fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Netþrjótar kúga Íslendinga með klámi – Sjálfsfróun notuð í svikamyllunni

Íris Hauksdóttir
Laugardaginn 14. september 2019 09:00

Rússnesku nettröllin eru vöknuð á nýjan leik.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Netglæpir hafa aukist mjög á heimsvísu og hér á landi fær lögregla talsvert af slíkum málum inn á sitt borð. Þórir Ingvarsson, lögreglufulltrúi hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir glæpina viðvarandi og birtingarmyndir þeirra fjölbreyttar. „Við sjáum töluvert af netglæpum, en leiðirnar sem eru notaðar eru mismunandi eftir árstíðum. Í sumar er mikið um glæpi tengda leiguíbúðum en ég reikna með að þeim fari fækkandi á næstu vikum. Talsvert er um að fólk fái tölvupóst eða skilaboð á Facebook þar sem viðkomandi einstaklingi er sendur póstur. Hann er settur þannig upp að sendandi segist hafa undir höndum myndband, tekið úr tölvu eða snjallsíma og viðkomandi hafi þá verið inni á klámsíðu og hafi verið að fróa sér. Manneskjunni eru þá settir afarkostir; að leggja inn tiltekna upphæð því annars fari myndbandið í almenna dreifingu. Þetta er ákveðin tegund af svindli sem hefur gengið í áratugi, en mikilvægt er að fólk átti sig á að svikahrappar hafa ekki aðgang að myndavélum fólks nema það hafi sjálft samþykkt það.“

Þórir segir einnig að netglæpamenn svífist einskis og hiki ekki við að spila inn á tilfinningar fólks.

„Eflaust verða margir hræddir um slíkar myndbirtingar en það sanna er að þessir óprúttnu einstaklingar hafa ekkert undir höndum. Við vitum hins vegar ekki hversu margir falla fyrir slíku, en kannski leita þeir sem verst fara aldrei til lögreglunnar. Við sjáum töluvert um þessa glæpi en þeir birtast í líka í alls konar öðrum formum. Svikatilraunir hafa alltaf fylgt okkur og eru í grunninn alltaf mjög svipaðar. Svokölluð „rómantísk-svik“ eru líka töluvert algeng þar sem óprúttnir einstaklingar stofna til gerviaðganga og senda vinabeiðnir á ókunnugt fólk í gegnum Facebook. Markmiðið er alltaf það sama: að kúga fé út úr fólki. Annars er hægt að sjá svona svikatilraunir með ótrúlega mörgum leiðum og ólíku yfirbragði.“

Mikilvægt að vera gagnrýnin á þau gögn sem berast

Þórir segir engan einn þjóðfélagshóp líklegri en annan til að verða fyrir barðinu á netglæpastarfsemi. „Svik sem þessi fylgja netinu og því er enginn sérstakur hópur sem herjað er á heldur allir sem hafa ýmist tölvupóst eða aðgang á Facebook. Með öðrum orðum, um það bil allir. Og þetta á auðvitað líka við þegar kemur að alls konar fyrirtækjum sem mörg hver hafa lent illa í því.“

Spurður hvort hann telji ákveðinn hóp líklegri til að glepjast en annan vefst Þóri tunga um tönn enda sé erfitt að áætla slíkt út frá tilfinningu. „Við þyrftum í raun að gera línulega rannsókn um það en auðvitað óttast maður mest um þá sem hafa ekki mikla þekkingu á internetinu. Ég held þó að það geti verið hver sem er og á hvaða aldri sem er. Mín ráð eru fyrst og fremst þau að brýna fyrir fólki mikilvægi þess að vera vakandi fyrir öllu svona og gæta þess að vera gagnrýnið á þau gögn sem berast. Leggja alls ekki inn peninga á einhvern reikning nema að vel ígrunduðu máli og ef það á að greiða fjármuni að greiða þá með viðurkenndum leiðum. Mikið af svikum tengdum leiguíbúðum ganga einmitt út á þetta og þá er lykilatriði að greiða aldrei utan hefðbundinna greiðsluleiða heldur nota viðurkenndar aðgerðir til þess. Í fæstum tilfellum er verið að finna upp hjólið heldur halda þessir þrjótar sig við þær leiðir sem hafa virkað nú þegar.“

Alltaf einhverjir sem láta blekkjast og borga

Spurður hvernig gangi að hafa hendur í hári svikahrappa segir Þórir að í langflestum tilfellum sé um erlenda einstaklinga að ræða, einkum og sér í lagi frá löndum sem erfitt sé að nálgast upplýsingar frá. „Fólk leitar talsvert til okkar, bæði til þess að fá upplýsingar eða leita ráða varðandi áhyggjur sínar. Svo eru alltaf einhverjir sem hafa látið blekkjast og borgað, þeir koma þá til okkar og vilja kæra, það er allur gangur á þessu.“

En hvað er fólk að greiða háar upphæðir? „Það getur líka verið mjög misjafnt, alveg frá því að vera tiltölulega lágar fjárhæðir yfir í gríðarlega háar og allt þar á milli. Það er auðvitað ekki okkar að meta hversu varanleg áhrif svona lagað getur haft á líðan fólks, en eins og með öll brot sem fólk verður fyrir hafa þau alltaf einhver áhrif.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Í gær

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat