Mánudagur 30.mars 2020
Fréttir

Mikil ólga og óánægja í Kirkubæjarskóla – UPPFÆRT – UNNIÐ AÐ SÁTTUM Í MÁLINU

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 15. febrúar 2020 13:14

Kirkjubæjarskóli og Héraðsbókasafnið á Kirkjubæjarklaustri

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Athugasemd: Neðangreind frétt birtist síðastliðinn laugardag. Síðan þá hefur verið haldinn sáttafundur með foreldrum nemenda í Kirkjubæjarskóla og farin er í gang aðgerðaáætlun til að endurbæta starfið í skólanum. Ágreiningur sá sem lýst er í greininni hefur nú verið lagður til hliðar og aðilar eru staðráðnir í að vinna saman að endurbótum og sátt.

 

Fjórir kennarar við Kirkjubæjarskóla á Kirkjubæjarklaustri sögðu upp störfum í vor vegna óánægju með störf og framgöngu skólastjóra. Foreldrar barna við skólann hafa einnig lýst yfir óánægju með agaleysi í skólanum, gæðaskort í náminu og að ekki sé tekið með ákveðnum hætti á eineltismálum.

Foreldri kom að máli við DV vegna eineltismáls og sagði:

„Yngsta dóttir mín er búin að lenda í einelti og þrátt fyrir ítrekaða pósta á umsjónarkennara og skólastjóra var ekkert gert í málinu. Á endanum var erindi barnsins vísað til Nemendaverndarráðs og var niðurstaðan að ekki væri um neitt einelti að ræða, þrátt fyrir að foreldri geranda sé fullljóst um ástandið einnig. Eftir eitt atvik var þolanda eineltisins sagt að „fara bara heim að jafna sig“ og var umræddur nemandi sendur heim úr skólanum án þess að borða hádegismat og án þess að foreldrar væru látnir vita að nemandinn væri farinn úr skólanum. Það var í annað sinn sem það gerðist og var einnig sendur tölvupóstur vegna þess atviks þar sem nemandinn var sendur heim í skítakulda að ná í íþróttafötin sín en var ekki með húslykil og foreldar ekkert látnir vita.“

Fyrrverandi kennari fer hörðum orðum um ástandið

Einn kennaranna sem sögðu upp í vor ræddi við DV og fer hörðum um skólastjóra og ástandið í skólanum:

„Núverandi skólastjóri starfaði sem kennari í tvo vetur áður en hún var ráðin sem skólastjóri og fljótlega eftir að hún varð skólastjóri fór að síga á ógæfuhliðina. Hún lagði einn kennara nánast í einelti, sagði öðrum að halda kjafti á kennarafundi og átti illa samleið með mörgum samkennurum sínum,“ segir konan sem telur pólitík koma hér við sögu en skólastjórinn er í Sjálfstæðisflokknum:

„Yfirgangur D-lista Sjálfstæðismanna er algjör og sömu 4-5 einstaklingarnir í raun ráða hér í einu og öllu. Skólastjóri sat í sveitastjórn Skaftárhrepps og hinum ýmsu nefndum eins og t.d. fræðslunefnd, varamaður í skipulags- og byggingarnefnd, formaður í menningarmálanefnd, formaður í umhverfis- og náttúruverndarnefnd, í jafnréttisnefnd, varamaður í héraðsnefnd, varamaður í stjórn Kirkjubæjarstofu. Tengdasonur hennar er í sveitastjórn, varamaður í fræðslunefnd, í stjórn foreldrafélags Kirkjubæjarskóla, í skipulags – og bygginganefnd, formaður í jafnréttisnefnd, fulltrúi á Landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, varaoddviti í héraðsnefnd, í stjórn Kirkjubæjarstofu. Formaður fræðslunefndar er einnig varamaður í atvinnumálanefnd og ber ábyrgð ásamt fræðslunefnd á ráðningu skólastjóra en hefur verið algjörlega varnað að taka nokkra ábyrgð á þeim erfiðleikum sem fyrir fræðslunefnd hafa verið bornir, bæði frá kennurum og foreldrum. Oddviti er í sveitastjórn, fulltrúi á Landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, í Héraðsnefnd, í stjórn Kirkjubæjarstofu.“

