fbpx
Fimmtudagur 19.maí 2022
Fréttir

Engin niðurstaða og harðar ásakanir: „Þrælavinna“ – „nauðungarvinna“ – „atvinnuofbeldi“ – „glæpamenn“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 17. febrúar 2019 13:00

Samsett mynd/skjáskot úr fréttatíma Stöðvar 2

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gær fjallaði DV um starfsmannaleiguna Menn í Vinnu ehf., og greindi frá álitamálum tengdum fréttaflutningi af málum starfsmanna leigunnar, undanfarnar vikur. Starfsmannaleigan hefur verið áberandi í  samfélagsumræðunni frá því að greint var frá meintum brotum leigunnar gegn starfsmönnum í fréttum stöðvar 2, en áður hafði leigan verið til umfjöllunar í þættinum Kveikur, síðasta haust.

Margir hafa álit á málinu og hafa látið að sér kveða í fjölmiðlum. Helst má þar nefna ummæli frá Eflingu, ASÍ, Vinnumálastofnun og SA. Blaðamaður gerði samantekt yfir hörðustu ummælin og skoðaði út frá þeim gögnum sem DV hefur undir höndum.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Mynd: DV/Hanna

Samtök Atvinnulífsins (SA)

Í yfirlýsingu sem SA gaf frá sér í kjölfar fréttaumfjöllunar um Menn í vinnu ehf, eru meint brot Menn í vinnu ehf. fordæmd. SA hvatti aðildarfyrirtæki sín til að sniðganga leiguna og skipta eingöngu við traustar starfsmannaleigur, þá einkum þær leigur sem eiga aðild að SA.  Í yfirlýsingunni segir:

„Samtök atvinnulífsins fordæma meint lögbrot starfsmannaleigunnar Menn í vinnu og hvetja aðildarfyrirtæki sín að skipta einungis við starfsmannaleigur sem þau bera fullt traust til. Það er óverjandi að fyrirtæki skipti við starfsmannaleigur sem ítrekað hafa orðið uppvísar að brotum á starfsmönnum.“

Efling

Drífa Snædal
Ljósmynd: DV/Hanna

Í kjölfar umfjöllunar Stöðvar 2 gaf Efling út yfirlýsingu á vefsíðu sinni þar sem aðstandendur leigunnar voru kallaðir glæpamenn.

„Við erum annars vegar að díla við glæpamenn,“ er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttir, formanni Eflingar. „Hver er ástæðan fyrir að atvinnurekendur með ónýtan siðferðisáttavita hafa þennan hóp í sigtinu? Það er því þau eru jaðarhópur í samfélaginu. Þau sjá hóp af fólki þarna sem þau upplifa ekki sem mennskan. En við höfum hér líka kerfisbundið vandamál. Í óheftu kapítalísku samfélagi dregst það versta fram í fólki. Okkar róttæka nálgun í verkalýðsmálum byggist á því að leita svara við því. Arðránið sjálft er vandamálið. Gróðinn er hafinn á efsta stall og starfsfólkið sem við erum að tala um hér er kramið undir.“ Í yfirlýsingunni er starfsmannaleigan ásökuð um siðleysi og að líta ekki á starfsmenn sína sem mennska.

Jafnframt er greint frá því að áður hafi Eflingu tekist að koma starfsmannaleigu í þrot með launakröfum. Haft er eftir Viðari Þorsteinssyni, framkvæmdarstjóra Eflingar, að um hafi verið að ræða starfsmannaleigu hafi verið forveri Menn í Vinnu ehf. „Núna gera þau þetta nánast rétt á pappírnum, gefa kannski út réttan launaseðil, en hafa fundið nýjar leiðir til að féfletta fólkið framhjá lögum og reglum.“

Alþýðusamband Íslands (ASÍ)

Halldór Grönvold

„Að mínu mati er þetta nauðungarvinna og þrælahald. Þetta er mjög slæm aðstaða og ég er búin að sjá bankareikninga hjá þeim þar sem að fyrirtækið leggur inn og tekur jafn harðan út aftur. Mennirnir komast ekki neitt og þeir eru ekki á launum,“ sagði María Lóa Friðjónsdóttir, sérfræðingur hjá ASÍ, í fréttum stöðvar 2.

„Við höfum enga ástæðu til að rengja upplýsingar mannanna. Mér sýnist vera um að ræða umfangsmikla brotastarfsemi af hálfu þessa fyrirtækis, mögulega skjalafals og eitthvað ennþá verra, og gagnvart þessum starfsmönnum er þetta nauðungarvinna og mögulega þrælahald,“ sagði Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, skrifaði grein um málið á vefsíðu ASÍ undir fyrirsögninni. Á Íslandi þrífst þrælahald.

