Karlmaður var sýknaður af ákæru um heimilisofbeldi í Héraðsdómi Reykjaness í morgun (föstudag) þó að sannað þætti að hann hefði tekið sambýliskonu sína kverkataki.
Í ákæru var þess krafist að maðurinn yrði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Sambýliskonan krafðist einnar milljónar króna í miskabætur.
Atvikið átti sér stað á laugardagskvöld í febrúar árið 2018. Parið hafði farið saman á bar en manninum varð illt af áfengi sem hann hafði innbyrt og fór heim á undan konunni.
Konan kom heim síðar um nóttina með tveimur mönnum sem hún bauð heim. Var sambýlismaðurinn þá sofandi í stofusófanum en vaknaði við heimkomuna og brást reiður við gestaganginum. Konan læsti sig þá inni á baðherbergi með mönnunum þar sem þau spjölluðu saman og drukku áfengi. Hinn ákærði barði á hurðina með látum. Kom konan þá fram, sótti hníf fram í eldhús og lagði að hálsi mannsins. Greip maðurinn um háls konunnar mað annarri hendi, en þau greinir á um hvort hann gerði það fyrir eða eftir að hún lagði hnífinn að hálsi hans.
Fyrir dómi var ágreiningur um hve alvarlegt hálstakið hefði verið og hvort maðurinn hefði beitt því sem viðbragði við hnífsógnun konunnar eða hvort hann hefði ráðist að henni áður en hún greip til hnífsins.
Héraðsdómur taldi sekt ákærða í málinu ekki nægilega sannaða af ýmsum ástæðum. Til dæmis hefði hinn ákærði verið stöðugri í framburði sínum en konan. Ennfremur hafi konan ekki leitað til læknis eftir atvikið og því liggi ekkert fyrir um afleiðingar af meintu broti.
Maðurinn var því sýknaður af ákæru um heimilisofbeldi og miskabótakröfu vísað frá. Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.