Kennarinn segir að fljótlega hafi sigið á ógæfuhliðina í starfi skólans eftir að nýi skólastjórinn tók við:

„Ýmis vandamál komu upp í samskiptum hennar við bæði nemendur, foreldra og samstarfsfólk. Framkoma hennar gagnvart kennurum var aldrei á jafnréttisgrundvelli og komu upp mörg leiðindaatvik á milli hennar og kennara, bæði á kaffistofunni sem og á kennarafundum.“

Hún segir að fundir kennara með sveitarstjóra og oddvita um þessi vandamál hafi ekki skilað neinum árangri þrátt fyrir fögur loforð um annað. „Það er það sem kannski svíður einna mest, þetta algjöra athafnaleysi stjórnsýslunnar í garð yfirlýstra áhyggja kennara. Á endanum tekur stjórnsýslan ákvörðun um að kalla til mannauðsfyrirtæki sem vann skýrslu úr viðtölum mannauðsstjóra þess fyrirtækis við alla starfsmenn skólans. Þessi skýrsla er svo kynnt á skipulagsdögum kennara um vorið þrátt fyrir að kennarar hafi verið í sambandi við stjórnsýsluna frá janúar. Niðurstöður þessarar skýrslu voru svo útþynntar og kynntar kennurum og starfsfólki skólans og var meginniðurstaða hennar að fjölmargir kennarar og starfsmenn væru óánægðir með störf skólastjórans og ástandið í skólanum. Niðurstaða skýrslunnar var að skólastjóra átti að vera gert að sitja stjórnendanámskeið og átti að vinna í að bæta samskipti sín við starfsfólk, foreldra og nemendur. En síðan þá hefur ekkert gerst.“

Kennarinn sakar skólastjóra um að hafa lagt skólaritara í einelti með þeim afleiðingum að síðarnefndi starfsmaðurinn fór í veikindaleyfi.

Eftir að fjórir réttindakennarar sögðu upp störfum í vor var ljóst að mannekla var orðin í þessum litla skóla en að sögn kennarans var ekki brugðist við því um sumarið og gefið var eftir í framboði á bóklegu námi á haustönninni vegna fækkunarinnar:

„Þar sem mannekla var í skólanum um haustið vegna uppsagna kennara voru bóklegum greinum unglingastigs fækkað og nemendur í staðinn settir í tónmennt, textílmennt og heimilisfræði. Ófaglærðir leiðbeinendur voru ráðnir í kennslu og meira að segja bókasafnsvörðurinn og stuðningsfulltrúinn notaðir til að kenna heilu og hálfu kennslustundirnar.“

Dæmi eru um að foreldrar hafi flutt börn sín úr skólanum vegna meints slæms ástands og hafa slíkir aðilar haft samband við DV. Um þetta segir þessi kennari:

„Tvær fjölskyldur sóttu um það eftir áramótin að senda börn sín í skóla annars staðar, annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar í Víkurskóla. Skólastjóri eða stjórnsýsla sýndu engan vilja til að ræða við foreldra um hvort hægt væri að leysa málin svo þau þyrftu ekki að flytjast búferlum, það var ekkert samband haft við þau.“

Segir yfirvöld ekki bregðast við þó að þeim sé gerð skýr grein fyrir ástandinu

„Eftir alvarlegt atvik í kennslustund með unglingastigi og skólastjóra sendi hópur foreldar póst á stjórnsýsluna og á endanum voru foreldrar kallaðir á fund þar sem viðstaddir voru einnig sveitarstjóri, oddviti, formaður fræðslunefndar, fulltrúi Skólastjórafélags Íslands og fulltrúi Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu. Á þessum fundi lýstu foreldrar miklum áhyggum af samskiptum skólastjóra við bæði nemendur og foreldra. Einnig lýstu foreldrar áhyggjum af náminu og kennslunni. Ekki lágu fyrir kennsluáætlanir í mörgum greinum þó komið væri fram í desember og í dönsku á unglingstigi, sem skólastjóri kennir, voru nemendur ekki einu sinni komnir með námsbækur. Eftir tvo fundi hafði ekkert breyst en lofað var að foreldrar alls unglingastigs yrðu kallaðir til í janúar. Foreldar hafa verið að biðja um fund síðan í janúar en ekkert gengið. Sérstaklega voru foreldrar uggandi yfir stærðfræðikennslu í skólanum sem ekki er viðunandi. Nemendur í Kirkjubæjarskóla voru að læra á einni önn í stærðfræði það sem nemendur á höfuðborgarsvæðinu voru að læra á þremur vikum. Þrátt fyrir þetta er nemendum ætlað að þreyta sömu samræmdu próf og öðrum. Þegar foreldrar lýstu yfir áhyggjum af samræmdu prófunum var þeim tilkynnt af skólastjóra að „þetta væru í raun bara könnunarpróf“,“ segir kennarinn.

