fbpx
Miðvikudagur 14.apríl 2021
Fréttir

Sakleysisleg Facebook-mynd vekur hroll: „Hvar er brosið þitt?“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 11. apríl 2020 20:00

Lýst var eftir Lucas og Kim

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar nafninu Kim Edwards er slegið inn í leitarvél á Facebook koma upp nokkrir Facebook-reikningar með því nafni. Ef smellt er á andlitið sem virðist yngst í þeim hópi blasir við síða stúlku sem er 18 ára í dag en var aðeins 14 ára þegar síðan var síðast uppfærð. Árið 2016 skipti hin þá 14 ára gamla Kim um forsíðumynd á Facebook-síðunni sinni. Á nýju myndinni er hún alvarleg á svip, svo alvarleg að móðir hennar, Elizabeth Edwards, hafði orð á því í ummælum undir færslunni. Hún spurði:

„Hvar er fallega brosið þitt?“

Dóttirin svaraði: „Það hvarf.“

Elizabeth: „Hvers vegna, elskan?“

Kim: „Ég veit það ekki.“

Elizabeth: „Ég held að það sé undir rúminu þínu hahaha.“

Fremur sakleysisleg og hversdagsleg orðaskipti á samfélagsmiðli, þó að ef til vill felist í þeim vísbending um vandamál. En enginn sem leit þetta augum í apríl árið 2016 gat grunað að tíu dögum síðar lægi önnur þessara kvenna í blóði sínu eftir ólýsanlegan glæp. Hver sá sem þekkir þá sögu fyllist hrolli við að horfa á þessa mynd af unglingsstúlkunni Kim og lesa örstutt spjall mæðgnanna.

Þessi mynd af Kim vekur hroll þeim sem þekkir söguna

Kom eitt kjaftshögg öllu af stað?

Atburðirnir sem hér um ræðir áttu sér stað í Lincolnshire á Englandi, nánar til tekið í bænum Spalding. Ljóst er að samband mæðgnanna sem ræddu stuttlega saman undir Facebook-myndinni af dótturinni var slæmt. Frásagnir af ósætti þeirra ná allt aftur til ársins 2008 þegar stúlkan var aðeins sex ára gömul. Elizabeth kýldi þá barnið í andlitið vegna rifrildis um sjónvarp. Hún tilkynnti brot sitt til félagsmálayfirvalda og Kim litlu var komið fyrir í fóstri tímabundið.

Elizabeth var samvinnufús við félagsmálayfirvöld og fékk dótturina til sín aftur rúmlega hálfu ári síðar. Sambandið milli mæðgnanna gekk betur um hríð en haft er eftir Elizabeth að Kim hafi aldrei fyrirgefið henni kjaftshöggið.

Síðar kom í ljós og Kim bar árum saman haturshug til móður sinnar. Hún sakaði hana um að draga taum systur sinnar, Katie, sem var ári yngri. Fannst Kim hún var útundan á heimilinu.

Samband mæðgnanna var oft erfitt en versnaði verulega þegar Kim kynntist kærastanum sínum, Lucas Markham, árið 2015. Bæði voru þá aðeins 13 ára. Lucas átti líka erfið æskuár að baki og hafði misst móður sína fimm ára gamall. Árið 2015 strauk parið einu sinni að heiman og fundust þau í skóglendi í héraðinu sex dögum síðar.

Í apríl árið 2016 hvarf parið aftur, nánar til tekið, rétt eftir að mæðgurnar höfðu átt spjallið áðurnefnda á Facebook undir myndinni af Kim. Elizabeth tilkynnti hvarf þeirra til lögreglu sem hóf leit og eftirgrennslan. Niðurstaðan úr því varð afar óvænt og hræðileg.

Elizabeth Edwards

Hryllileg aðkoma lögreglumanns

Lögreglumaður sem tók þátt í leitinni að unglingunum kom á heimili fjölskyldunnar til að ráðfæra sig við Elizabeth. Honum til mikillar undrunar voru þar fyrir þau sem hann var að leita að, bæði Kim og Lucas höfðu hreiðrað um sig í stofunni og voru að horfa á sjónvarp.

