fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Helga tók stúlku í fóstur með dags fyrirvara: Ég gat ekki annað en grátið

Auður Ösp
Mánudaginn 25. mars 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helga Magnea Eyþórsdóttir háði marga mánaða baráttu fyrir bandarískum dómstólum til að fá forræði yfir fósturdóttur sinni. Litla stúlkan, sem síðar fékk nafnið Viktoría var rúmlega sólarhrings gömul þegar Helga fékk hana fyrst í fangið en blóðmóðir hennar hefur háð baráttu við eiturlyfjafíkn og blóðfaðir afplánar fangelsisdóm. Að fá forræði var stórt skref en þar með er þó aðeins hálfur sigur unninn. Helga vinnur nú að því að fá að ættleiða Viktoríu og sér fram á langt og kostnaðarsamt ferli.

Helga Magnea Hefur búið í Bandaríkjunum í sjö ár.

Draumur að verða fósturmóðir

Helga hefur verið búsett í Bandaríkjunum undanfarin sjö ár, nánar tiltekið í Virginíufylki og unir hag sínum vel vestanhafs.

„Ég flutti ásamt strákunum mínum til Virginíu, árið 2011 til þess að hefja nám. Ég var í East Carolina University og útskrifaðist með BS gráðu í viðskiptafræði. Eftir að ég kláraði skólann, ákvað ég að vera áfram í Virginíu og fór að vinna sem fasteignasali.“

Helga segist alltaf hafa átt sér þann draum að verða fósturmóðir.

„Ég vissi að við strákarnir mínir gætum boðið börnum sem þyrftu á okkur að halda betra líf, ást, hlýju og öruggan stað til að vera á. Ég fór að kynna mér þetta betur á meðan að ég var í háskólanum og ákvað að byrja ferlið. Það var margt sem þurfti að skoða og það var ekki einfalt, sérstaklega af því að ég er íslensk, einstæð móðir og í námi. Fyrsta barnið sem við vorum með í fóstri var lítil stelpa en hún kom til okkar aðeins tveggja vikna og var hjá okkur í þrjá mánuði áður en hún fór til fjölskyldu sem ættleiddi hana.“

Hafði aðeins klukkustund

Það var síðan árið 2017 að Helgu bauðst að taka að sér nýfædda stúlku, sem síðar fékk nafnið Viktoría.

„Viktoría á þrjá eldri bræður, sammæðra sem voru allir í fóstri á meðan mamma þeirra gekk með Viktoríu. Til þess að byrja með var ég með elsta bróður hennar í stuttan tíma þar til hann fór annað og yngsti bróðir hennar kom til mín og miðbróðurnum var komið fyrir hjá vinkonu minni. Yngsti bróðirinn var þá nýorðinn tveggja ára og ég hafði ekki hugmynd um að móðirin gengi með annað barn. Á sama tíma var ég með annað barn í fóstri hjá mér sem þá var aðeins átta mánaða, en hún kom frá annarri fjölskyldu.

6. júní 2017 fór ég að sækja þann litla úr heimsókn frá föðurfólki sínu og þar var mér sagt frá því að mamman hefði eignast stúlku kvöldið áður. Það var ekki vitað hvað myndi gerast með litla barnið þar sem hún átti annan föður. Ég fór heim í hálfgerðu sjokki, hugsandi hvað yrði um það barn.

Morguninn eftir var ég að vinna og fékk símtal kl. 10:30 þar sem mér var tilkynnt að félagsmálayfirvöld væru að taka Viktoríu af foreldrunum og var ég beðin um að koma á skrifstofu félagsmálayfirvalda sem fyrst til þess að taka hana í fóstur,“ segir Helga en hún hafði aðeins rúma klukkustund til að útvega helstu nauðsynjar fyrir litlu stúlkuna, sem var ekki enn komin með nafn og var kölluð „baby girl“.

Viktoría
Glímdi við heilsufarsvandamál vegna neyslu blóðmóður.

Flókin barátta

Næsta hálfa árið tók virkilega á hjá Helgu, sem skyndilega var orðin einstæð móðir sex barna. Viktoría gekk í gegnum fráhvörf þar sem móðir hennar hafði neytt eiturlyfja á meðgöngunni, og var þar að auki magakveisu- og eyrnabarn.

„Hún grét meira og minna fyrstu þrjá og hálfa mánuðinn. Að vera með þrjú pínulítil börn sem öll eru með einhverjar sérþarfir var rosalega erfitt. Bróðir Viktoríu er á einhverfurófi með snertióþol og fleiri greiningar. Hin stúlkan sem ég fóstraði á sama tíma er með snertióþol líka og mikla þroskaskerðingu.“

Í desember 2017 fluttu bræður Viktoríu til föðurfjölskyldu sinnar. Blóðmóðir Viktoríu bað hins vegar Helgu um að ættleiða dótturina. Blóðfaðir Viktoríu hafði stuttu áður verið  handtekinn fyrir morðtilraun og sölu og vörslu eiturlyfja og kemur til með að sitja af sér fangelsisdóm næstu árin. Blóðmóðir Viktoríu flutti frá fylkinu af ótta við föðurinn.