„Laun hafa ekki verið greidd og aðbúnaður er allur hinn versti. Þeir búa saman sex í einu herbergi og eiga ekki peninga fyrir nauðsynjum. Þetta er ekki einsdæmi og því miður berast örugglega ekki öll svona mál til okkar því margir fara til síns heima aftur eftir að hafa verið beittir atvinnuofbeldi.“

„Í dag höfum við ekki þetta skipulag og glæpamenn sem eru svo fégráðugir að þeim er sama um grundvallar mannréttindi geta þannig vaðið uppi nánast óáreittir. Þessi glæpafyrirtæki geta svo boðið lágt verð í framkvæmdir, jafnvel á vegum ríkis og sveitarfélaga því það er sannanlega ódýrara að fá þræla til verksins en fólk sem krefst launa.“

Vinnumálastofnun

Unnur Sverrirsdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunnar, tjáði sig um málið í kvöldfréttum RÚV 9. febrúar.

„Við höfum haft þetta fyrirtæki eiginlega í gjörgæslu allt frá haustdögum og aflað allra gagna sem okkar lagaheimildir heimila okkur.“

„Það var ekkert að finna þarna, nema þetta var allt eðlilegt og leit allt vel út. Við fundum þarna smá misræmi í þessum gögnum og kærðum málið til lögreglu í desember en því var, því miður, vísað frá í janúar. […] Þetta er alveg hræðilegt að þetta skuli viðgangast og það verður bara að taka saman höndum núna og stöðva þetta. Það er bara alveg nauðsynlegt, allir verða að taka höndum saman. Þetta er glæpastarfsemi, þetta er ekkert annað. “

Staða mála gegn Menn í vinnu ehf.

Halldór Grönvold hjá ASÍ segir að mál rúmensku verkamannanna séu í sérstökum farvegi hjá Eflingu. „Efling hefur tekið að sér að undirbúa launakröfur þeirra gegn starfsmannaleigunni. Efling aflar gagna frá þeim, ráðningarsamninga, tímaskrifta, launaseðla, bankayfirlita og svo framvegis. Á þeim grunni sjáum við hver veruleikinn er. Það hefur legið í loftinu að að ekki er öll sagan sögð með þeim pappírum sem fyrirtækið hefur lagt inn hjá Vinnumálastofnun og raunar vantar upp á þá pappíra. Við höfum enga ástæðu til að rengja þessa menn og erum bara að fá gögn til að undirbyggja þessar kröfur. Við höfum í sjálfu sér ekkert við starfsmannaleiguna að tala, það er ekki okkar hlutverk heldur Vinnumálastofnunar,“ segir Halldór.

María Lóa Friðjónsdóttir staðfesti í samskiptum við blaðamann að hún hafi séð færslur á heimabanka 2-3 starfsmanna þar sem tekið hafi verið út af reikningum jafn harðan og lagt væri inn. „Menn í vinnu legðu inn á þá til dæmis 100.000 en síðan færi 90.000 út aftur. Ég sá þessar færslur og spurði hvernig þetta væri hægt en þá vissu þeir það ekki almennilega en að Halla Rut sem á fyrirtækið vildi alltaf fá að sjá og vita PIN númer þeirra svo það virðist sem Menn í Vinnu ehf. hafi aðgang að heimabönkum mannanna.“  María Lóa vísaði svo á Eflingu til frekari upplýsinga.  Forsvarsmaður Menn í Vinnu ehf. vísar þessum ásökunum á bug og hefur sent blaðamanni undirritaða staðfestingu frá banka sínum að engin greiðsla hafi borist frá umræddum starfsmönnum leigunnar inn á reikninga Menn í vinnu ehf. Undirrituð staðfesting um launagreiðslur, bæði mánaðarlaun og fyrirgreiðslur, til þeirra starfsmanna sem rætt var við í umfjöllum Stöðvar 2.

