Samgöngustofa vekur athygli á því að mikilvægt er að huga að ástandi dróna áður en þeir eru teknir í notkun í sumar og enn fremur að hafa í huga reglur sem gilda um dróna.
Reglurnar gera skýran greinarmun á tómstundaflugi og notkun dróna í atvinnuskyni. Þær eru ekki margar eða flóknar en þessar eru mikilvægar:
– Hámarksflughæð er 120 metrar. Þau sem stunda atvinnuflug geta sótt um undanþágu frá hæðartakmörkunum.
– Flugvellir og nágrenni þeirra eru ekki fyrir dróna!
– Drónaflugmenn verða að taka tillit til manna og dýra, hvorki valda ónæði, skaða fólk eða dýr né valda eignatjóni. Því eru í gildi reglur um flug í grennd við íbúðarhúsnæði og annars staðar þar sem fólk dvelst og á athafnasvæðum gilda almennar reglur um vernd eignarréttar, friðhelgi einkalífs og persónuvernd.
– Merkja þarf dróna með nafni, heimilisfangi og símanúmeri.
– Ef nota á dróna í atvinnuskyni er skylda að skrá hann. Skráning dróna kostar ekkert og fer fram rafrænt á vef Samgöngustofu. Sérstaklega er brýnt að atvinnudrónar séu skráðir, hvort sem þeir eru notaðir við myndatökur, fréttaöflun, mælingar, rannsóknir eða flutning á vörum.
– Þau sem stunda atvinnuflug með drónum geta sótt um undanþágu frá reglugerðinni. Þeim umsóknum þurfa að fylgja ítarleg gögn um starfsemina. Hægt er að sækja um undanþágu á vef Samgöngustofu.
Hér að neðan er myndband frá Samgöngustofu þar sem farið er yfir reglur um flug dróna á Íslandi.
Sjá enn fremur:
Reglugerð um fjarstýrð loftför (dróna) nr. 990/2017
Gjaldskrá Samgöngustofu
Spurt og svarað um dróna