fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Guðmundi þykir líklegt að þingflokkur Miðflokksins hafi farið á duglegt fyllerí í síðustu viku

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 24. febrúar 2020 07:45

Guðmundur telur líklegt að þingflokkur Miðflokksins hafi farið á fyllerí í síðustu viku.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Einhvern veginn þykir mér líklegt að í kjölfarið á nýrri skoðanakönnun Capacent Gallup í síðustu viku hafi þingflokkur Miðflokksins farið á duglegt fyllerí og aldeilis látið gamminn geisa, greint pólitíkina með gífuryrðum í drasl á einhverju öldurhúsi í borginni og gleymt fötunum sínum úti um allan bæ. Ég hugsa að þeir hafi jafnvel sett bindin á hausinn, hneppt frá skyrtunum og sturtað yfir sig nokkrum hálfslítersbjórum í flippi og farið svo í karókí og sungið We are the champions með íslenskum texta á Ölveri.“

Svona hefst pistill Guðmundar Steingrímssonar í Fréttablaðinu í dag en hann heitir „Dauðafæri fyrir popúlista“. Í pistlinum beinir Guðmundur sjónum sínum að niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Capacent Gallup, sem birt var í síðustu viku, um afstöðu fólks til loftslagsbreytinganna og hvað valdi þeim. Í niðurstöðunum kemur fram að 23% landsmanna telja að of mikið sé gert úr þætti okkar mannanna hvað varðar hlýnun jarðar. Bendir Guðmundur á að það liggi því fyrir að umtalsverður hluti þjóðarinnar telji umræðuna um loftslagsmál vera verulegar ýkjur, eins og Miðflokkurinn telur. Þetta segir hann skapa dauðafæri fyrir flokkinn.

Hann segir að þótt 23% þjóðarinnar telji sig vita betur en allt vísindasamfélag heimsins og telji litla ástæðu til að hafa áhyggjur þá sé ljósi punkturinn þó að landsmenn séu almennt að breyta neyslumynstri sínu og hegðun út af loftslagsmálum sem eru í öðru sæti yfir mestu áhyggjumál þjóðarinnar. Aðeins heilbrigðismálin eru þjóðinni meira áhyggjuefni.

„Og þótt 23% telji náttúrunni um að kenna og 10% segist ekki vita neitt um þau mál, að þá eru þó tæplega 70% þjóðarinnar með það á hreinu að hlýnun andrúmsloftsins er af manna völdum. Það má hugga sig við þetta, en það breytir þó ekki því að það er samt fullkomlega út í hött — miðað við alla umræðuna og allan þann hafsjó óyggjandi vitnisburða sem streyma yfir mannkyn á degi hverjum — að hlutfall þeirra sem halda að hlýnun jarðar sé ekki af manna völdum skuli vaxa milli kannana. Hér kunna einhverjir sálfræðilegir kraftar að búa að baki. Kannski vex afneitun eftir því sem hættuástand verður alvarlegra? Það er kannski freistandi fyrir suma þegar vá er aðsteðjandi að taka strútinn. Þykjast ekki sjá. Stinga höfði í sand. Afturendinn mun þó samt hlýna.“

Segir Guðmundur og víkur síðan að popúlistum og skilgreiningum á þeim.

„Mikið er talað um popúlistaflokka og uppgang þeirra. Hugtök stjórnmálanna eru oft illskilgreinanleg, en popúlisti í mínum huga er þó ekkert annað en siðlaus tækifærissinni. Svo einfalt er það. Popúlisti er reiðubúinn til þess að láta mikilvæg grundvallaratriði eins og sannleikann, gögn, vísindi og réttlæti lönd og leið. Hann er reiðubúinn til að byggja völd sín á atkvæðum þeirra kjósenda sem láta öðru fremur stjórnast af ótta og fáfræði, jafnvel þótt hann sjálfur viti betur.“

Guðmundur segir að niðurstöður fyrrgreindrar skoðanakönnunar sé ávísun á stóraukið fylgi popúlistaflokks hér á landi. Það sé hægt að færa sé afneitunina í vil. Hann lýkur síðan máli sínu með eftirfarandi orðum:

„Í næstu alþingiskosningum verða umhverfismál lykilmál. Allir flokkar munu leggja áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum, vegna þess að það mun blasa við að slíkt verður að gera, og það hratt. Allir flokkar, segi ég, nema einn. Einn flokkur mun segja nei hva. Alveg einsog Roger Ailes (hugmyndafræðingurinn á bak við Fox News, innsk. blaðamanns). Þetta loftslagstal er rugl. Vísindin eru samsæri. Hviss, pang. Tuttugu og eitthvað prósent í höfn. Gott og vel. Fari það fólk á fyllerí. Aðalatriðið er þetta: Þegar þetta gerist þurfa hin sjötíu og eitthvað prósentin virkilega að standa í lappirnar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala