Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, hefur farið fram á að tveir einstaklingar af erlendu bergi brotnir verði hnepptir í gæsluvarðhald. Þetta kemur fram í frétt Vísis. Einstaklingarnir eru smitaðir af COVID-19 og voru handteknir í gær fyrir þjófnað á Selfossi.
Aðilarnir komu til landsins á mánudag og fengu samkvæmt Þórólfi skýr skilaboð um að þeir ættu að fara í sóttkví. Hinir handteknu eru í haldi lögreglu sem stendur og viðeigandi ráðstafanir eru gerðar vegna smitvarnar.
Lögreglan leitar þriggja annarra sem voru í för með hinum handteknu. Fjórtán lögreglumenn eru farnir í sóttkví vegna málsins.
„Maður veit náttúrulega að það getur ýmislegt gerst og þetta er ekki í fyrsta skiptið sem að svona lagað gerist með alvarlega smitsjúkdóma. Við lendum oft í því að þurfa að ná í fólk með alvarlega smitsjúkdóma, en þetta er í fyrsta skiptið sem þetta gerist með Covid,“ sagði Þórólfur í samtali við Vísi.