fbpx
Sunnudagur 28.nóvember 2021
Fréttir

Halldór segir að Ísland verði svona eftir COVID-19 faraldurinn – „Hæst launaða fólkið í samfélaginu hins vegar…“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 25. mars 2020 15:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halldór Armand Ásgeirsson, rithöfundur og útvarpsmaður, kom nýverið heim frá hááhættusvæði og þurfti því að fara í sóttkví. Í pistli sem Halldór skrifaði og birtist á RÚV fer hann yfir hvaða varanlegu breytingar COVID-19 veiran mun hafa á samfélagið.

„Þegar ég bar töskurnar inn í sóttkvíarathvarf mitt rak ég augun í fyrirsögn á bakþönkum Fréttablaðsins sem lá á gólfinu í anddyrinu. „Neyslan þín er vinnan mín,“ stóð þar,“ skrifar Halldór. „Ég skil alveg að íslensk verslun sé uggandi yfir stöðu mála en að gefa í skyn að það sé eiginlega siðferðileg skylda fólks að slá ekki slöku við í neyslu á meðan banvæn plága gengur yfir heimsbyggðina og fjárhagur venjulegs fólks er í algjörri óvissu er, ja, hvað skal segja … Kannski er nóg að segja að það sé afar lýsandi fyrir það hvernig mannlegt samfélag er rekið.“

Halldór segir það ekki vera oft sem slíkur sannleikur er sagður upphátt. „Mestöll markaðsmennska snýst um að sannfæra þig um að neysla þín færi þér hamingju og lífsfyllingu með því að leysa vanda eða uppfylla skort af einhverjum toga í lífi þínu. Staðreyndin er samt auðvitað, eins og allir vita, að eyðsla eins er fyrst og fremst lífsviðurværi annars. Þetta er í grófum dráttum það sem alþjóðlega hagkerfið grundvallast á,“ segir hann. „Við kaupum eitthvað sem okkur vantar eða langar í, og látum fólkið sem útvegar þessa hluti fá peninga, sem síðan notar þá til að kaupa sér eitthvað sem það vantar eða langar í og svona koll af kolli til eilífðar. Þetta er eilífðarvél sem má ekki stoppa.“

Hann segir þessa vél hreinlega ekki mega stoppa í hálftíma. „Þetta er eitt af því sem kórónaveirufaraldurinn sýnir svo vel; hreinlega hvað mannlegt samfélag er ferlega viðkvæmt undir yfirborðinu, hvað það eru mörg svið þess sem bókstaflega þola ekki að drepið sé á vélinni í eina sekúndu. Áður en maður nær að depla auga er ríkisvaldið byrjað að dæla milljarðatugum inn í bankakerfið og allt hringsnýst kringum það að bjarga fyrirtækjum. Mantran er þessi, það þarf að bjarga störfum fólks til þess að tryggja afkomu heimilanna. Þetta er er réttlætingin: Heimilum fólks er bjargað gegnum fyrirtækin, en ekki með beinni aðstoð.“

„Það var enginn á ferli“

Halldór segir það þó vera satt, að vinna og afkoma heimila eru tengd fyrirbæri. „En í þessari hugmyndafræði kristallast líka sýn á mannlegt samfélag þar sem fyrirtæki eru mikilvægari en manneskjur. Manneskjan og mannleg tilvera yfir höfuð er, samkvæmt þessari sýn, eins konar afurð neysluhagkerfisins, en ekki öfugt,“ segir hann. „Á tímum banvænnar plágu, sem lamar samfélagið, er öll áhersla lögð á það að þú getir unnið, en ekki að þú getir lifað. Ríkisstjórnin hefði vitaskuld getað gert alls konar hluti sem hjálpuðu fólki og heimilum beint, en það var ekki gert. Vinnan kemur á undan lífinu. Af hverju skyldi það vera? Hverjum þjónar það á endanum?“

Þegar Halldór hóf sóttkvína leit hann út um gluggann. „Það var enginn á ferli. Eina lífsmarkið sem ég sá var kona, sem var að þrífa hótelherbergi, skammt frá. Ég fylgdist með henni um stund gegnum tvær rúður,“ segir hann.

