Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um slys í Breiðholti rétt eftir klukkan ellefu í gærkvöldi. Þar hafði maður hjólað á ljósastaur og var maðurinn með áverka á andliti eftir slysið. Í skeyti frá lögreglu kemur fram að maðurinn hafi enga aðstoð viljað frá sjúkrabifreið sem kom á vettvang. Var maðurinn beðinn um að leiða hjól sitt eða skilja það eftir vegna ástands hans.
Rétt tæpum klukkutíma síðar fékk lögregla tilkynningu um ölvaðan mann í íbúðarhúsi í Mosfellsbæ. Maðurinn er grunaður um húsbrot, fara ekki að fyrirmælum lögreglu, segja ekki til nafns, hótanir og fleira. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu. Að sögn lögreglu var maðurinn blóðugur í andliti þar sem hann hafði, jú, hjólað á ljósastaur um klukkutíma áður.