Föstudagur 05.mars 2021
Fréttir

Virkja neyðaráætlun vegna kuldans – „Við getum aldrei tryggt það 100 prósent“

Máni Snær Þorláksson
Laugardaginn 5. desember 2020 15:15

Mynd/Auðunn Níelsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eitt versta kuldakast síðan árið 2013 stendur nú yfir í Reykjavík. Í kuldanum hugsa margir sér gott til glóðarinnar með teppi, bók og heitt súkkulaði en það sama er ekki uppi á teningnum hjá heimilislausum sem takast nú á við enn erfiðari tíma.

Kuldakastið er hvað verst fyrir þá sem geta ekki leitað inn á heimili sín í hlýjuna. Heimilislaust fólk og aðrir sem geta ekki leitað í öruggt skjól eru í mikilli hættu þegar svona kalt er í veðri. Því var mikið að gera hjá þeim aðilum sem hjálpa fólkinu í þessum málaflokki hvað mest.

Mikilvægt að halda bílnum gangandi

Frú Ragnheiður, skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins, vakti athygli á alvarleika kuldakastsins á Facebook-síðu sinni í vikunni. „Við metum að svona slæmt frost jafngildi alvarlegum veðurvið-vörunum fyrir heimilislausa einstaklinga og aðra sem eru ekki með öruggt skjól,“ segir í færslunni.

„Við leggjum áherslu á að bjóða upp á hlýtt umhverfi í bílnum okkar þegar fólk leitar til okkar. Hitum hann vel upp, erum með hlýjan fatnað í bílnum, reynum að bjóða upp á eitthvað hlýtt að drekka og með smá næringu. Veitum smá skjól og hlustum á okkar fólk. Þessar ráðstafanir eru gerðar í takt við þarfir notenda þjónustunnar, sem hafa bent okkur á að þetta sé mikilvæg viðbót.“ Þá segir einnig að það besta sem Frú Ragnheiður getur gert í svona aðstæðum sé að halda bílnum gangandi og bjóða upp á hlýtt og öruggt rými fyrir fólkið.

„Stendur og fellur með íbúum samfélagsins“

Sjálfboðaliðar og starfskonur í Frú Ragnheiði söfnuðu sérstaklega hlýjum úlpum til að dreifa til fólks sem þarf á þeim að halda vegna kuldans. Elísabet Herdísar Brynjars-dóttir, verkefnastýra og hjúkrunarfræðingur hjá Frú Ragnheiði, segir í samtali við DV að söfnunin hafi farið fram úr björtustu vonum.

„Við erum með takmarkaðan lager og getum ekki tekið við mörgu en ég get sagt að lagerinn fylltist á mjög stuttum tíma. Næsta verk fram undan er að koma þessum úlpum í góðar hendur,“ segir hún. „Það er mjög jákvætt. Við finnum alveg stuðninginn í samfélaginu, þetta eru ekki bara sveitarfélögin sem eru að bregðast við heldur eru þetta íbúarnir líka. Við höfum líka verið að vekja athygli á því að þetta stendur og fellur með íbúum samfélagsins. Við finnum alveg fyrir því þegar við setjum svona út á samfélagsmiðla, þá láta viðbrögðin ekki á sér standa.“

Elísabet segir að flóknustu málin hjá Frú Ragnheiði þessa stundina séu einstaklingar á götunni sem eru án kennitölu.„Þú þarft að hafa kennitölu til að leita í neyðarskýli, við erum núna að reyna að finna einhverja lausn á þeim að-stæðum. Þetta eru ekki mörg tilfelli en það kemur fyrir að við vitum af manneskjum sem eru á götunni og eru ekki með kennitölu og geta því ekki leitað í gistiskýlin,“ segir Elísabet.