Þau voru ósnortin af heimsókn lögreglumannsins sem spurði Kim hvar mamma hennar væri og Kim svaraði blátt áfram að hún væri uppi í svefnherbergi. Lögreglumaðurinn gekk upp á efri hæðina og þar blasti við honum hryllileg sjón. Bæði Elizabeth, og Katie, 13 ára systir Kim, voru látnar, höfðu verið skornar á háls.

Kim og Lucas gengust greiðlega við því að hafa myrt mæðgurnar. Undirrótin var gífurlegt og um margt óskiljanlegt hatur Kim á móður sinni. Það hatur smitaðist yfir til Lucasar. Þau lögðu á ráðin um morðið og að kvöldi miðvikudagsins 13. apríl árið 2016 kom Lucas með poka fullan af hnífum á heimilið. Um nóttina skar hann mæðgurnar á háls eftir að þær voru sofnaðar.

Kim og Lucas þóttu bæði ótrúlega köld og tilfinningasljó í yfirheyrslum jafnt hjá lögreglu sem í réttarhöldunum. Þau voru samsaga um að ástæðan fyrir morðinu á Elizabeth hefði verið hatur beggja á henni. Þeim bar hins vegar ekki saman um ástæðuna fyrir því hvers vegna Katie litla þurfti að deyja. Kim sagði að það hefði verið til að forða henni frá þeirri hryllilegu óhamingu að móðir hennar hefði verið myrt. Lucas sagði hins vegar blákalt að hún hafi orðið að deyja því annars hefði hún sagt lögreglunni frá. En lögreglan kom rétt eftir morðið og parið gerði enga tilraun til að flýja.

Systurnar Kim og Katie

Börn eru sakhæf á Englandi

Kim og Lucas eru yngstu tvöföldu morðingjarnir í sögu Englands, aðeins 14 ára gömul. Á Englandi eru börn yfir tíu ára aldri sakhæf. Lucas játaði glæpi sína en Kim bar við ósakhæfi vegna geðveilu. Þó að sálfræðingar og geðlæknar teldu hana stríða við ýmis vandmál var hún álitin sakhæf. Þess má geta að árið 2015 pantaði móðir Kim viðtal hjá geðlækni eftir að hún fann sjálfsmorðsbréf inni í herbergi hennar. En geðlæknirinn mat Kim svo að hún ætti ekki við geðræn vandamál að stríða.

Parið var dæmt í 20 ára fangelsi. Vakti það gagnrýni margra að svo ungar manneskjur fengju svo langa fangelsisdóma. Við áfrýjunardómstól var refsingin milduð niður í 17 og hálft ár.

Enginn botnar í því hvernig þetta barnunga fólk gat drýgt svo hræðilega glæpi. Það er síðan önnur og veigaminni spurning hvers vegna Facebook-síða Kim Edwards hangi ennþá uppi og vekur fólki sem þekkir til málsins ískaldan hroll er það horfir á myndina af stúlkunni og les rafræn samskipti hennar og móður hennar, tíu dögum áður en stúlkan og kærasti hennar myrtu móðurina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ingvar Árni fer inn í níu mánuði vegna undirheimauppgjörs – Skotför fundust á BMW bifreið

Ingvar Árni fer inn í níu mánuði vegna undirheimauppgjörs – Skotför fundust á BMW bifreið
Fréttir
Í gær

Efast um að bólusetning gegn COVID-19 væri jafn vel á veg komin án samstarfs við ESB

Efast um að bólusetning gegn COVID-19 væri jafn vel á veg komin án samstarfs við ESB
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ekki vinna þig í þrot – „Þetta er bara allt, það er allt erfitt“

Ekki vinna þig í þrot – „Þetta er bara allt, það er allt erfitt“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Einbýlishúsakaup á Akranesi breyttust í martröð – Saurmaurar, ónýtt skolp og mygla kostuðu milljónir

Einbýlishúsakaup á Akranesi breyttust í martröð – Saurmaurar, ónýtt skolp og mygla kostuðu milljónir