 Segir skólastjóra öskra á nemendur

„Skólastjóri hefur öskrað á nemendur, látið unga nemendur standa með andlit upp við vegg, látið unglinga segja sér hvað hún hafi gert þeim og þegar þeir sögðu henni að hún væri vond við þau þá sagði hún þeim að sanna það. Einn nemandi í hópnum sýndi henni þá dagbókarfærslur sínar þar sem fram kom allt það ljóta sem hún hafði sagt við hann og þurfti hann í raun að standa fyrir framan hana og verja þetta eins og doktorsritgerð. Einnig hefur hún rekið unga nemendur ekki bara út úr skólahúsnæðinu á skólatíma fyrir slæma hegðun heldur út af skólalóðinni,“ segir kennarinn og bætir jafnframt við að tölvupóstar frá skólastjóra séu illa skrifaðir og illa ígrundaðir og hún hafi engin samskipti við foreldra nokkurra nemenda í skólanum.

„Foreldar elstu bekkja hafa ítrekað beðið um fund með umsjónarkennara og skólastjóra vegna alvarlegra atvika í skólanum, m.a. veipnotkunar unglinga á skólalóð og innan skólahúsnæðis og hættulegs yfirliðsleiks, en ekki fengið nein svör. Skólastjóri er svo fullur af valdhroka að henni finnst hún ekki einu sinni þurfa að svara okkur,“ segir kennarinn jafnframt og harmar mjög ástandið í skólanum þar sem hún kenndi.

Skólayfirvöld tjá sig ekki við DV

Aðstandendur barna við skólann höfðu samband við DV í desember síðastliðnum og lýstu yfir megnri óánægju með ástandið í skólanum. Í kjölfar þeirra samskipta sendi DV fyrirspurn á skólastjóra Kirkjubæjarskóla og bar undir hana ásakanir um agaleysi í skólanum, eineltisvanda og gæðaskort í kennslu. Svar skólastjórans var eftirfarandi:

„Það hefur verið og er verklag hjá stofnunum hreppsins að vísa öllum fyrirspurnum fjölmiðla til sveitarstjóra og/eða oddvita. Mun áframsenda erindið þitt til beggja hið snarasta.“

DV sendi fyrirspurnina einnig á sveitarstjóra sem barst hún því bæði frá DV og í gegnum skólastjórann. Fyrirspurninni var ekki svarað.

Umræddur kennari hafði síðan samband við DV í vikunni og var eftir þau samskipti ákveðið að fjalla um málið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Eldur í íbúðarhúsi á Stokkseyri

Eldur í íbúðarhúsi á Stokkseyri
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Útgöngubann í Paradís – „Þetta er  hundleiðinlegt til lengdar“

Útgöngubann í Paradís – „Þetta er  hundleiðinlegt til lengdar“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Faraldurinn mun koma verst niður á Afríku

Faraldurinn mun koma verst niður á Afríku
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Dæmdur búðarþjófur fær uppreisn æru

Dæmdur búðarþjófur fær uppreisn æru
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslensk áróðurssíða fær á baukinn fyrir innlegg um COVID-veiruna – „Setja allt á hausinn sem þeir koma nálægt“

Íslensk áróðurssíða fær á baukinn fyrir innlegg um COVID-veiruna – „Setja allt á hausinn sem þeir koma nálægt“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Almannavarnir fá toppeinkunn hjá þjóðinni – Ánægja með viðbrögð við COVID-19

Almannavarnir fá toppeinkunn hjá þjóðinni – Ánægja með viðbrögð við COVID-19