Í samtali við Eflingu sagðist starfsmaður sem ræddi við blaðamann og var vel inn í þessu máli, ekki geta tjáð sig um einstaka mál heldur vísað á lögmann Eflingar til frekari upplýsinga. Samkvæmt lögmanni Eflingar eru fjögur mál í löginnheimtu gegn Menn í Vinnu ehf., þau hafi verið fleiri en vegna viðbragða frá Menn í Vinnu ehf hafi málunum verið vísa aftur til Eflingar. Málin virðast flest varða deilur um óuppgerðar orlofsgreiðslur en einnig hafi komið upp mál varðandi að launagreiðsla hafi ekki borist. Halla Rut segir að deilur um orlofsmál séu eldri mál sem hafi átt, fyrir löngu, að vera komin til grafar og varði aðra menn en þá sem komu fyrir í fréttum. Varðandi ógreiddar greiðslur þá sé um að ræða seinustu launagreiðslu manna sem hafi hlaupist úr starfi, en í þeim tilvikum nýtir starfsmannaleigan sér heimild til að halda eftir 50% af launum vegna óunnins uppsagnarfrests. Fyrir því eru fordæmi eins og sjá má á vef ASÍ þar sem vísað er til Hæstaréttardómar þar sem starfsmanni, sem hljópst úr starfi án þess að vinna uppsagnafrest, var gert að greiða atvinnurekenda skaðabætur sem svöruðu launum fyrir helming uppsagnafrests. Byggir þessi heimild á hjúalögum.

Engin niðurstaða og harðar ásakanir

Samkvæmt þeim gögnum sem DV hefur undir höndum og svörum við fyrirspurnum blaðamanna er verið að afla ganga í málum Rúmenanna og starfsmannaleigunnar. Þetta fær stoð í fjölmiðlaumfjöllun um málið þar sem ítrekað er tekið fram að verið sé að afla gagna. Svo virðist sem engin niðurstaða sé komin í málunum. Ekki hjá Eflingu, ekki hjá ASÍ og ekki hjá lögreglu eða ákæruvaldi. Vinnumálastofnun hefur, þegar frétt þessi er skrifuð, ekki svarað fyrirspurnum DV um málið svo ekki verður fullyrt hvort einhver niðurstaða sé komin í málum tengdum starfsmannaleigunni hjá þeim.

Ekki hefur verið greint frá neinni niðurstöðu, úrskurði eða dómi um að starfsmannaleigan hafi gerst sek um brot. Samt hafa menn haft sig mikið frammi í umfjölluninni með gildishlaðin orð á borð við: Þrælahald, nauðungarvinna, glæpastarfsemi, glæpamenn, atvinnuofbeldi, skjalafals, launaþjófnaður og svo framvegis. Hér verður ekkert fullyrt um mögulega sekt eða sakleysi starfsmannaleigunnar, en ljóst er að mál gegn henni eru flest ef ekki öll á rannsóknarstigi og engin niðurstaða komin í ljós. Samt  hefur umræða og umfjöllun verið skreytt gildishlöðnum orðum sem fela með sér ásakanir um alvarleg hegningarlagabrot.

Sjá einnig: 

Efling fordæmir Menn í vinnu: Við erum annars vegar að díla við glæpamenn

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Rússar ætla að endurlífga gamla sovéska bílategund – „Rusl frá upphafi til enda“

Rússar ætla að endurlífga gamla sovéska bílategund – „Rusl frá upphafi til enda“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Mikil verðhækkun á íslenskum fiski – Breskir fisksalar áhyggjufullir

Mikil verðhækkun á íslenskum fiski – Breskir fisksalar áhyggjufullir
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Munu Rússar taka dauðarefsingar upp á nýjan leik? Mikill þrýstingur eftir uppgjöf hermannanna í Maríupól

Munu Rússar taka dauðarefsingar upp á nýjan leik? Mikill þrýstingur eftir uppgjöf hermannanna í Maríupól
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum
Beraði sig í Laugardal
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Rússar misnotuðu skúr Karls í áróðursstríði sínu – „Mér finnst þetta undarlegt“

Rússar misnotuðu skúr Karls í áróðursstríði sínu – „Mér finnst þetta undarlegt“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Úkraína og NATÓ trúa á sigur í stríðinu – En hvað flokkast sem sigur?

Úkraína og NATÓ trúa á sigur í stríðinu – En hvað flokkast sem sigur?
Fréttir
Í gær

Maður hringdi í Lovísu og sagðist hafa drepið köttinn hennar – „Hvað er að fólki?“

Maður hringdi í Lovísu og sagðist hafa drepið köttinn hennar – „Hvað er að fólki?“
Fréttir
Í gær

Foreldrar í Granaskjóli sakaðir um aðskilnaðarstefnu – Bara sum börn fá að leika sér á trampólíninu

Foreldrar í Granaskjóli sakaðir um aðskilnaðarstefnu – Bara sum börn fá að leika sér á trampólíninu
Fréttir
Í gær

Lítil samkeppni bankanna sögð bitna á korthöfum

Lítil samkeppni bankanna sögð bitna á korthöfum
Fréttir
Í gær

Telur að NATÓ-aðild Finna og Svía geti leitt til grundvallarbreytinga í Rússlandi

Telur að NATÓ-aðild Finna og Svía geti leitt til grundvallarbreytinga í Rússlandi