Öll neyðarskýli opin

Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur og deildarstjóri hjá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, ræddi einnig við DV um málið en hún er yfir VoR-teyminu, færanlegu vettvangsteymi sem aðstoðar fólk sem er heimilislaust og með vímuefnavanda og geðvanda. „Ég sé ekki fyrir mér að það verði fullt, það er pláss. Þetta er samt mikil áskorun varðandi sóttvarnir en við vísum engum frá og við leggjum rosalega mikið upp úr því,“ segir Hrafnhildur í samtali við DV. Öll neyðarskýlin eru opin vegna kuldakastsins en undanfarið hafa einungis tvö verið opin. Neyðarskýlin sem nú eru opin eru fjögur, tvö fyrir karla og tvö fyrir konur.

„Við erum rosalega mikið að fókusera á góða stemningu, vera að baka og svoleiðis. Mynda einhverja þannig stemningu innanhúss þannig að það sé gott að vera inni og fólk sé velkomið,“ segir Hrafnhildur en VoR-teymið er í miklu samstarfi við Frú Ragnheiði. Saman skimuðu VoR-teymið og Frú Ragnheiður í gær svæði sem notendahópar þeirra leita í. „Við förum á alla þessa helstu staði þar sem einhver gæti verið sem við höfum áhyggjur af, bílakjallara og svoleiðis.“

Neyðaráætlun virkjuð vegna kuldans

Þegar fólk þarf að halda sig inni vegna veðurs eða kulda er virkjuð neyðaráætlun hjá VoR-teyminu og Frú Ragnheiði. „Í því er til dæmis að hafa samband við bráðamóttökur. Þannig að ef að það koma einhverjir úr okkar markhóp sem eru ekki upplýstir þá geta þau stutt við fólk og leiðbeint þeim. Við upplýsum líka lögregluna, varð-stjórana í Reykjavík, svo þau viti af þessu ef það er einhver sem er í neyð. Hrafnhildur segist vera bjartsýn á að aðgerðirnar gangi vel og skili sínu. „Við erum búin að æfa þetta síðustu tvo vetur og þetta hefur aldrei gengið svona hratt,“ segir hún. „Þetta tók bara nokkra klukkutíma að upplýsa alla þjónustuaðila og byrja að hefja vinnu við að upplýsa alla notendur.“

Leita fólk uppi

Árið 2011 var greint frá því að maður hefði látist úr kulda eftir að hann varð úti í Reykjavík. Friðrik Smári Björgvinsson, þáverandi yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, ræddi við Vísi um málið á sínum tíma. Hann sagði það ekki vera algengt að fólk yrði úti í Reykjavík en benti þó á tvö nýleg dæmi á liðnum árum.

Hrafnhildur segir að það hafi ekki verið neitt um slík tilvik á undanförnum árum en það er árangur þess að mikið hefur verið gert í málaflokknum. „Það hefur líka verið lagt rosalega mikið púður í að hafa samband við alla og leita alla uppi,“ segir hún. „Það er enginn sem við höldum að sé að sofa úti í nótt en við getum aldrei tryggt það 100 prósent.“

Hægt er að leita hjálpar hjá Frú Ragnheiði í síma 788-7123. Frú Ragnheiður keyrir alla daga ársins, líka yfir hátíðirnar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Bókmenntasamfélagið á hliðinni í kjölfar umfjöllunar á Rás 1 – „Jæja gamli… ég myndi nú bara eyða þessu“

Bókmenntasamfélagið á hliðinni í kjölfar umfjöllunar á Rás 1 – „Jæja gamli… ég myndi nú bara eyða þessu“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Mjólkursamsalan leyndi mikilvægu gagni af ásetningi og fær stóra sekt í bakið

Mjólkursamsalan leyndi mikilvægu gagni af ásetningi og fær stóra sekt í bakið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Banna drónaflug vegna hugsanlegra eldsumbrota

Banna drónaflug vegna hugsanlegra eldsumbrota
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Örtröð í matvöruverslunum á Reykjanesinu í kjölfar frétta um mögulegt eldgos – „Brjálað að gera“

Örtröð í matvöruverslunum á Reykjanesinu í kjölfar frétta um mögulegt eldgos – „Brjálað að gera“