Örlög Icelandair eru talin munu ráðast á hluthafafundi föstudaginn 22. maí þegar þess verður freistað að auka verulega hlutafé félagsins. Forsenda fyrir auknu hlutafé er mikil hagræðing í rekstri til framtíðar og þar vegur launakostnaður þungt. Fyrir nokkru náðust samningar við flugvirkja og tímamót urðu í þessari baráttu í nótt er samningar tókust við flugmenn hjá félaginu.
Allt virðist hins vegar standa fast í kjaradeilu flugfreyja og Icelandair. Ráða mátti af orðum Jóns Þórs Þorvaldssonar, formanns Félags atvinnuflugmanna, í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, að nær öruggt væri að flugmenn myndu samþykkja samninginn. Verður hann þó ekki kynntur félagsmönnum fyrr enn eftir helgi. Sagði Jón að hópurinn væri samheldinn og hann hefði sterkt umboð. Átti hann því ekki von á öðru en samningurinn yrði samþykktur.
Jón sagði að samningurinn fæli í sér launalækkun, aukið vinnuframlag og niðurfelldan frítíma. „Við ákváðum að taka þennan slag með fyrirtækinu. Icelandair er mikilvægasta fyrirtæki á Íslandi,“ sagði Jón.
Það slitnaði upp úr kjaraviðræðum Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) á miðvikudagskvöld og hefur ekki annar sáttafundur verið boðaður. Samkvæmt fréttum Stöðvar 2 hafa þreifingar átt sér stað um samningafund en meira er ekki vitað.
Ekki náðist samband við formann FFÍ í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Hjá Icelandair var ekki aðrar upplýsingar að hafa en að staðan væri óbreytt frá miðvikudagskvöldinu hvað flugfreyjur varðar. Þá sendi Icelandair frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:
Samningafundi Icelandair og FFÍ lauk án niðurstöðu og ekki boðað til nýs fundar
Undanfarna daga og vikur hafa viðræður Icelandair við Flugfreyjufélag Íslands staðið yfir. Síðastliðinn sunnudag lagði félagið fram tilboð og óskaði eftir því að félagsmenn FFÍ fengju að greiða um það atkvæði. Það gekk ekki eftir. Fundur átti sér stað hjá ríkissáttasemjara í morgun og var niðurstaða hans sú að ekki yrði lengra komist. Ekki hefur verið boðað til frekari funda og ekki útlit fyrir að svo verði.
Viðræður síðustu vikna hafa því miður ekki borið árangur þrátt fyrir góðan vilja beggja vegna borðsins. Þau tilboð sem lögð hafa verið fram af hálfu Icelandair hafa verið til þess fallin að auka samkeppnishæfni félagsins en á sama tíma verja ráðstöfunartekjur starfsfólks og verða við óskum um sveigjanleika í starfi og val um vinnuframlag, t.d. möguleika á hlutastörfum. Markmið Icelandair er að tryggja starfsmönnum sínum góð kjör sem eru samkeppnishæf við það sem sambærileg flugfélög bjóða, svo sem SAS og Finnair. Þau félög hafa á liðnum áratug gert veigamiklar breytingar á kjarasamningum í þeim tilgangi að auka samkeppnishæfni þeirra á alþjóðlegum flugmarkaði.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group:
„Það eru fjölmargir þættir sem verða að ganga upp til að endurfjármögnun Icelandair Group gangi eftir. Einn af þeim eru langtímasamningar við flugstéttir. Sá samningur sem Icelandair bauð flugfreyjum og flugþjónum hefði hvort í senn tryggt samkeppnishæfni félagsins til lengri tíma og starfsmönnum félagsins áfram góð kjör og gott starfsumhverfi. Áhafnir Icelandair eiga mjög stóran þátt í því að gera Icelandair að því öfluga fyrirtæki sem það er. Það er því áhyggjuefni að ekki verði lengra komist í þessum viðræðunum við Flugfreyjufélag Íslands.“
Flugfreyjur hafa sagt að tilboð Icelandair feli í sér 40% kjaraskerðingu en því hefur Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hafnað.
Sú staða er uppi að Icelandair gæti fallið vegna þess að ekki takast samningar við flugfreyjur ef miðað er við þær forsendur að langtímasamningar við allt starfsfólk, ásættanlegir frá sjónarhóli fjárfesta, séu skilyrði þess að nægilegt hlutafé fáist inn í reksturinn.