„Áformað er að leggja fram frumvarp til breytinga á áfengislögum sem felur m.a. í sér tvær undanþágur á einokun ÁTVR á smásölu áfengis. Annars vegar til þess að heimila innlenda vefverslun með áfengi til neytenda í smásölu og hins vegar heimila framleiðendum áfengis að selja áfengi til neytenda með ákveðnum takmörkunum.“

Erfitt fyrir litlu brugghúsin að ná dreifingu í verslunum

Undanfarinn áratug hefur orðið sprenging í brugghúsamenningu Íslendinga, í takt við vaxandi áhuga á heimabruggi. Fjölmörg minni brugghús hafa sprottið upp víða um land. Mikill áhugi hefur vaknað meðal Íslendinga á svo­kölluðum hand­verks­bjór,en þar er átt við vandaðan bjór sem fram­leidd­ur er í litlu magni í svo­kölluðum ör­brugg­hús­um.

Kjartan Vídó Kjartansson á og rekur örbrugg­húsið The Brot­h­ers Brewery í Vestmannaeyjum ásamt þremur öðrum. The Brothers Brewery varð til í Eyjum árið 2016 en framleiðslan vatt fljótlega upp á sig og rúmu ári seinna opnuðu þeir félagar ölstofu í bænum.

Árið 2019 var framleiðslan færð yfir í stærra húsnæði. Í nýlegum pistli á facebook segir Kjartan mikinn tíma og fjármagn hafa farið í taka húsnæðið í gegn og bæta við búnaði fyrir starfsemina,  en hann telur að frá stofnun hafi fjárfesting þessa litla fyrirtækis líklega verið yfir 150 milljónir í búnaði og bættri aðstöðu fyrir gesti. Fyrirtækið er í dag með  tvær bjór tegundir, auk árstíðabjórs í fastri sölu ínokkrum af verslunum ÁTVR og þá aðallega á höfuðborgarsvæðinu.

Kjartan bendir á að það sé erfitt fyrir lítið brugghús að ná góðri dreifingu í vínbúðir ÁTVR.

„Fyrst tekur við sala í þremur búðum og þarf að ná ákveðinni sölu til að komast í meiri dreifingu sem eykst því meira sem varan selst. Árstíðabjórarnir hafa svo nokkra vikna sölutímabil.“

Fyrirtækið hefur undanfarin misseri náð að selja nokkra kúta inn á bjór og veitingastaði á höfuðborgarsvæðinu en líkt og Kjartan bendir á þá er sá markaður einfaldlega ekki til staðar í þeim hremmingum sem ganga yfir landið þessa dagana. Ölstofan er í dag lokuð og eigendurnir sjá ekki fram á að opna fyrr en Almannavarnir gefa fyrirmæli um að öllu sé óhætt. Kjartan segir að rekstrarlega sé staðan afar erfið enda hafi ölstofan notið velvildar Eyjamanna yfir vetrarmánuðina þegar lítið er um ferðamenn.

Róa lífróður

Kjartan segir breytingar á sölu á áfengi geta haft mikil áhrif á rekstur þeirra fjölmörgu litlu brugghúa sem hafa opnað um allt land síðustu ár. Litlu brugghúsin á Íslandi eiga undir högg að sækja þessa dagana.

„Við höfum frá stofnun bruggað yfir 70 tegundir af bjór í mismiklu magni en á hverju ári fara 6-10 tegundir í sölu í Vínbúðirnar. Með þeirri breytingu að fólk geti pantað af netinu beint af okkur og fengið sent eða sótt til okkar getum við fjölgað tegundum í sölu í dósum eða flösku. Sjómannabjórinn okkar er t.d vara sem við sjáum möguleika á að selja fyrir sjómannadaginn en hann fer aldrei í því litla magni sem bruggaður er í Vínbúðina.“

Kjartan bendir á að í dag er ekki möguleiki á að kaupa bjór á netinu af íslenskum framleiðendum og fá sent heim en hins vegar sé hægt að kaupa bjór á netinu af brugghúsum út um allan heim og fá sent heim að dyrum.

„Við sitjum ekki við sama borð og kollegar okkar fyrir utan 200 mílna landhelgina. Þeir geta selt ykkur en ekki við.“

Þá bendir Kjartan á að flest minni brugghúsin bruggi sérbjóra sem minni markhópur er fyrir. Sérbjórarnir eru aðeins rúmlega 10 prósent af bjór sölu ÁTVR, og fá því mun minni dreifingu í verslanir. Hann telur þess vegna að   breytingar á þessu sölufyrirkomulagi koma sér vel fyrir smærri áfengisframleiðendur á Íslandi. Með frumvarpinu sé ekki  verið að setja áfengi í matvöruverslanir eða gera hann sýnilegri á nokkurn hátt, heldur sé verið að jafna stöðu íslenskra framleiðenda við þá sem erlendis eru.

