Ef ekki greinast smit næstu daga verður hægt að fara að slaka á þeim hertu aðgerðum sem gripið var til vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta kemur fram í minnisblaði sóttvarnalæknis til ráðherra í morgun. Þar er farið yfir kosti og galla ýmissa aðgerða. Kom þetta fram á upplýsingafundi dagsins.
Þórólfur sóttvarnalæknir mælir áfram með skimun í bland við sóttkví varðandi farþega sem koma inn í landið. Segir hann að skimunin hafi gengið vel en dæmin sanni að það nægi að aðeins einn sýktur einstaklingur komi inn í landið til að koma af stað hópsýkingu.
Ekkert innanlandssmit greindist í gær en beðið er niðurstöðu skimunar Íslenskrar erfðagreiningar í Vestmannaeyjum. Þrír greindust með virkt smit á landamærum og tveir eru í bið. Óvenjulega margir farþegar komu til landsins í gær, eða um 4.700, en rúmlega 3.000 voru skimaðir.
Í minnisblaðinu áðurnefnda leggur Þórólfur ekki til hertar aðgerðir en að slakað verði á aðgerðum ef ekki greinast smit næstu daga. Lítur út fyrir að tekist hafi að koma böndum á hópsýkinguna sem glímt hefur verið við undanfarið. Núverandi aðgerðir renna út á föstudaginn og fyrir þann tíma þarf að taka ákvörðun um áframhaldandi aðgerðir.