Föstudagur 21.febrúar 2020
Fréttir

Óvinsæl ákvörðun borgarinnar – „Af hverju er verið að auka stress og álag á foreldra?“ – „Skammsýni og vitleysa“

Auður Ösp
Sunnudaginn 19. janúar 2020 10:00

Mynd úr safni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Meiri­hluti skóla- og frí­stundaráðs hefur samþykkt að breyta starfs­tíma leik­skóla borg­ar­inn­ar. Frá og með 1. apríl næstkomandi verða leikskólar Reykjavíkurborgar opnir til klukkan 16.30 í stað 17.00 líkt og hingað til hefur verið. Börn geta dvalið í leikskólanum í níu klukkustundir að hámarki á dag.

Er það mat stýrihóps um umbætur og skipulag leikskólastarfs í Reykjavík að „stytting opnunartíma muni  draga úr álagi á börn, stjórnendur og aðra starfsmenn og styrkja faglegt starf þar sem skipulag daglegs starfs og mönnun leikskólans verði einfaldari.“

Gefinn verður aðlögunartími að breytingunum sem munu taka gildi 1. apríl 2020.  Foreldrum og forsjáraðilum með gildandi dvalarsamninga til kl. 16.45 eða 17.00 er heimilt að sækja um lengri aðlögunarfrest, eða til 1. ágúst 2020, vegna sérstakra aðstæðna.

Önnur stór sveitarfélög hafa þegar breytt opnunartíma leikskóla á þennan veg. Þannig er lokunartími leikskóla kl. 16.15 á Akureyri, kl. 16.30 í Reykjanesbæ og Kópavogi og kl. 17.00 eða síðar hjá hinum sveitarfélögunum. Seltjarnarnes er með í athugun að hafa opnunartíma frá 07.30–16.30 og í Hafnarfirði hafa leikskólar heimild til að loka kl. 16.30 ef ekki er þörf á lengri opnun. Í Reykjanesbæ er opnunartími fjögurra af fimm leikskólum kl. 07.45–16.15.

Helmingurinn sóttur fyrir klukkan fimm

5.202 börn eru á leikskólum Reykjavíkur. Í skýrslu stýrihópsins kemur fram að af þeim 416 börnum sem eru með dvalarsamning til kl. 16.45 eru 57% sem eru sótt fyrir kl. 16.30 á daginn. 10% eru sótt eftir að dvalartíma þeirra lýkur samkvæmt samningi. Af þeim 416 börnum, sem eru með dvalarsamning til kl. 16.45 á daginn, voru 220 börn sótt fyrir kl. 16.30.

Af þeim 521 barni sem er með dvalarsamning til kl. 17.00 eru um 51% sótt fyrir kl. 16.30 á daginn á meðan 25% eru sótt fyrir kl. 16.45 og 24% eru sótt eftir kl. 16.45.

„Skammsýni og vitleysa“

Tillagan hefur vakið vægast sagt hörð viðbrögð í samfélaginu undanfarna daga.

Hátt í 100 manns hafa nú deilt Facebook-færslu Hildar Ýrar framhaldsskólakennara þar sem hún segist „orðlaus“ yfir málflutningi borgarfulltrúa í tengslum við tillöguna.

Hildur segist blessunarlega ekki eiga börn á leikskólaaldri lengur og losni því við að „púsla og fá magasár yfir því að morgundagurinn sé ekki leystur og að kannski missi ég vinnuna af þvi að ég mæti stundum of seint af því að leikskólinn opnar ekki fyrr en korteri áður en ég á að mæta í vinnu í öðrum bæjarhluta“.

„Ég hef séð borgarfulltrúa láta sér það um munn fara að við eigum ekki að nota börnin okkar sem barefli í baráttu okkar fyrir femínismanum. En annar borgarfulltrúi segir að stytting leikskólaplássa eigi að þrýsta á styttingu vinnuvikunnar. Hvort er það? Má nota þau í baráttu eða ekki? Mega kannski bara borgarfulltrúar gera það?“ spyr Hildur. „Þetta heitir að byrja á vitlausum enda. Þetta heitir skammsýni og vitleysa og ég er reið. Ég hefði ekki mína menntun í dag ef ég hefði ekki getað fengið fullt leikskólapláss. Ég hefði ekki getað gert svona smávægilega hluti eins og borðað og gefið barninu mínu að borða og svona nokkurn veginn klætt okkur ef ég hefði ekki haft fullt leikskólapláss.“

Hildur Björnsdóttir

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, skrifar á Twitter að þessi breyting muni hafa slæm áhrif á launafólk og bendir til að mynda á þá foreldra sem þurfa að vinna vaktavinnu. Gagnrýnir hún meirihlutann í borginni fyrir að sýna „takmarkaðan vilja til að mæta fjölskyldufólki“. Hún segir að um sé að ræða „óskiljanlega aðgerð“.

„Fáir eiga þess kost að yfirgefa vinnu um klukkustund áður en hefðbundnum vinnudegi lýkur. Skert þjónusta mun eflaust koma verst niður á einstæðum foreldrum, vinnandi konum og láglaunafólki,“ segir Hildur.

Hildur segir að þetta muni fæla ungar fjölskyldur frá Reykjavík í önnur sveitarfélög og sömuleiðis draga úr framgangi kvenna á vinnumarkaði.