„Í dag sjáum við fram á erfiða tíma rekstrarlega. Ferðamönnum mun fækka gríðarlega á næstu mánuðum og svartsýnustu menn halda því fram að árið 2020 algjört hrun í ferðamannaiðnaðinum. Sú staða mun setja rekstur okkar í mjög erfiða stöðu.“

„Málið snýst um jafnræði“

Undanfarnar vikur hafa fjölmargir h tjáð skoðun sína á frumvarpi Áslaugar Örnu og ekki eru allir sáttir.

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum hafa gagnrýnt frumvarpið harðlega og sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Samfélagið er á öðrum endanum vegna Covid 19 veirunnar. Í þessum hörmulega faraldri hefur dómsmálráðherra þetta til málanna að leggja . Áfengisauglýsingar, smásala allra sem vettlingi geta valdið og heimsendingarþjónusta áfengis forgangsmál? Sorglegt

Áfengisauglýsingar og breytt sölufyrirkomulag áfengis? NEI TAKK –
Sýnum hug okkar í verki og deilum þessu innleggi sem víðast.“

Þá ritar  Erla Reynisdóttir framkvæmdastjóri Barnaheilla opið bréf til Áslaugar Örnu og segir frumvarpið auka hættu á ofbeldi gegn börnum:

„Ef einhvern tímann er EKKI þörf fyrir aukna hættu á heimilisofbeldi, aukna hættu á ofbeldi gegn börnum, aukna hættu á að börn búi við vanrækslu, hættu á auknum kvíða barna og andlegum áföllum, þá er það núna.“

Þá segir meðal annars í yfirlýsingu frá IOGT samtökunum:

„Bindindissamtökin IOGT á Íslandi skora á stjórnvöld að tryggja áfengisvarnir í landinu. Áfengisvarnir Íslands eru á heimsmælikvarða vegna sterkra laga um sölu áfengis. Árangurinn sem við höfum náð er svo eftirtektarverður að fjölmörg önnur ríki sækjast eftir okkar aðferð. Allar tilslakanir á áfengislögum eru ógnun við þann góða árangur sem við höfum náð og framtíðarlýðheilsu samfélagsins.“

Brynjar Níelsson. Ljósmynd: DV/Hanna

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er einn af þeim sem kemur frumvarpinu til varnar. Hann telur mikinn misskilning vera í gangi í þessari umræðu og bendir á að frumvarpið snúist hvorki um lýðheilsu ná afnám einkaréttar ÁTVR á áfengissölu. Brynjar orðar þetta svo í stuttum pistli:

Einkennileg læti eru yfir frumvarpi dómsmálaráðherra um netverslun með áfengi. Þetta mál hefur hvorki með lýðheilsu né afnám einkaréttar ÁTVR á sölu áfengis að gera, hvað þá þessa COVID veiru. Málið snýst um jafnræði þannig að þeir sem hafa íslenska kennitölu og reka netverslun sem endar á .is geti selt okkur áfengi í gegnum netið eins og þeir sem eru með netverslun sem endar .com.

Mismunun af þessu tagi stenst auðvitað ekki nokkra skoðun. Kemur mest á óvart að frjálslyndu umbótaöflin í Samfylkingunni skuli vilja mismuna fyrirtækjum eftir búsetu. Löngu búinn að átta mig á því að allt jafnræðistal og barátta gegn mismunun á þeim bæ er bara hentistefna. Prinsipplaust fólk upp til hópa myndu einhverjir segja.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Kristján Berg veit betur núna og biðst afsökunar: „Það verður að hlúa betur að fólki með geðræn vandamál“

Kristján Berg veit betur núna og biðst afsökunar: „Það verður að hlúa betur að fólki með geðræn vandamál“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Þingmaður bendir á athyglisverða staðreynd – „Með brotabroti af útgjöldum okkar til hersins höfum við náð þessum árangri gegn Rússlandi“

Þingmaður bendir á athyglisverða staðreynd – „Með brotabroti af útgjöldum okkar til hersins höfum við náð þessum árangri gegn Rússlandi“
Fréttir
Í gær

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“
Fréttir
Í gær

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“
Fréttir
Í gær

Jón Magnús um þráhyggju virkra í athugasemdum – Bólusetningum kennt um allt sem úrskeiðis fer

Jón Magnús um þráhyggju virkra í athugasemdum – Bólusetningum kennt um allt sem úrskeiðis fer
Fréttir
Í gær

Sundlaugargestir æfir yfir fyrirhuguðum breytingum: „Notið peningana í þarfari hluti“

Sundlaugargestir æfir yfir fyrirhuguðum breytingum: „Notið peningana í þarfari hluti“