„Já, þú þarft að mæta í vinnuna, hugsaði ég. Fólk sem vinnur við ræstingar getur ekki unnið heima hjá sér. Hverjir aðrir þurfa að mæta í vinnuna á þessum hættulegu tímum? Jú, rútubílstjórinn sem keyrði mig hingað. Kennarar. Heilbrigðisstarfsmenn. Fólkið sem annast gamla fólkið á dvalarheimilunum. Þótt mistur kórónaveirunnar liggi núna yfir framtíðarlandinu, óvissan um það sem koma skal sé algjör, þá dregur hún um leið svo margt annað skýrt fram í dagsljósið.“

„Það skiptir á endanum engu sérstöku máli“

Halldór segir alla vita þetta. „Fólkið sem í dag þarf að fórna sér, fólkið sem er berskjaldað fyrir veirunni, fólkið sem getur ekki bara tekið símafund, er fólkið sem þarf í alvörunni að mæta í vinnuna alla daga, fólk sem vinnur samfélagi sínu raunverulegt gagn, fólk sem er ekki í bullstörfum, fólk sem á það sameiginlegt að vera á lágum launum,“ segir hann.

„Hæst launaða fólkið í samfélaginu hins vegar, topparnir í viðskiptalífinu, bankageirinn, stjórnmálamenn, aðstoðarmenn stjórnmálamanna, ríkisforstjórar, millistjórnendur og svo framvegis, þurfa hins vegar ekki að mæta í vinnuna. Ef þeir ætla að mæta klukkan tíu í fyrramálið, þurfa að skreppa aðeins, eða vera heima eftir hádegi, eða hreinlega bara mæta ekki, þá eru allar líkur á því að ekkert gerist, afleiðingarnar verði engar, það skiptir á endanum engu sérstöku máli hvort þeir mæta eða ekki.“

„Fólk verður áfram á sultarlaunum við að annast foreldra þess á meðan“

Hann veltir því fyrir sér hvort eitthvað af þessu verði breytt þegar COVID-19 faraldurinn líður undir lok. „Já, hverju skyldi plágan eiginlega geta breytt? Hvers er hún raunverulega megnug? Ætli það geti verið að íslenskt samfélag verði orðið jafnara og réttlátara þegar þokunni léttir? Skyldu allir þessir tugmilljarðar sem nú sogast upp úr vasa almennings skila sér á endanum í betra og sanngjarnara lífi fyrir þorra Íslendinga? Já, hvers er plágan megnug að breyta?“ spyr hann.

„Sama fólk mun keyra lúxusjeppa í Leifsstöð á leiðinni í skíðaferð, og sama fólk verður áfram á sultarlaunum við að annast foreldra þess á meðan. Sama fólk mun fara með völdin, sama fólk verður valdalaust, sama fólk verður auðugt og sama fólk verður fátækt. Gripið verður til róttækra og fordæmalausra aðgerða til þess að ganga úr skugga um það að ekkert geti raunverulega breyst.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sakar Megas um að hafa brotið gegn sér kynferðislega og samið lagatexta um brotið – „Mín leið til að lifa af var að halda fyrir kynfærin á mér“

Sakar Megas um að hafa brotið gegn sér kynferðislega og samið lagatexta um brotið – „Mín leið til að lifa af var að halda fyrir kynfærin á mér“
Fréttir
Í gær

Einar Ágúst nær edrútímum en fellur svo aftur – „Ég er mjög brotinn og ekki á besta stað í lífinu“

Einar Ágúst nær edrútímum en fellur svo aftur – „Ég er mjög brotinn og ekki á besta stað í lífinu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Mexíkóreisa Dags borgarstjóra veldur titringi – Heiða Björg sögð sniðgengin

Orðið á götunni: Mexíkóreisa Dags borgarstjóra veldur titringi – Heiða Björg sögð sniðgengin
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sveitarstjórn Húnaþings þreytt á biðinni og samþykkti að hópfjármagna nýjan Vatnsnesveg á Karolina Fund

Sveitarstjórn Húnaþings þreytt á biðinni og samþykkti að hópfjármagna nýjan Vatnsnesveg á Karolina Fund
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hlustaðu á eldræðu stjórnarformanns HHÍ – „Eigum við ekki að banna fólki að fá sér í glas? – „Get real!

Hlustaðu á eldræðu stjórnarformanns HHÍ – „Eigum við ekki að banna fólki að fá sér í glas? – „Get real!
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Brandenburg auglýsingastofa ársins 2021

Brandenburg auglýsingastofa ársins 2021