Hildur Björnsdóttir

„Gæluverkefni hjá gjörsamlega marklausu fólki“

Þá hefur Vigdís Hauksdótttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík, einnig gagnrýnt breytingarnar harðlega og spyr á Facebook-síðu sinni hvort um aprílgabb sé að ræða. Enn sé verið að þrengja að fjölskyldufólki í Reykjavík.

„Hér er ráðist að þeim sem síst skyldi s.s. einstæðum foreldrum – það er ekkert að marka þetta fólk sem stjórnar borginni sem segja á hátíðarstundu að standa með þeim sem verst eru staddir.“ segir hún og kallar breytingarnar „gæluverkefni“ hjá „gjörsamlega marklausu fólki“.

Vigdís Hauksdóttir

Björn Leví Gunnarsson bendir jafnframt á að stytting á þjónustutíma og minni sveigjanleiki fyrir börn og foreldra séu ekki framför. „Ég sagði ekkert um að langur vinnudagur væri góður fyrir börn. Ég er að tala um sveigjanleika í þjónustu þannig að þó barn sé ekki eins lengi í leikskóla þá séu ekki allir í hálf átta til hálf fimm boxi. Hvernig á að púsla því saman við grunnskóla sem byrjar 8.30 hjá systkini?“

„Auka stress og álag á foreldra“

Sólrún Lilja Ragnarsdóttir blaðamaður á barn á leikskólaaldri og hún er ein af þeim sem gagnrýnir fyrirhugaðar breytingar. Í færslu á Facebook bendir hún á að breytingar á opnunartíma leikskóla skarist á við opnunartíma grunnskóla, sem skapar vanda fyrir þá foreldra sem eiga fleiri en eitt barn.

„Nú opnar skóli sonar míns til dæmis ekki fyrr en klukkan 8 á morgnana og ég vinn eins langt í burtu frá skólum og leikskólum barna minna og hægt er innan borgarinnar. Þegar dóttir mín byrjar á leikskóla, væntanlega í haust, þá þarf ég að koma henni og syni mínum á sína staði áður en ég mæti til vinnu. Ég þarf svo að skila 8 tíma vinnudegi og takast að sækja hana fyrir klukkan 16.30. Sem er ómögulegt. Af hverju er verið að auka stress og álag á foreldra?“

Aðeins 62 börn fullnýta opnunartímann

„Við höfum auðvitað skilning á því að öllum breytingum  fylgir ákveðið rask,“ segir Skúli Helgason, formaður skóla- og frí­stundaráðs og borg­ar­full­trúi Sam­fylk­ing­ar, í sam­tali við DV. „Það er ekki síst þess vegna sem við erum að gefa langan aðlögunartíma, fyrir þá sem telja sig þurfa svigrúm. Þetta er auðvitað ekki nema hálftími.“

Skúli segir að settur hafi verið starfs­hópur með full­trú­um leik­skóla­stjóra í októ­ber síðastliðnum og meðal annars hafi verið kannað hvaða aðgerðir kæmu til greina til að draga úr álagi á börn­in og starfs­fólkið. Það hafi verið niðurstaða fulltrúa leikskólastjóranna að umrædd breyting, stytting opnunartímans, bitni ekki á þeim hópi sem telst viðkvæmur, s.s einstæðum foreldrum og láglaunafólki. Það hafi ekki verið sá hópur sem hafi verið að kaupa síðasta hálftímann. „Það er frekar vel stætt fólk sem hefur verið að kaupa þennan tíma til að eiga það uppi í erminni. En er ekki að nýta hann í reynd. Ef við skoðum þann hóp sem er að nýta síðasta hálftímann þá eru ekki nema 62 börn sem nýta vistunartímann alveg til klukkan fimm. Af þeim rúmlega 5.000 sem eru í kerfinu.“

Skúli bendir jafnframt á að foreldrar geti samið við vinnuveitendur um breyttan vinnutíma eða samið við leikskólann um breytingu á dvalarsamning viðkomandi barns. Þannig sé til að mynda hægt að láta barnið byrja daginn fyrr á leikskólanum.

„Þeir foreldrar sem komast ekki úr vinnu fyrr en klukkan fimm hljóta að hafa nú þegar þurft að gera ráðstafanir, enda loka leikskólarnir klukkan fimm. Það er engin ein lína í þessu. En ég skil alveg að þetta setji einhverja í ákveðinn vanda.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Kínverjar færðu Melrakkasetrinu stóra peningagjöf – Enginn vill skipta peningunum

Kínverjar færðu Melrakkasetrinu stóra peningagjöf – Enginn vill skipta peningunum
Fréttir
Í gær

Umferðarslys á Kjalarnesi

Umferðarslys á Kjalarnesi
Fréttir
Í gær

Piltar báðust afsökunar eftir að hafa kastað flugeldi inn um bréfalúgu á Suðurnesjum

Piltar báðust afsökunar eftir að hafa kastað flugeldi inn um bréfalúgu á Suðurnesjum
Fréttir
Í gær

Tveir strákar réðust á ungan mann í Kópavogi

Tveir strákar réðust á ungan mann í Kópavogi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Eftirför í miðborginni

Eftirför í miðborginni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Árna algjörlega misboðið: Segir hverfið ítrekað talað niður – „Hér hefur verið gott að búa“

Árna algjörlega misboðið: Segir hverfið ítrekað talað niður – „Hér hefur verið gott að búa“