Málin flæktust hins vegar talsvert þegar félagsmálayfirvöld stigu inn í málið og reyndu að fá föðurfjölskyldu Viktoríu til þess taka hana að sér.

„Félagsmálayfirvöld í Bandaríkjunum vilja einna helst að börn séu hjá blóðfjölskyldu,“ útskýrir Helga. „Blóðmóðir Viktoríu hafði ekkert bakland til að styðja við sig og því reyndu félagsmálayfirvöld að fá föðurfjölskyldu Viktoríu til þess að taka hana, en þau vildu ekki barnið og voru sammála blóðmóður Viktoríu um að hún ætti að vera ættleidd af mér, einu mömmunni sem barnið þekkir.“

Við tók níu mánaða ferli fyrir bandarískum dómstólum, þar sem Helga sótti um forræði yfir Viktoríu litlu. „Það var eina leiðin til þess að hún yrði ekki send til vandalausra.“

„Gat ekki annað en grátið“

Það var tilfinningaþrungin stund í september 2018 þegar Helga fékk fullt forræði yfir Viktoríu.

„Þann dag leið mér eins og ég væri stödd í bíómynd. Allan daginn voru lögfræðingar að spyrja allskonar spurninga og að lokum tók dómarinn ákvörðun.

Dómarinn leit á mig og sagði að hún heyrði og sæi hvað ég elskaði Viktoríu mikið. Hún sagðist vita það að ég myndi gera það sem væri best fyrir Viktoríu með því að leyfa henni að vera áfram í sambandi við bræður sína og að halda sambandi við bæði föður- og móðurfjölskyldu.

Þetta var rosalega tilfinningaþrungið og ég gat ekki annað en grátið þegar ég hlustaði á dómarann. Hún veitti mér fullt forræði og því var þetta einn af bestu dögum lífs míns.“

Málið tók sem fyrr segir marga mánuði og kostaði Helgu um 17 þúsund dollara eða um tvær milljónir íslenskra króna. Og þá er ekki allt upptalið. Eftir stendur lögfræðikostnaður og önnur gjöld sem til falla við ættleiðingaferlið, samtals um 25 þúsund dollarar eða tæpar þrjár milljónir króna.

„Það tók langan tíma að borga upp lögfræðikostnaðinn en nú er ég loksins búin að greiða hann og get því byrjað ættleiðingarferlið. Blóðmóðirin hefur afsalað sér réttinum til Viktoríu til þess að ég geti ættleitt hana. Ég þarf að fara aftur fyrir dómstóla og fá blóðföðurinn til að afsala sér réttinum til hennar. En eins og áður hefur komið fram þá situr hann í fangelsi og verður þar næstu árin. Á meðan hann situr inni hefur hann ekki verið samstarfsfús.“

Helga lýsir ferlinu sem algjörum tilfinningarússíbana.

„Við erum búin að vera á milli vonar og ótta hvort við fáum að halda henni eða hvort við missum hana. Fyrir strákana mína er þetta litla systir þeirra og við getum ekki ímyndað okkur lífið án Viktoríu.“

 

Mæðgur
Fjölskyldur blóðforeldra eru sammála um að Viktoríu væri best borgið hjá Helgu.

Mikilvægt hlutverk

Fósturbörn koma oftar en ekki úr afar erfiðum aðstæðum, eins og Helga lýsir.

„Ég hef fengið börn inn á mitt heimili sem kunna ekki að faðma og meiða þegar maður reynir að taka utan um þau. Að vera fósturmóðir er að kenna fósturbörnum hvað er heilbrigt heimilislíf, að kenna þeim ást og umhyggju, gefa þeim knús og kossa og leyfa þeim að finna til öryggis.“

Framtíðin er björt hjá fjölskyldunni, sem heimsótti Ísland um seinustu jól. Þar bræddi Viktoría hjörtu allra í stórfjölskyldunni.

„Við sjáum hana fyrir okkur blómstra áfram í faðmi fjölskyldunnar. Hún er lítil prinsessa sem vefur öllum um fingur sér. Hún talar íslensku og ensku, elskar hangikjöt, grjónagraut og slátur, harðfisk, skyr og kókómjólk,“ segir Helga en hún segir fósturmóðurhlutverkið ólýsanlega gefandi.

„Það besta við að vera fósturmóðir er að finna hversu mikilvægt hlutverk mitt er við að hjálpa börnunum. Eins það að ég fæ að vera áfram í lífi þeirra eftir að þau fara heim, vitandi að við fjölskyldan höfðum jákvæð áhrif á líf barnanna.“

Líkt og fyrr segir sér Helga fram á langt og afar kostnaðarsamt ferli við að fá að ættleiða Viktoríu. Aðstandendur Helgu hafa hrundið af stað söfnun á fjáröflunarsíðunni Gofundme þar sem hægt er að styðja við bakið á Helgu með frjálsum framlögum. Hægt að leggja söfnunni lið á gofundme.com Einnig er hægt að leggja inn á reikningsnúmer: 0326-26-003510. Kt. 151061-3469.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala