Stafræna auglýsingastofan The Engine Iceland ásamt Pipar\TBWA hefur hlotið fjórar tilnefningar (e. Shortlist) til Evrópsku Leitarverðlaunanna eða European Search Awards 2020. Tilnefndar eru leitarherferðir (PPC) fyrir Gray Line, Olís og Taxback International, sem hlaut tvennar tilnefningar.
,,Ég er fyrst of fremst stoltur af því góða teymi sem unnið hefur að þessum herferðum og er það mikil viðurkenning fyrir okkur að fá þessr tilnefningar. Ekki síður fyrir okkar góðu viðskiptavini sem auðvitað leitast eftir árangri af starfi okkar,“ segir Hreggviður S Magnússon, leiðtogi í stafrænni markaðssetningu hjá The Engine Iceland og Pipar\TBWA.
Haukur Jarl Kristjánsson hafði yfirumsjón með framkvæmd herferðanna og hefur titilinn Performance Marketing Director hjá bæði Pipar\TBWA og The Engine en þau fyrirtæki gengu í eina sæng fyrir tæpum tveimur árum síðan.
,,Ég var sérstaklega ánægður að sjá Gray Line fá tilnefningu þar sem það var svo skemmtilegt að vinna úr þeirri áskorun sem var þar til staðar. Mikill samdráttur í ferðaþjónustu ásamt því að áhugi hafði mikið færst yfir í að vera á bílaleigubílum frekar en í hópferðum. Gray Line náði verulegri söluaukningu á sama tíma og baráttan á markaðnum jókst og markaðurinn minnkaði. Öll þessi verkefni voru afrakstur af vel skilgreindu vandamáli og herferðafræði um hvernig við ætluðum að ná árangri,” segir Haukur Jarl.
Hreggviður segir skemmtilegt hversu fjölbreyttar herferðirnar voru sem Pipar\TBWA og The Engine fengu tilnefningar fyrir. ,,Leitarherferðin fyrir Grayline miðaði að því að markaðsaðstæður voru erfiðar og minnkandi áhugi var í leit að Íslandi sem ferðamannastað. Samt sem áður var árangurinn í netsölu mjög góður. Olís Kvizz gekk framúr væntingum með þátttöku og góð tenging myndaðist á milli Olís og viðskiptavinarins. Taxback International er alþjóðlegt fjártæknifyrirtæki á fyrirtækjamarkaði með höfuðstöðvar á Írlandi. Fyrir þann viðskiptavin vorum við tilnefnd bæði fyrir leitarherferð (PPC) á fyrirtækjamarkaði ásamt Best Integrated Campaign sem er aðal flokkurinn eða sem kalla mætti herferð ársins. Það var flókin herferð þar sem við þurftum að ná til fyrirfram ákveðinna einstaklinga með ákveðin hlutverk í alþjóðlegum fyrirtækjum með höfuðstöðvar í ákveðnum löndum. Árangurinn sem hlaust af herferðinni var framúrskarandi og sjálfvirkni í að staðsetja og finna viðskiptavininn þótti nýstárleg,“ segir Hreggviður ennfremur.